Pola X **½ Fyrsta kvikmynd franska leikstjórans Leos Carax síðan hann gerði Elskendurna á Pont-Neuf brúnni . Flott, frönsk og framúrstefnuleg en dálítið hæg.

Pola X **½

Fyrsta kvikmynd franska leikstjórans Leos Carax síðan hann gerði Elskendurna á Pont-Neuf brúnni. Flott, frönsk og framúrstefnuleg en dálítið hæg.

Hraðbrautin 2 / Freeway 2 ***

Mjög hrottaleg en um leið áhugaverð mynd um vitfirringu handan landamæranna. Hentar þó aðeins þeim allra sjóuðustu í sótsvörtum kvikmyndum.

Oh Brother, Where Art Thou? ***

Coen-bræður endursegja lauslega Odysseifskviðu í gegnum þrjá strokufanga á þriðja áratugnum. Myndin er býsna góð á köflum, ekkert meira eða dýpra en það. (H.L.)

Dónamyndir / Dirty Pictures ***

Virkilega áhugaverð mynd um minnisstæð málaferli út af sýningu á ljósmyndum Roberts Mapplethorpes sem velti upp spurningunum um tjáningarfrelsi í listum.

Meet the Parents ***

Oft meinfyndin, byggð á seinheppni og afkáralegum uppákomum í viðskiptum Stiller við tilvonandi tendgapabba, sem De Niro leikur af ýktum sannfæringarkrafti. (S.V.)

Fjölskyldumaðurinn / Family Man **½

Cage heldur uppi amerískri jólasögu um einstæðing sem fyrir töfra fær að kynnast dásemd fjölskyldulífsins. (A.I.)

Stranglega bönnuð börnum / Rated X **½

Fullmikill Boogie Nights-þefur hér en stórt framfaraskref hjá bræðrunum Sheen,og Estevez.

Wonder Boys ***½

Svört og húmorísk mynd um háskólaprófessor og nemanda hans sem læra ýmislegt hvor af öðrum um skáldskap og lífið. Einstaklega svöl og smekkleg mynd með frábærum leik. (H.L.)

Crouching Tiger, Hidden Dragon ***

Mögnuð ástarsaga frá Ang Lee úr gamla Kína, sem sigrast á þyngdarlögmálinu í glæsilegum bardagaatriðum.(A.I.)

Hraðbrautin 2/Freeway 2 ***

Óvægin, hömlulaus og grótesk kvikmynd með stingandi samfélagsgagnrýni. Svona kvikmynd hefði Tarantino líklega gert hefði hann fæðst sem kona.

Brúin/ Un pont entre deux rives **½

Frönsk ástarsaga, í leikstjórn Gérard Depardieu og Frédéric Auburtin, sem fer sínar eigin leiðir og er áhugaverð fyrir vikið.

Hinsta kvöldið/ Last Night ***½

Djúp og eftirminnileg kanadísk kvikmynd sem fjallar um hversdagsleikann andspænis heimsenda.

Saga Arturo Sandoval /For Love or Country: The Arturo Sandoval Story ***

Trúverðug og átakanleg sönn saga af kúbverska trompetleikaranum Arturo Sandoval og baráttu hans fyrir pólitísku hæli í Bandaríkjunum. Andy Garcia hefur aldrei leikið betur.

Lifendur og liðnir / Waking the Dead ***

Óvenju trúverðug ástarsaga með alvarlegum pólitískum undirtón. Frábær leikur hins rísandi Billy Cudrup og örugg leikstjórn hins óuppgötvaða leikstjóra Keiths Gordons.

Unbreakable ***

Áhugaverð og þægileg kvikmynd sem veltir upp tilvistarspurningum á spennandi hátt. (H.L.)

Villiljós ***

Djörf, oft bráðfyndin, annað veifið glimrandi vel skrifuð lýsing á ótta og tilvistarkreppu reykvísks æskufólks og leikurinn yfirleitt góður.(S.V.)

The Contender ***

Býsna áhugaverð mynd um baktjaldamakk pólitíkusanna í Hvíta húsinu. Góðir leikarar og fín flétta. (H.L.)

Tregi tryllta mannsins / Wild Man Blues ***

Fín "fluga á vegg"-heimildarmynd um sjaldgæfa Evrópureisu klarínettuleikarans Woodys Allens og djasssveitar þeirrar sem hann hefur leikið með á hverju mánudagskvöldi í áraraðir.

Fortíðardraugar / The Yards ***

Þétt og gott spennudrama um vandkvæði sem geta verið bundin því að reyna að snúa baki við vafasamri fortíð. Leikur Marks Wahlbergs er lágstemmdur en lúmskur.

Billy Elliot ***

Einföld, falleg og fyndin mynd um baráttu 11 ára drengs að fá að vera hann sjálfur, og pabba hans við að finna einhverja von.(H.L.)

Tígurland / Tigerland ***

Frábært drama um harðneskjuna sem ríkir í æfingabúðum fyrir unga hermenn sem bíða þess að verða sendir til Víetnam. Aðalleikarinn Colin Farrell ER næsta ofurstjarnan.

Dópsalinn / Drug Dealer ***

Lítil mynd gerð af vanefnum en augljósri ástríðu. Lýsir eymdarlífi smákrimmans á strætum New York-borgar. Svo hrá að blóðið drýpur úr.

State And Main ***

Handritið er haganlega skrifað og er byggt upp á mjög klassískan hátt en vantar spennu. Kvikmyndin í heild er ein leikaraveisla og þeir eru hver öðrum skemmtilegri.

Risaeðlurnar/Dinosaurs **½

Teikningarnar eru ótrúlega góðar en formúlan er tekin að þreytast. Risaeðlurnar eru fyrirtaks fjölskylduskemmtun.