Í stuði með Guði. Nafn flytjanda: Kristján Hreinsson og hljómsveitin Hans. Lög, textar og söngur ásamt tilfallandi hljóðfæraleik: Kristján Hreinsson.

Í stuði með Guði. Nafn flytjanda: Kristján Hreinsson og hljómsveitin Hans. Lög, textar og söngur ásamt tilfallandi hljóðfæraleik: Kristján Hreinsson. Aðrir hljóðfæraleikarar eru: Vilhjálmur Guðjónsson, Egill Örn Hrafnsson, Símon Jakobsson, Ásgeir Óskarsson, Tryggvi Hübner, Birgir Bragason, Magnús Einarsson, Magnús Kjartansson, Júlíus Guðmundsson, Rúnar Júlíusson, Þórir Úlfarsson og Kjartan Már Kjartansson. Bakraddir: Halla S. Jónatansdóttir og Margrét Kristín Blöndal. Hljóðblöndun: Vilhjálmur Guðjónsson, Þórir Úlfarsson og Júlíus Guðmundsson.Útgáfa: Gutti Dreifing: Edda miðlun/útgáfa. Lengd skífu: 57.13

KRISTJÁN Hreinsson á sér tæplega 30 ára sögu í íslensku tónlistarlífi. Hann hefur komið að gerð ríflega 40 hljómplatna sem textasmiður og sjálfur gefið út 5 plötur þar sem textar og lög skrifast alfarið á hans reikning. Flestir af okkar helstu poppurum og rokkurum hafa notið liðsinnis hans í gegnum tíðina og því ekki að undra að forkólfar eins og Magnús Kjartanson, Rúnar Júlíusson, Magga Stína og Rafn Jónsson skuli endurgjalda greiðann á fimmtu breiðskífu hans, Í stuði með Guði. Nafnaupptalningu er þó ekki lokið því ég tel einfaldast að lýsa þessari skífu með vísun í aðra tónlistarmenn; Bubba á Fingraförum, korrandi Stormsker, hollensk-sænsku fyllibyttuna og þjóðlagaværingjann Cornelis Wreeswijk, Magnús Þór að drafa um gamla sorrý Grána, Bellmann í glasi, Tom Waits á Swordfishtrombones, Geirmund í sveiflu og svo mætti áfram telja. Kristján sækir óspart í söngstíl og/eða textastíl þessara manna. Hann bregður upp ólíkum persónum í hverju lagi og gefur sögumanni þá rödd sem honum þykir hæfa hverju sinni.

Hugmyndin er ekki slæm. Kristján veit að hann hefur ekki ómþýðustu rödd sem völ er á og leggur því upp með stutta leikþætti þar sem röddin á að gefa textanum meiri fyllingu og dýpt. Framkvæmdin á hinn bóginn er ekki góð. Ætlun og athöfn samræmast ekki þar sem söngurinn verður oft ekki annað en pirrandi paródía af þeim fyrirmyndum sem áður var getið og nær ekki að skapa það andrúmsloft sem lagt var upp með. Á stundum verður manni jafnvel ekki um sel. Í titillaginu fer Kristján þvílíkum hamförum í ofleiknum drykkjustælum að ég átti erfitt með að fylgja þeirri vinnureglu að hlusta á það lag þrisvar sinnum með fullri athygli áður en dómur var kveðinn. Eitt slíkt feilspor hefði verið í lagi en þegar lengra er haldið inn í diskinn kemur í ljós að ekki var um einsdæmi að ræða.

Textar eru vel flestir haganlega ortir og er það vel þar sem þeir eru trompið á plötunni. Ég mundi þó ekki veðja á grand í þeim efnum frekar en öðrum sem plötunni viðkoma. Þetta eru dæmisögur úr þjóðlífinu og menn og málefni líðandi stundar fá á baukinn með kaldhæðnislegum glósum. Textarnir rista bara ekki nógu djúpt. Í annars nokkuð skemmtilegu lagi (Reiðvísu) þar sem Kristján syngur í rímnatón, kyrjar hann tvíræðan brandara þar sem niðurlagið er svo fyrirsjánlegt að það jaðrar við að vera pínlegt. Annað er eftir því. Pottormalegar dægurmálavísur og fyllirískvæði sem hefðu kannski frekar sómt sér í ársuppgjöri áramótaskaupsins heldur en brennd á geisladisk. Ljóðin skilja mann eftir kaldan.

Niðurstaðan er því sú að það sem helst vantar í tónlistarsköpun Kristjáns á þessari plötu sé einlægni og alúð. Einlægni er vandmeðfarin skepna og kannski ekki hlaupið að því fyrir leikarann (Kristján) að túlka persónur sínar án íróníu. Maður fær hins vegar á tilfinninguna að í velflestum lögunum hafi verið kastað til höndum til þess að höfundur geti firrt sig því að sköpunarverkið sé honum hjartfólgið. Þetta er sárast í ljósi þeirra hæfileika sem hann virðist þó búa yfir og koma vel fram í laginu "Fljúga himins englar" þar sem Kristján lætur glitta í sínar mýkri hliðar og nær samfara því verðskuldaðri athygli.

Ég get því ekki spáð Í stuði með Guði langri og farsælli vegferð. Kristján þarf að gefa sér meiri tíma fyrir næstu útgáfu en umfram allt þarf hann að gefa meira af sjálfum sér.

Heimir Snorrason