VESPERTINE, fjórða sólóplata Bjarkar Guðmundsdóttur, kemur út á morgun um allan heim.

VESPERTINE, fjórða sólóplata Bjarkar Guðmundsdóttur, kemur út á morgun um allan heim. Þeir dómar sem þegar hafa birst um plötuna víða erlendis hafa verið mjög góðir og einnig hafa birst lofsamlegir dómar um tónleika Bjarkar, en hún hóf tónleikaferð í París.

Fjögur ár eru síðan þriðja plata Bjarkar, Homogenic, kom út en á þeim tíma lék hún í myndinni Myrkradansaranum og sendi frá sér plötu með tónlist úr myndinni, Selmasongs.

Í viðtölum við erlend blöð segist hún hafa verið byrjuð á lögunum á Vespertine um það leyti sem Homogenic kom út en ekki hafi gefist tími til að ljúka við hana fyrr. Upptökur fóru aðallega fram í New York á síðasta ári, en platan var einnig unnin að hluta hér á landi, á Spáni og á Englandi. Samstarfsmenn Bjarkar við gerð plötunnar eru m.a. Valgeir Sigurðsson, Marius DeVries, Zeena Parkins, Thomas Knak og Guy Sigsworth.

Björk hóf tónleikaferð sína um heiminn 18. ágúst síðastliðinn og hafa umsagnir um tónleika hennar verið lofsamlegar. Í ferðinni hyggst hún leika í óperu- og leikhúsum, en á vefsetri hennar kemur fram að hún velji húsin sérstaklega með tilliti til hljóms til að tónlist hennar nái sem best til áheyrenda. Einnig mun hún leika á nokkrum 300 manna stöðum eða minni þar sem hún getur sungið án hljóðnema. Hún mun m.a. koma fram í Radio City Music Hall í New York, ríkisóperunni í Amsterdam, Lundúnaóperunni, Vínaróperunni, El Liceo í Barcelona, Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn, Þýsku óperunni í Berlín og Bolshoi-leikhúsinu í Moskvu.