Eggert Haukdal, fv. alþingismaður, hefur beðið Morgunblaðið að birta eftirfarandi greinargerð:

"Vegna endurtekins fréttaflutnings fjölmiðla, þar sem ákærumál mín voru tengd við umfjöllum um málefni Árna Johnsens, þykir mér hlýða að birta eftirfarandi:

En áður en ég finn fyrrnefndum orðum mínum stað, vil ég skýra forsögu minna mála, svo mjög sem þau hafa verið til umræðu í fjölmiðlum, án þess að hið rétta hafi komið fram.

Um alllanga tíð hefur fámennur, en harðsnúinn minni-hlutahópur látið að sér kveða hér í Vestur-Landeyjum og komið röngum fréttum af máli mínu á framfæri við fjölmiðla. Hefur þessi andstaða m.a. verið fólgin í því, að aðilar hafa stöðugt haldið uppi áróðri um "ranga reikninga sveitarfélagsins", eins og þeir orða það. En í gegnum tíðina hefur öllum þessum kærum verið vísað til föðurhúsanna.

Ég hefi átt í höggi við ættingja manna, er sóttu að föður mínum fyrir hálfri öld, en hann var hér oddviti á undan mér. Til liðs við þennan hóp manna hafa á undangengnum árum flækst einstaka menn, sem flutt hafa í sveitina. Má um það segja, að það dregur sig saman, sem dámlíkast er.

Þá er rétt að geta þess, að umræddir heimamenn hafa notið aðvífandi hvatningar af pólitískum toga til þess að ákæra mig.

Af "röngum" reikningum

Um margra ára bil hafa ársreikningar V-Landeyjahrepps jafnan verið samþykktir samhljóða. Reikningurinn fyrir árið 1997 hafði verið samþykktur með fjórum atkvæðum, en einn sat hjá. Minni-hluti hreppsnefndar hafði um nokkurt skeið verið með stöðugar kröfur til Félagsmálaráðuneytisins vegna rangra reikninga. Beitti minni-hluti hreppsnefndar fyrir sig lögmanninum Ingólfi Hjartarsyni, sem er bróðir aðal-kærandans Hjartar Hjartarsonar.

Í fyrsta sinn hlaut nú minni-hlutinn náð hjá Húnboga þorsteinssyni, þáverandi ráðuneytisstjóra í Félagsmálaráðuneytinu, sem beitti sér fyrir að ársreikningur 1997 yrði tekinn upp og endurgerður. Húnbogi naut aðstoðar Halldórs Hróars Sigurðssonar, eins af yfirmönnum Endurskoðunarskrifstofu KPMG, enda fengi skrifstofan vinnu við endurskoðun reikninganna. Ég þekkti báða þessa menn, en lét þá blekkja mig til þess að ganga til þessa leiks, að taka upp samþykkta reikninga.

V-Landeyjahreppur hafði verið með löggiltan endurskoðanda og ég treysti því, að hlutirnir væru í lagi hjá honum.

Þessu næst er frá að segja, að Einar Sveinbjörnsson, löggiltur endurskoðandi hjá KPMG (fyrrverandi sveitarstjóri á Stokkseyri) var ráðinn til þess að endurskoða reikningana að nýju. það átti svo eftir að koma í ljós, að hann "bætti um betur" frá fyrrverandi endurskoðanda. það sýndi sig við vinnu Einars, að fyrrverandi endurskoðandi V-Landeyjahrepps hafði, með röngu bókhaldi, talið skuld mína við V-Landeyjahrepp kr. 500,000,00. Auk þessa komst Einar, sem ráðinn hafði verið til þess að færa hlutina í "rétt horf", að því að ég skuldaði hreppnum kr. 2,3 milljónir til viðbótar! Fyrirfram hafði ég haldið, að vinnubrögð löggiltra endurskoðenda væru með öðrum hætti en kom í ljós hjá þessum tveimur mönnum. Samkvæmt nýrri rannsókn hinna hæfustu manna, liggja nú fyrir ný gögn varðandi þriðja ákærulið (sem Hæstiréttur sýknaði mig ekki fyrir), sem sópa niðurstöðum endurskoðendanna beggja út af borðinu, einnig að því er varðar þennan lið.

