Séð yfir víkingabúðina við rústir Sarum-kastala.
Séð yfir víkingabúðina við rústir Sarum-kastala.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tómstundavíkingar fyrirfinnast í Englandi eins og Sigrún Davíðsdóttir komst að er hún rakst á nokkra þeirra við kastalarústir og heyrði að Magnús Magnússon er nokkurs konar goð í þeirra hópi.

Fyrir fimmtán árum eða svo hefði þetta ekki verið nema bardagasýning og kannski nokkrir að skera út. Nú eru þetta heilar búðir," segir víkingurinn Þorbjörn og lítur yfir blómlegar víkingabúðirnar, þar sem er verið að vefa, baka brauð, smíða tæki og tól og sinna öðru daglegu donti víkingatímans. Í hvunndagslífinu heitir Þorbjörn reyndar Bryan og er blaðamaður, en í víkingalífinu heitir hann Þorbjörn, eða Thorbjorn eins og hann segir sjálfur með enskum hreim.

Bryan er einn af vaxandi hópi Breta, sem eru tómstundavíkingar. Hann hefur rækt þetta áhugamál sitt í átján ár. Reyndar hefur hann ekki lengur mikinn tíma til að smíða vopn og sinna öðrum víkingastörfum, því drjúgur tími hans nú fer í að skipuleggja víkingamót, halda hópnum sínum gangandi og halda sambandi við aðra víkinga, bæði í Bretlandi og í öðrum löndum, til dæmis á Norðurlöndum.

Í hópnum hans Þorbjörns víkings eru fimmtán fullorðnir og sjö börn.

Hópurinn hittist að minnsta kosti aðra hverja viku. Bryan segir að sumir dragist inn í víkingahópinn af því þeir eigi vini þar fyrir. Aðrir ganga í hópinn af því þeir hafa áhuga á sögu víkinganna, á því að berjast eða af því að þeim finnst gaman að tjaldbúðalífinu. "Ég byrjaði á þessu af því ég hef áhuga á sögu og bardagaíþróttum," segir Þorbjörn.

Bakgrunnur fólks er ólíkur. Þarna er landslagsarkitekt, tölvufólk, kennarar, endurskoðandi, námsmaður, einn vinnur við bókaútgáfu og annar gerir við járnbrautalestir. Það voru Þorbjörn og vinur hans, sem stofnuðu núverandi víkingahópinn þeirra í London fyrir þremur árum, en það var þá fyrsti hópurinn í London.

Fiona, sem er að baka brauð yfir opnum eldi er nýgengin í hópinn.

"Vinnufélagi minn er í hópnum og ég kynntist þessu í gegnum hann," segir hún. "Ég á níu ára stjúpson og datt í hug að þetta væri skemmtilegt viðfangsefni að rækja með honum." Í daglega lífinu vinnur Fiona við tölvuráðgjöf, en víkingalífið í tómstundum hentar henni hið besta. "Þetta er skemmtileg uppákoma. Mér finnst gaman að tjalda og svo er líka gaman að drekka og berjast," segir víkingakonan hressilega og gefur körlunum ekkert eftir í vaskleika.

Ísland er að mörgu leyti þeirra fyrirheitna land og Bryan var á Íslandi bæði 1995 og 1997 á víkingamótinu í Hafnarfirði. Hann undrast reyndar að það skuli ekki vera fleiri tómstundavíkingar á Íslandi, en nokkra hitti hann þó í fyrra þegar bardagans við Hastings árið 1200 var minnst. "En ætli lítill áhugi Íslendinga stafi ekki af því að þeim finnist þeir vera nægilega nálægt arfinum og þurfi því ekkert að sanna rétt sinn til hans," veltir hann fyrir sér. "Við hér erum flest í þessu til að kynnast sögunni og upplifa hana og leggjum mikið á okkur til að allt sé rétt, sem við gerum."

Fallegar tjaldbúðir fullar af fallegum hlutum

Það er óneitanlega tilkomumikið að litast um við Sarum kastalarústirnar í Dorset. Tjaldbúðir úti um allt, falleg tól og tæki og fólk í litríkum búningum að störfum í búðunum. Einstaka karlpeningur æfir vopnfimi, en annars er allt með kyrrum kjörum þennan morgun. Bardaginn byrjar ekki fyrr en um hádegi.

Samkoman er til að minnast skæra sem voru milli víkinganna er komu til Englands 865 og Englendinga. Mikið átti eftir að ganga á. Árið 1002 drápu Englendingar undir forystu Aðalráðs Englakonungs menn Sveins Danakonungs, þar á meðal systur hans. Upp úr þessu spruttu átök, sem stóðu fram eftir öldinni. Sveinn dó 1014 og arftaki hans var Knútur.

Aðalráður dó og Játmundur járnsíða tók við af honum. Bardagi dagsins var í minningu bardaga herja þeirra 1016.

