Um þessar mundir er mikið um dýrðir hjá frændum okkar í Noregi, þar sem brúðkaup ríkisarfa Noregs, Hákonar Haraldssonar og hinnar borgaralega fæddu Mette-Marit Tjessem Højby fór einmitt fram í Óslóardómkirkju í gær.

Um þessar mundir er mikið um dýrðir hjá frændum okkar í Noregi, þar sem brúðkaup ríkisarfa Noregs, Hákonar Haraldssonar og hinnar borgaralega fæddu Mette-Marit Tjessem Højby fór einmitt fram í Óslóardómkirkju í gær. Ekki hefur þessi viðburður heldur farið fram hjá fjölmiðlum okkar. Því er þetta tekið hér til umræðu, að pistlahöfundur hrökk mjög við, þegar fréttaritari RÚV ræddi fyrir fáum dögum um brúðkaup Hákons, en ekki Hákonar, eins og ég ætla, að flestir segi enn í dag samkv. fornri venju. Raunar var einnig talað um "hjónaband þeirra Hákons" á forsíðu þessa blaðs á fimmtudaginn var. Fyrir réttum tíu árum féll Ólafur V., afi brúðgumans, frá, og þá kom nafnið Hákon oft fyrir í fréttum, þar sem minnzt var á afa ríkisarfans, Hákon VII. Þá brá ef. Hákons því miður oft fyrir og m. a. í þessu blaði.

Sá ég þá ástæðu til að minnast á þessa ef.-mynd og nefndi nokkur þá nýleg dæmi. Þá var skýrasta dæmið um þennan rugling, þegar í Mbl. hafði í öðru sambandi þó verið talað um eiginkonu Hákons Hákonardóttur, þ. e. báðar eignarfallsmyndirnar komu fram í sömu andránni. Þá hefur verið talað um Hákonshöllina í Björgvin. Því er fljótsvarað, að ef. Hákonar er upphaflega myndin, sbr. Sögu Hákonar Hákonarsonar Noregskonungs. Í samræmi við það er sjálfsagt að tala um Hákonarhöllina og eins hjónavígslu Hákonar ríkisarfa og Mette-Marit, væntanlegrar drottningar Noregs. -

J. A. J.