Fljótlega eftir að Einar í KPMG tók til starfa, fóru að leka út frá honum fréttir til minni-hlutans, sem gengu svo áfram til Húnboga þorsteinssonar og Ingólfs Hjartarsonar lögmanns. Fréttirnar voru þess efnis, að fyrir lægi í reikningunum hjá mér stórfelld umboðssvik og milljóna-fjárdráttur. Þessar fregnir bárust út, löngu áður en skýrsla Einars var tilbúin.

Eftir þetta kröfðust Húnbogi þorsteinsson og Halldór Hróar Sigurðsson þess með símtölum að kvöldlagi, að ég segði þegar í stað af mér oddvitastörfum í V-Landeyjahreppi. þar með höfðu þeir sest í dómarasæti og héldu því umbúðalaust fram við mig, að það sem ég hefði aðhafst, væri svo ljótt og alvarlegt, að ég ætti einskis annars úrkosti en segja tafarlaust af mér.

þegar skýrsla Einars lá svo fyrir hinn 10. febrúar 1999, beitti minni-hlutinn sér fyrir því, að 9 íbúar V-Landeyjahrepps, báðu Ríkislögreglustjóra um opinbera rannsókn, með tilliti þeirra meintu ávirðinga minna, er fram kæmu í skýrslu Einars Sveinbjörnssonar í KPMG. Í skýrslu sinni hafði Einar komist að þeirri niðurstöðu, að mér bæri að endurgreiða V-Landeyjahreppi vegna fjárdráttar kr. 3,000,000,00 og af þeirri upphæð hafði ég greitt kr. 2,8 milljónir fyrir árslok 1998.

Greinargerð Einars Sveinbjörnssonar í KPMG var tekið sem heilögum sannleika. Við vinnslu hennar virðist hafa verið markmiðið að finna á mig sakir, en leita ekki hins rétta í málinu. Við rannsóknina hjá lögreglu var auk þess brotinn á mér réttur skv. lögum um meðferð opinberra mála.

Ein meginákæran á mig hljóðaði svo, að skuldabréf í fórum hreppsins, með ábyrgð meiri-hluta hreppsnefndar, væri hreppnum óviðkomandi, en ég hefði tekið það til persónulegra nota. Rannsakendur skildu ekki, að við jarðakaup, sem framkvæmd voru, varð hreppsfélagið að gangast undir ábyrgðir, bæði við kaup og sölu, enda neituðu bankar að aflétta þessum ábyrgðum af V-Landeyjahreppi. Rannsakendur ætluðu mér hins vegar að greiða, persónulega og úr eigin vasa, þegar kaupandi jarðarinnar gat ekki staðið í skilum, þótt á allan hátt hefði verið staðið rétt að sölu jarðarinnar.

Eftir að skýrsla KPMG lá fyrir, svo og gögn úr opinberri rannsókn, voru settar fram á mig þrjár ákærur, sem voru nánast uppskrift úr skýrslu KPMG. Málið var dæmt í Héraðsdómi Suðurlands, en dómstjórinn hafði valið einn af þremur dómurum hans til þess að dæma í málinu. Svo vildi til, að þessi dómari var nátengdur KPMG og því afar vel valinn. Ég var dæmdur sekur um öll ákæruatriðin í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára. Að lesa dóminn var eins og að lesa skýrslu Einars Sveinbjörnssonar í Endurskoðun KPMG.

Þessi dómur féll í mars 2000, en rannsókn málsins hafði hafist í nóvember 1998. Heilir 17 mánuðir voru því liðnir frá því ofsóknin gegn mér hófst og þangað til þessi dómur var kveðinn upp.

Eftir að hafa gengið í gegnum dimman dal allan þennan tíma, fann ég loks menn mér til hjálpar á vordögum 2000. Guðbjörn Jónsson upplýsti sannleikann í málinu í greinargóðri skýrslu dags. 4. júní 2000. Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður tók málið að sér vorið 2000. Auk þess unnu prófessor í lögum og löggiltur endurskoðandi greinargerð, sem þeir afhentu lögmanni mínum 26. ágúst 2000. Þessir menn allir komu mér til ómetanlegrar hjálpar við að snúa ofan af þeim rangindum, er tveir löggiltir endurskoðendur og lögreglufulltrúi hjá Ríkislögreglustjóra bjuggu til á mig.

Til þess að þetta gæti orðið, var ég svo lánsamur að geta látið þessum hjálparmönnum mínum í té ljósrit af gögnum úr bókhaldi sveitarfélagsins, sem ég átti heima hjá mér. Án þessara gagna hefði ég staðið illa að vígi, enda hafði skrifstofu hreppsins í Njálsbúð verið lokað fyrir mér, að kröfu minni-hlutans. Einar í KPMG lagði blessun sína yfir þá aðgerð.

Á skrifstofunni voru fyrirliggjandi öll gögn frá minni oddvitatíð, svo og frá oddvitatíð föður míns. Hvers vegna gat ekki Einar í KPMG lesið rétt út úr þeim plöggum, sem þarna lágu fyrir?

Bréfið, sem reyndist lykill að sannleika málsins

Ekkert af þessum gögnum, sem ég fann í fórum mínum, kom þó í eins góðar þarfir eins og ljósrit af bréfi Búnaðarbankans á Hellu, dags. 23. desember 1994, þar sem bankinn staðfestir, að hreppurinn fái lán að fjárhæð kr. 1,035,000,00 til að verjast vanskilum vegna viðskipa með jörðina Eystra-Fíflholt í V-Landeyjum.

Það hlálega er, að grundvöllur fyrsta ákæruliðarins á mig, sem settur var fram af Einari í KPMG og Birgi Sigmundssyni, lögreglufulltrúa hjá Ríkislögreglustjóra, var sá, að ég hefði tekið þetta sama skuldabréfalán að upphæð kr. 1,035,000,00 með ábyrgð meiri-hluta hreppsnefndar til eigin, persónulegra nota!

Þetta bréf Búnaðarbankans á Hellu var því mikill rassskellur fyrir ákærendur mína og fylgir mynd af bréfinu þessari greinargerð.

Vitnisburður aðalvitnis ákæruvaldsins, Einars Sveinbjörnssonar, fyrir dómi varðandi skuldabréfið kr. 1,035,000,00.

1) Aðalvitni ákæruvaldsins ber fyrir dómi, að: (bls. 59)

Dómsformaður: "Vitni sér dómskjal nr. 14 og þau þrjú fylgiskjöl, sem eru með því skjali."

Mætti (Einar Sveinbjörnsson): "þetta, sko, þegar þetta er fært, þá er sagt, þetta er greiðsla á láni vegna Eystra-Fíflholts, en í bókhaldi V-Landeyjahrepps er þetta lán ekki til, þó svo V-Landeyjahreppur sé talinn skuldari á skuldabréfinu. Sem þýðir það, að álykta má, að þetta lán sé í raun hreppnum óviðkomandi, af því að það er ekki í bókhaldi hreppsins, fært."

Má virkilega álykta svo? Búnaðarbanki Íslands hefur útbúið skuldabréf, sbr. bréf hér að ofan, fengið sjálfskuldarábyrgð sveitunga minna, fengið skuldabréfið undirritað fyrir hönd V-Landeyjahrepps, og undirskriftir vottaðar, - má þá virkilega álykta að það hafi einvörðungu verið gert af gamanseminni einni saman að útbúa umrætt skuldabréf? Gamanið kárnar að vísu, þegar Búnaðarbankinn leyfir sér að krefja "talinn" skuldara um skil. Er það virkilega svo, að skuldir þurfi ekki að greiða, ef þær eru ekki bókaðar í bókhaldi viðkomandi skuldara? Af orðum saksóknara má einnig ráða, að svo sé.

2) Einnig: (bls. 82, skuldabréf kr. 1,035,000,00)

Verjandi: O.K., þá erum við sammála, O.K., þannig að þá lækkar gróðinn sem því nemur. En hvernig er sá gróði, hvernig kemur hann honum til, hvernig hagnast, hver er auðgunin hjá oddvitanum með því að afskrifa kröfuna, kröfu hreppsins?

Mætti (Einar Sveinbjörnsson): "Auðgunin oddvitans liggur kannski ekkert endilega ljóst fyrir í því, nema því aðeins að þarna hafa verið að skuldbinda, taka lán hjá sveitarsjóði, láta sveitarsjóðinn taka lán sem notað er einhverra annarra þarfa heldur en sveitarfélagsins."

Auðgun oddvitans, sem liggur ekki ljóst fyrir, er þessi: Allt andvirði skuldabréfsins, kr. 1,035,000,00, rann til Búnaðarbanka Íslands til lúkningar á skuldum hreppsins, og oddvitinn auðgaðist ekki af neinu. Með hálfkveðnum vísum heldur hið sérfróða vitni ákæruvaldsins því fram, að oddvitinn hafi auðgast, en það er ekki ljóst hvernig??? Aðalvitni ákæruvaldsins er það ekkert endilega ljóst, hver auðgunin var, og skal ekki undra. Er ekki lágmarkskrafa, að vitað sé með nokkurri vissu, hverju var stolið, hve miklu og helst hvernig? Hvar eru gögn þessum aðdróttunum um auðgun til staðfestu?

Á þessu stigi er ákæruvaldinu fullkomlega ljóst að allt andvirði skuldabréfs kr. 1,035,000,00 rann óskipt til Búnaðarbanka Íslands, til greiðslu á öðrum skuldabréfum. Samt er látið gott heita að aðalvitnið hafi uppi dylgjur um fjárdrátt.

Ef sýnt er fram á að skuldabréf kr. 1,035,000,00 gékk til greiðslu á öðru skuldabréfi, þar sem V-Landeyjahreppur var skuldari, þá er ásökunin fallin um sjálfa sig og sýna þarf fram á að hið fyrra eða fyrri skuldabréf hafi verið hreppnum óviðkomandi. Meðan ekki eru bornar brigður á fyrri skuldabréf, þá verða þau að teljast lögmæt og greiðsla á þeim fullkomlega heimil.

Fyrra dómi Héraðsdóms í máli mínu var áfrýjað til Hæstaréttar. Hæstiréttur felldi hann úr gildi og sendi hann með skömm aftur heim í hérað til nýrrar meðferðar. Í seinni dómi Héraðsdóms var ég sýknaður af 1. og 2. ákæru, en þær voru meginkröfur KPMG gegn mér. En ég var sakfelldur fyrir 3. ákæru, fjárdrátt að upphæð kr. 500,000,00. þeim dómi var áfrýjað að nýju til Hæstaréttar, sem staðfesti hann 17. maí 2001.

Nú liggja hins vegar fyrir ný gögn varðandi þetta 3. ákæruatriði, sem senn mun komið á framfæri.

Áður en málið var dómtekið í Hæstarétti í maí síðast liðnum, felldi Ríkissaksóknari niður 2. ákæruliðinn, enda var þá komið í ljós, að tví-ákært var samkvæmt honum.

Ekki verður hjá því komist í þessari greinargerð, að skýra frá því, að KPMG lét greiða sér úr hreppssjóði V-Landeyjahrepps kr. 2,7 milljónir fyrir tveggja og hálfs mánaðar vinnu við að reikna út rangar ákærur á mig.

Er þá býsna langt seilst til að hafa fyrir salti í grautinn, og þörfin fyrir aukin verkefni óskapleg.

Beiðni um opinbera rannsókn

Hinn 24. maí síðast liðinn, eða fyrir réttum fjórum mánuðum, undirrituðu 9 íbúar V-Landeyjahrepps beiðni til Ríkislögreglustjóra um opinbera rannsókn á fjárreiðum sveitarfélagsins frá og með nýjum ársreikningi 1997 og til þessa dags. Rétta er að taka fram, þótt liðnir séu tæpir fjórir mánuðir frá því beiðnin var sett fram, að ekki hefur orðið vart neinna undirtekta af hálfu Ríkislögreglustjóra. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að beiðni frá 9 íbúum til Ríkislögreglustjóra um opinbera rannsókn á fjárreiðum mínum kom fram 23. febrúar 1999 og tæpum einum og hálfum mánuði síðar leitaði Ríkislögreglustjóri álits hreppsnefndar V-Landeyjahrepps á málinu, sem ekki taldi þörf á slíkri rannsókn. Henni var eigi af síður hleypt af stokkunum og í framhaldi af henni settar fram þrjár ákærur á mig eftir rannsókn KPMG og Ríkislögreglustjóra.

Nú hefi ég verið sýknaður af öllum kröfum um fjárdrátt, sem tengist kaupum og sölu jarðarinnar Eystra-Fíflholts. Með sýknudómi Héraðsdóms og Hæstaréttar hefur verið staðfest, að endurgerður ársreikningur fyrir árið 1997 er rangur, svo og allir reikningar síðan.

Hvað dvelur Ríkislögreglustjóra, miðað við hin skjótu viðbrögð hans, þegar leitað var til hans í fyrra skiptið?

Þá er rétt að greina frá því, að ég hefi ítrekað óskað liðsinnis Félagsmálaráðuneytisins, frá því að sýknudómur var kveðinn upp yfir mér í Héraðsdómi 6. febrúar síðast liðinn, en án árangurs. Hinn 12. febrúar síðast liðinn skrifaði ég ráðuneytinu langt bréf, þar sem ég skýrði málstað minn. Hinn 26. júní 2001 barst mér svar, þar sem segir, að niðurstaða ráðuneytisins sé sú, að ekki sé tilefni til afskipta þess af málinu.

Ég svaraði neitun ráðuneytisins með eftirfarandi bréfi, dags. 28. júní 2001:

Félagsmálaráðuneytið,

c/o Berglind Ásgeirsdóttir,

Hafnarhúsinu við Tryggvagötu,

150 Reykjavík.

Ég hefi móttekið bréf ráðuneytisins dags. 26. júní, þar sem ráðuneytið hafnar alfarið beiðni minni um aðgerðir í máli mínu.

Það sætir undrun, svo ekki sé meira sagt, að ráðuneytið telji ekki ástæðu til aðgerða í máli mínu nú, en hafi fyrr gengið af kappi gegn mér í hið fyrra sinn. Fyrri afskipti ráðuneytisins stuðluðu m.a. að því, að ég var dreginn fyrir dómstóla og áður gert, að kröfu KPMG, að greiða kr. 2,8 milljónir í hreppssjóð. Hæstiréttur Íslands hefur nú ómerkt þessar aðfarir.

Samkvæmt dómi Hæstaréttar er ársreikningur V-Landeyjahrepps fyrir árið 1997 rangur, svo og síðari ársreikningar, af sömu örsökum. Í hið fyrra sinni dugðu ráðuneytinu sögusagnir um að eitthvað væri að, en dómur Hæstaréttar hrekkur ekki til nú. því er spurt: Hvað veldur? Svars er vænst og verður fast gengið eftir.

Samkvæmt óháðri rannsókn, sem nú er í gangi, er ljóst að sakfellingardómur Hæstaréttar á sér ekki stoð í gögnum málsins og verður leitað endurupptöku málsins sbr. meðfylgjandi bréf frá lögmanni mínum.

Enn eru ekki öll kurl komin til grafar í þessu máli, en ljóst við nánari skoðun, að fyrrum endurskoðandi hreppsins hefur m.a. "týnt" inneign minni í bókhaldi frá 1994. það er einnig ljóst, að sökum hefur verið logið upp á mig og þar má nefna KPMG og Ríkislögreglustjóra. Opinberri rannsókn, ef af verður, mun stýrt af aðilum sem hafa komið á mig sökum og eiga nú rannsaka eigin verk. því hefði verið nauðsynlegt fyrir mig að ráðuneytið sinnti lögbundinni skyldu sinni og tæki til hendi, og sárt að sjá, hve deigt ráðuneytið er. Augljóst er, að ráðuneytið hleypur frá ábyrgð sinni og lögbundnum starfsskyldum.

Ráðherra mun þurfa að svara fyrir það á Alþingi og fyrir alþjóð í fyllingu tímans, og ekki mun þess langt að bíða. það er ekki líðandi fyrir stjórnmálamenn, að hið opinbera skuli geta farið gegn þeim í pólitískum ofsóknum, án þess að mál séu skoðuð ofan í kjölinn. Líta verður svo á, að ráðuneytið hafi nú tekið afstöðu í málinu.

Einskis mun látið ófreistað að fá botn í málið, enda snýr málið þannig við, að saklaus er ég dreginn fyrir dóm á tilbúnum forsendum, eins og glögg má sjá. það ætti að vera hverjum manni alvörumál, að slíkt geti gerst á Íslandi, að pólitískar ofsóknir hafi slíkt brautargengi í ráðuneytum landsins.