Fjöldamörg söguleg minnismerki í Englandi falla undir English Heritage, en sú stofnun sér um að halda þeim við. English Heritage finnur upp á öllu mögulegu til að draga gesti að minnismerkjunum. Nútímavíkingar í skipulögðum hópum hafa því nóg að gera, einkum á sumrin, við að mæta á uppákomur, sem English Heritage skipuleggur og samkoman þennan dag var einmitt á þeirra vegum. En bæjarstjórnir víða um Bretland eru einnig iðnar við að halda sögulegar samkomur og ýmiss konar hátíðir og útisamkomur með sögulegu ívafi sækjast einnig eftir víkingunum.

Víkingarnir fá ekki borgað fyrir að mæta en samkoma eins og þessi gefur þeim tækifæri til að stunda tómstundaiðjuna. Margir þeirra búa einnig til gripi eins og sverð og verkfæri og markaður er fastur liður í víkingabúðunum, svo þar gefst þeim tækifæri til að stunda smá sölumennsku. En víkingalífið er aðeins tómstundagaman. Það hefur enginn ofan fyrir sér sem víkingur í fullu starfi.

Áhugi á leik og sagnfræði

"Má hleypa þessum inn?" Hvítklæddur víkingur stendur vörð við einar búðirnar og spyr höfðingjann hvort aðkomufólkið megi ganga í búðirnar.

Víkingurinn samviskusami heitir Snorri og höfðinginn er Gyrth Albrichtson, fjallmyndarlegur víkingur í rauðum stakk. "Ég væri víkingur í fullu starfi, ef ég mögulega gæti," segir hann af sannfæringarkrafti og virðist ekkert hafa á móti því að leggja 21. öldina til hliðar.

Áhugi rauða víkingsins kviknaði af sögulegum áhuga. Hann hafði áhuga á Keltum, en komst að því að það var meira um bardaga meðal víkinganna og það var því bardagaáhuginn, sem dró hann í víkingahópinn. "Ég held við séum hérna öll af því við höfum áhuga á sögu, áhuga á að fræðast meira um þetta tímabil og reyna að gera okkur í hugarlund hvernig var að vera uppi á þessum tíma," segir víkingurinn.

Hópurinn hans kallast Hwicce og er reyndar saxneskur hópur, heitinn eftir saxneskum ættbálki, sem bjó þar sem nú er Oxford og þangað á hópurinn líka rætur sínar að rekja. Einn Saxanna er Leofric, eða Ljúfríkur sem í daglega lífinu heitir Chris og er erfðafræðingur við háskólann í Leeds. Hann er með hár niður á bak, sem gæti auðvitað stafað af því að hann væri gamall hippi, en það er reyndar til að hafa rétta miðaldaútlitið. "Ég veit ekki hvað vinnufélögunum finnst um áhugamálið mitt. Þeim finnst ég kannski eitthvað skrýtinn, en þeir eru á kafi í fótbolta og þetta er nú ekkert undarlegra en sá áhugi," segir hann með bros á vör.

Ljúfríkur barst inn í hópinn af þvíhann spilaði "role play", eða hlutverkaspil, en slík spil eru oft byggð á sögulegum forsendum. Hann segir að margir í víkingageiranum komi inn í þennan heim í gegnum hlutverkaspil.

Frá leik yfir í alvarlegar pælingar

Það er á Bryan að heyra að víkingalífið og víkingahóparnir séu stöðugt að færa út kvíarnar. Þeim dugir ekki bara að koma saman og berjast, heldur þarf allt í búningum, verkfærum og allri umgerðinni að vera sögulega rétt. "Við hugsum eftir sem áður um að hafa það skemmtilegt saman, en þetta er einhvern veginn orðið alvarlegra en áður," segir hann. "Það er lögð miklu meiri áhersla á að kynna sér hlutina og kynna sér tímabilið, sem um ræðir." Með aukinni þekkingu á tímabilinu segir Bryan að hann hafi áttað sig á hvað víkingarnar voru í raun menntaðir. "Þar til fyrir 20-30 árum vissu mjög fáir af þessum hluta breskrar sögu. Á Viktoríutímanum kom upp sú ímynd að víkingarnir hefðu verið illir og grimmir. Þessari mynd hafa til dæmis þættir Magnúsar Magnússonar um víkingana alveg breytt og við vitum nú að þeir voru góðir handverksmenn og miklir kaupmenn. Um leið hafa þessar myrku miðaldar orðið ljósari en áður." Það er komið undir hádegi og orustugnýr í loftinu. Víkingarnir, sem streyma yfir hæðardragið niður á orustuvöllinn bíta reyndar ekki í skjaldarrendur en eru þó nokkuð ógnarlegir yfirlitum. Fylkin renna saman, vopnaglamur fyllir loftið. Skallagrímur, höfðingi víkinganna fellur á endanum fyrir höfðingja Saxanna. Á endanum liggja menn eins og hráviði um vígvöllinn. Við getum þó öll varpað öndinni léttar að hér er barist eins og í Valhöll. Valurinn rís allur upp að bardaga loknum og hinum megin við hæðina eru bílarnir og annað, sem minnir á lífið handan víkingalífsins.