UMFANGSMIKIÐ rannsóknarverkefni Náttúrufræðistofnunar og umhverfisráðuneytisins á afföllum rjúpu við Eyjafjörð síðastliðinn vetur gekk ekki upp. Í fyrrahaust voru 192 rjúpur merktar, langflestar í Hrísey, og á þær sett radíósenditæki.

UMFANGSMIKIÐ rannsóknarverkefni Náttúrufræðistofnunar og umhverfisráðuneytisins á afföllum rjúpu við Eyjafjörð síðastliðinn vetur gekk ekki upp.

Í fyrrahaust voru 192 rjúpur merktar, langflestar í Hrísey, og á þær sett radíósenditæki. Tilgangurinn var sá að bera saman afföll rjúpu á svæðum sem ýmist voru friðuð fyrir skotveiðum eða ekki. Fæstar rjúpurnar fóru hins vegar úr Hrísey og langflestar drápust í eynni um haustið. Á þremur mánuðum drápust 82% fuglanna. Ekki er ljóst hvers vegna afföllin voru svo mikil.

Ólafur K. Nielsen, fuglafræðingur á Náttúrufræðistofnun, segir að ekkert bendi til þess að rannsóknin takist betur í vetur. Um 560 km² svæði við austanverðan Eyjafjörð var friðað fyrir skotveiðum í þágu rannsóknarinnar, sem átti að ljúka á næsta ári. Náttúrufræðistofnun og umhverfisráðuneytið eru nú í viðræðum um framhald rannsókna og friðun.

Ákvörðun um hvort friðun verði haldið áfram verður væntanlega tekin fyrir upphaf veiðitímabilsins hinn 15. október nk.

Á senditækjunum sem sett voru á rjúpurnar var lífrofi og því var hægt að greina á merkjasendingum hvort fuglinn væri lífs eða liðinn. Senditækin vógu um 10 g. "Það var almennt álit manna að nær allar rjúpur færu úr Hrísey í september og október og hefðu vetursetu á fastalandinu. Þetta gekk ekki eftir á liðnum vetri. Fuglarnir dvöldu í Hrísey langt fram eftir hausti og voru að tínast í land allt fram í byrjun desember. Afföll voru mikil og flestir fuglarnir drápust úti í Hrísey. Tugir fugla, þar á meðal margir merktir, höfðu vetursetu í eynni og fóru aldrei í land. Þetta voru miklu færri fuglar en gert var ráð fyrir og sá samanburður sem sóst var eftir á afföllum fugla á friðuðu og ófriðuðu svæði fékkst ekki," segir Ólafur. Eins og fyrr er sagt urðu afföll á rjúpu gríðarmikil. Um 82% fugla sem voru á lífi 15. september voru dauð 93 dögum síðar, hinn 18. desember.

Stærstur hluti þeirra rjúpna sem drápust var étinn og flestar af ránfuglum. "Nokkrar rjúpur fundust heilar og höfðu athyglisverða sögu að segja. Þessir fuglar drápust í hörðu hreti sem gerði í byrjun nóvember og grófust í fönn þannig að vargar komust ekki að þeim. Krufning sýndi að fuglarnir voru sjúkir er þeir drápust, þ.e. grindhoraðir, með skitu og greinilega sýkingu í meltingarvegi. Hræin höfðu legið allt að tíu daga í snjó fyrir krufningu og því var ekki hægt að greina sjúkdómsvaldinn með öruggri vissu. Í einum fuglinum fannst þó verulega mikið af hníslum en það eru einfrumungar sem lifa sníkjulífi í görn."