Að lokum til þeirra, sem fylgjast með: Máli þessu er ekki lokið og er í reynd rétt að byrja.

Eggert Haukdal."

Svar félagsmálaráðuneytisins

Ráðuneytið svarar þessu bréfi mínu, hinn 31. júlí 2001, með eftirfarandi hætti:

Eggert Haukdal,

Bergþórshvoli,

861 Hvolsvöllur.

Vísað er í bréf yðar dags. 28. júní síðast liðinn, þar sem þér óskið frekari skýringa á svari ráðuneytisins í bréfi til yðar dags. 26. júní síðast liðinn.

Samkvæmt 4. gr. lögreglulaga nr. 90 1996 er það dómsmálaráðherra, sem er æðsti yfirmaður lögreglumála, en Ríkislögreglustjórinn fer með málefni lögreglunnar í umboði hans. Dómsmálaráðherra skal einnig hafa eftirlit með framkvæmd ákæruvalds og getur krafið Ríkisssaksóknara skýrslna um einstök mál, sbr. 26. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19 1991.

Ráðuneytið telur ótvírætt, að beiðnum um frekari rannsókn í máli yðar verði með vísan til fyrrgreindra lagaákvæða að beina til dómsmálaráðherra. Tekið skal fram, að sveitarstjórnarlög nr. 45 1998 hafa ekki að geyma nein ákvæði, sem leitt geti til annarrar niðurstöðu. Getur því ekki orðið um frekari afskipta að ræða af hálfu þessa ráðuneytis vegna máls yðar.

Fyrir hönd ráðherra,

Berglind Ásgeirsdóttir - Garðar Jónsson."

Svo mörg voru þau orð. En fyrrnefnt bréf mitt frá 12. febrúar 2001 var upp á 10 blaðsíður og máske kemur að því, að efni þess verði rakið síðar.

Niðurstöður prófessors í lögum og löggilts endurskoðanda um ákæruefnin á hendur mér.

Ákæruliður I: "Af rannsókn málsins og viðbótargögnum má vera ljóst, að ekki voru minnstu efni til að ákæra fyrir þennan lið, eins og hann liggur fyrir."

Ákæruliður II, töluliður 1: "Sá alvarlegi ágalli, sem á rannsókn málsins er, brýtur í bága við ákvæði 31., 68. og 70. grein laga nr. 26 1991 um meðferð opinberra mála. Eins og málið liggur fyrir, voru engar forsendur til að ákæra fyrir meint brot skv. kafla II, tölulið 1 í ákæru, enda er þessi liður á miklum misskilningi byggður af hálfu ákæruvaldsins.

Ákæruliður II, töluliður 2: "Sætir það furðu, að í dómsorði er fullyrt, að Eggert Haukdal hafi játað fjárdráttarbrot, þegar staðfest neitun hans í því efni liggur fyrir. Hvað þetta ákæruatriði varðar er sérstök ástæða til að minna á þá grundvallarreglu íslensks réttarfars, að enginn teljist sekur fyrir dómi fyrr en sök hans er sönnuð. Hér skortir með öllu á, að nokkrar sönnur hafi verið færðar á, að Eggert Haukdal hafi dregið sér fé, skv. II.ákærulið, tölulið 2."

"Í ljósi framangreinds rökstuðnings í þessari greinargerð er það afdráttarlaus skoðun okkar, að engin efni séu til að sakfella Eggert Haukdal vegna þeirra ákæruliða, sem í málinu er að finna."

Fréttaflutningur fjölmiðla

Í upphafi þessara greinargerðar vék ég að því, að í fréttum fjölmiðla hefði mál mitt verið dregið inn í frásagnir af málefnum Árna Johnsens. Formaður laganefndar Lögmannafélagsins, Jakob Möller, er dreginn fram til þess að tjá sig um mál Árna, og getur þess í leiðinni, í tveimur aðskildum fréttatímum 17. og 18. júlí s.l., að ég hafi verið dæmdur í 3ja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hann gat ekki skýrt rétt frá þessu, þar sem sannleikurinn er sá, að dómur minn hljóðaði upp á 2ja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Guð sé samt lof fyrir, að Ríkisútvarpið skyldi hafa bein í rófunni til þess að vara íslensku þjóðina við bófanum Eggerti Haukdal!"

Höfundur er fv. alþingismaður.