"Ef þú ert heiðarleg, dugleg og reglusöm kemstu í gegnum hvers konar mótlæti í lífinu - nema þá helst heilsuleysi," sagði amma mín oft við mig þegar ég var barn. Ég lærði þessi heilræði utan að í þessari röð og reyndi eftir mætti að tileinka mér boðskap þeirra.

Þegar ég óx upp tók ég að efast um að amma hefði raðað heilræðunum upp í rétta röð. Eftir vandlega íhugun ákvað ég að taka röðunina til endurskoðunar - raða heilræðunum upp eftir mínum eigin niðurstöðum. Það leiddi til nýrrar uppröðunar.

Nr. 1. setti ég dugnaðinn.

Hugsaði með mér að ef fólk væri duglegt tækist því að efnast, fá starf við sitt hæfi og koma sér upp myndarlegu heimili.

Nr. 2 setti ég heiðarleika.

Ef fólk er heiðarlegt er það með allt sitt á þurru í viðskiptum við aðra, ekki aðeins í efnalegu tilliti heldur líka í ýmsum mannlegum samskiptum.

Nr. 3. setti ég reglusemi.

Fólk sem er sjaldnast með sjálfu sér vegna drykkju eða dópneyslu lendir smám saman í mjög vondum málum, það blasti við.

Í mörg ár var ég öðru hvoru að endurskoða röð heilræðanna og má segja að öll þrjú hafi þau einhvern tíma verið nr. 1 um tíma.

Umræður um heiðarleika hafa verið miklar að undanförnu - ekki síst varðandi meðferð á almannafé. Af því tilefni tók ég listann góða enn til endurskoðunar.

Ég hef fyrir löngu fært dugnaðinn úr efsta sæti. Ég sá fljótlega í kringum mig að dugnaðurinn einn og sér er ekki trygging fyrir lífshamingju. Jafnvel getur slíkt leitt til óhamingju, t.d. ef fólk er svo duglegt út á við að það missir allt samband við fjölskyldu sína.

Heilræðið um heiðarleika tók ég líka úr efsta sæti á þeim forsendum að algjör heiðarleiki er fátíður - svo ekki sé meira sagt. Til er nokkuð sem kallað er "hvít lygi". Án hennar væri erfitt að lifa í þessum heimi. Segjum t.d. að kona spyrji mann sinn: "Lít ég ekki vel út?" Enginn yrði hamingjusamur ef maður segði kannski af hjartans einlægni: "Nei, þú lítur herfilega út!"

Niðurstaða mín nú um stundir er líklega að reglusemin (bindindi eða mikil hófsemi skv. ráðum ömmu) sé mikilvægust. Það er sama hvað fólk er duglegt og heiðarlegt - ef það er sífullt eða uppdópað fer allt í vaskinn hjá því fljótlega. Vafalaust þarf ég þó að endurskoða þetta von bráðar aftur.

Heilræði ömmu eru auðvitað ekki fræðileg heldur hennar niðurstaða á hvað farsælt sé að hafa að leiðarljósi á lífsveginum. Eitt sýnist mér víst - ef fólk fer eftir þessum heilræðum er erfitt að koma því á kné í lífsbaráttunni.

eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur