VINUR Víkverja, búsettur á borgarsvæðinu við Faxaflóa, fór til Akureyrar í sumar til að dytta að húsi aldraðrar móður sinnar.

VINUR Víkverja, búsettur á borgarsvæðinu við Faxaflóa, fór til Akureyrar í sumar til að dytta að húsi aldraðrar móður sinnar. Hann þurfti meðal annars að mála gluggapósta að utan og fór í verslun Húsasmiðjunnar við Lónsbakka í þeim tilgangi að festa kaup á olíumálningu til þess arna. En hann sneri þaðan tómhentur; einungis var boðið upp á erlenda málningu og það kunni hann ekki að meta. Vildi að minnsta kosti geta valið á milli erlendrar framleiðslu og þeirrar íslensku. Hvers vegna ætli Húsasmiðjan bjóði ekki upp á íslenska málningu?

VÍKVERJA finnst Eyjafjörðurinn einhver fallegasta sveit landsins, finnst alltaf gott að koma þangað og gæti satt að segja vel hugsað sér að búa á svæðinu. Því vakti athygli hans frétt á Akureyrarsíðu Morgunblaðsins í vikunni þess efnis að sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar vinni nú að því að fjölga þar íbúum og hefði m.a. gefið út blað "þar sem sýnt er fram á hvað sveitarfélagið hafi upp á að bjóða varðandi félagslega þjónustu, auk þess sem þar er að finna ítarlegt yfirlit yfir byggingarreiti víðs vegar um sveitina", eins og segir í fréttinni. Víkverji er viss um að í framtíðinni færist það í vöxt að fólk flytur úr mesta erli þéttbýlisins, í sælureiti eins og þá sem forráðamenn Eyjafjarðarsveitar eru að bjóða. Það vakti einnig athygli Víkverja á dögunum þegar forráðamenn Akureyrarbæjar boðuðu auglýsingaherferð á næstunni, í því skyni að laða fleiri íbúa til höfuðstaðar Norðurlands. Víkverji hefur oft komið til Akureyrar, síðast nú í sumar, og líkar vel þar. Vinir hans, þar búsettir, segjast hafa allt til alls; þar skorti ekkert eins og vinir þeirra á borgarhorninu virðist stundum halda. Eitt af því fáa sem þeir "sakni" að sunnan sé e.t.v. umferðaröngþveitið á annatímum!

VÍKVERJI hefur fylgst af athygli með umræðunni um karlalið Knattspyrnufélags Reykjavíkur að undanförnu. KR varð Íslandsmeistari síðustu tvö ár en hefur leikið afleitlega á þessari leiktíð og er í fallsæti þegar fjórar umferðir eru eftir.

Undrum sætir hversu gríðarlegt áfall félagsmenn virðast telja að það yrði íslensku íþróttalífi ef hlutskipti KR yrði að falla úr Símadeildinni og hversu digurbarkalega sumir þeirra hafa talað í sumar; að þrátt fyrir að liðið hafi ekki náð sér á strik sé ekki möguleiki á að það falli.

Víkverja er alls ekki illa við KR. Honum er raunar frekar hlýtt til félagsins, vegna þess að það er mjög merkilegt fyrirbæri. KR er elsta íþróttafélag landsins, lengi vel það sigursælasta á ýmsum sviðum, og Víkverji hefur lengi haft aðdáun á öflugu félagsstarfi KR-inga þrátt fyrir að árangur innan vallar hafi ekki verið samkvæmt væntingum.

KR-ingum væri hins vegar hollt að muna að félagið þeirra er þrátt fyrir allt "aðeins" íþróttafélag. Og þegar íþróttafélag mætir öðru slíku á leikvelli er það á jafnréttisgrundvelli. Keppendur eru jafnmargir og allir þurfa að leggja sig fram. Aldrei er hægt að útiloka að hlutskipti liðs verði að falla úr deild þeirra bestu. Ekki einu sinni þegar KR á í hlut.