Jurassic Park III: Risaeðlur gapa í þriðja sinn.
Jurassic Park III: Risaeðlur gapa í þriðja sinn.
Í sól og sumaryl er til lítils að bjóða kvikmyndahúsgestum uppá annað en léttmeti. Því innihaldsrýrara og loftkenndara því betra. Sumarið er tími áhyggjuleysis og lífsgleðin á að skína úr hverju andliti.

Sumarið er því tími framhaldsmynda og endurgerða, því það eru yfirleitt afþreyingarmyndir sem endalaust er verið prjóna aftan við. Framhaldsmyndir eru misjafnar einsog önnur mannanna verk. Margir hafa tilhneigingu til að afgreiða allar bíómyndir sem enda á tölustöfum, gjarnan rómverskum, sem útvatnað rusl. Málið er, sem betur fer, ekki svo skelfilegt. Gott dæmi um misjöfn gæði endurvinnslunnar gefur einmitt að líta í bíóum landsmanna þessar vikurnar. Við okkur blasir hafsjór af framhaldsmyndum og endursköpun af öllum stærðum og gerðum.

Lítum fyrst á Júragarð III, eða Jurassic Park III, einsog hún heitir í bíónafnalágkúrunni, sem réttir íslenskunni og þeim, sem vilja veg móðurmálsins sem mestan, upprétta löngutöng.. Sú ágæta afþreying er mikil framför frá mynd # 2, sem þó var unnin af sjálfum Steven Spielberg . Leikstjóri 3. kafla er Joe Johnston , ungur brellusnillingur, enda uppalinn í smiðju George Lucas og Spielbergs . Hann gerir hlutina óaðfinnanlega; það sem greinir á milli er að annar kaflinn var mikið þynnri í roðinu, efnislega.

Rush Hour 2 er einnig betri en frummyndin. Hún var satt að segja hvorki fugl né fiskur, en hinsvegar kom í ljós að samvinna þeirra Jackie Chan og Chris Tucker svínvirkar á áhorfendur, í yngri kantinum a.m.k. Því settust framleiðendurnir niður og hafa lagt mikið meira í framhaldið en frummyndina í þeirri góðu von að þeir geti mjólkað kúna eitthvað fram eftir öldinni. Það hefur borgað sig því framhaldsmyndin fær mikið betri aðsókn en sú fyrri, þó góð væri. Framleiðendur eru búnir að búa almenning undir mynd 3; það kemur skýrt fram í lokakaflanum.

Dr Dolittle 2 er hvorki betri né verri en sú fyrri. Þá er komið að Scary Movie 2, hún lokar hringnum, er hálfgerður ófögnuður, ljót og leiðinleg. Hinsvegar var frummyndin bærileg skemmtun. Höfundarnir, Wayansbræður , hafa greinilega þurrausið sig strax í upphafi.

Við eigum því tæplega von á Scary Movie 3. Dr Dolittle 3? Ég leyfi mér að efast um að hún líti nokkurn tíma dagsins ljós. Við getum hinsvegar bókað tvær þrjár Júragarðsmyndir til viðbótar og Rush Hour flokknum lýkur sjálfsagt ekki fyrr en Tucker verður kjaftstopp. Sem hlýtur að teljast ólíklegt í bráð.

Á næstu vikum fáum við nýja gerð mynda. Tim Burton , leikstjóri Apaplánetunnar - Planet of the Apes, vel að merkja, segir að nýja myndin hans, 2001 útgáfan, sé gjörsamlega ný sýn á bókina hans Pierre Boulle , sem Franklin J. Schaffner kvikmyndaði með klassískum árangri fyrir sléttum aldarþriðjungi. Hún setti aðsóknarmet vestanhafs fyrr í mánuðinum, svo spurningin er ekki hvort gerð verði framhaldsmynd, heldur hversu þær verða margar.