ÞRIÐJUDAGINN 28. ágúst heldur Matthías Johannessen rithöfundur fyrirlestur í hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands sem hann nefnir "Þjóð eða óþjóð?". Fundurinn fer fram í stóra sal Norræna hússins, hann hefst kl.

ÞRIÐJUDAGINN 28. ágúst heldur Matthías Johannessen rithöfundur fyrirlestur í hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands sem hann nefnir "Þjóð eða óþjóð?". Fundurinn fer fram í stóra sal Norræna hússins, hann hefst kl. 12:05 og lýkur stundvíslega kl. 13:00.

Í fyrirlestrinum mun Matthías leita svara við spurningunni hvað einkenni Íslendinga sem þjóð, en einkum mun hann fjalla um hvernig þjóðareinkennin tengjast hinni menningarlegu arfleifð og umhverfi okkar í víðum skilningi þess orðs. Þetta er fyrsti fyrirlesturinn í röð sautján erinda sem öll munu snúast um spurninguna "Hvað er (ó)þjóð?". Fyrirlesarar munu koma af ólíkum fræðasviðum enda reynir félagið á markvissan hátt að kalla fram mismunandi nálganir á viðfangsefnunum, segir í fréttatilkynningu. Fundirnir verða að jafnaði haldnir annan hvern þriðjudag, þeir eru opnir öllu áhugafólki um sögu og er aðgangur ókeypis.

Nánari upplýsingar um dagskrá hádegisfundanna er að finna á heimasíðu félagsins: http://www.akademia.is/saga