P ETER Cattaneo, leikstjóri vinsælustu bíómyndar Breta frá upphafi, The Full Monty, eða Með fullri reisn, frumsýndi nýja mynd sína, Lucky Break, eða Lukkupottinn á kvikmyndahátíðinni í Edinborg sem nú stendur yfir.

PETER Cattaneo, leikstjóri vinsælustu bíómyndar Breta frá upphafi, The Full Monty, eða Með fullri reisn, frumsýndi nýja mynd sína, Lucky Break, eða Lukkupottinn á kvikmyndahátíðinni í Edinborg sem nú stendur yfir. Hefur engrar breskrar kvikmyndar verið beðið með jafnmikilli eftirvæntingu og tóku áhorfendur henni vel en gagnrýnendur síður.

Lucky Break er, eins og The Full Monty, gamanmynd sem segir frá föngum, leiknum af James Nesbitt, Timothy Spall og Lennie James sem skipuleggja flótta úr fangelsinu á frumsýningu söngleiks eftir fangelsisstjórann, Peter Cattaneo, sem er 37 ára að aldri, viðurkennir að hafa fundið illilega fyrir þrýstingi um að hann skilaði af sér öðru milljarða kraftaverki eins og The Full Monty. "Myndirnar eiga sitthvað sameiginlegt. Þær eru báðar um hóp karlmanna og eru báðar í léttum dúr. En Lucky Break er ekki framhald af The Full Monty." Eftir velgengni The Full Monty um heim allan rigndi tilboðum yfir Cattaneo, ekki síst frá Hollywood, en hann lét ekki freistast. Samstarfsmönnum hans við The Full Monty, handritshöfundinum Simon Beaufoy og framleiðandanum Uberto Pasolino, hefur ekki gengið vel með sín verkefni síðan og hefur verið talað um "bölvun The Full Monty". Nú er að sjá hvort Cattaneo tekst að afsanna þá kenningu.