*1/2 Leikstjóri: Terry Winsor. Aðalhlutverk: Sean Bean, Alex Kingston, Tom Wilkinson. (102 mín.) Bretland, 1999. Skífan. Bönnuð innan 16 ára.

ÞESSI breska glæpamynd segir frá Jason Locke sem losnar úr fangelsi eftir fimm ára vist. Félagarnir sem hann hélt hlífiskildi yfir meðan á fangelsisdvölinni stóð hafa allir stórefnast á meðan og brátt er Jason komin með ráðagerð um að snúa hlutföllunum við. Í kjölfarið fylgja átök í undirheimunum og hefðbundið blóðbað að hætti Tarantinos nema hér er á ferðinni heldur litlaust innlegg í kvikmyndahefð þá sem óhætt er að kenna við leikstjórann unga. Svikular konur, svikulir karlar, flókið verkefni. Allt er að hætti hússins en þó nær kvikmyndin aldrei að fanga athygli áhorfandans að ráði. Þrátt fyrir nokkra króka og brögð í handriti er frásögnin fyrirsjáanleg, persónur flatar og að myndinni lokinni situr áhorfandinn eftir og hefur keypt köttinn í sekknum eins og svo oft áður.

Heiða Jóhannsdóttir