[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú fer hver að verða síðastur að leggjast á beit á okkar litla, sæta áðurnefnda lúpínubletti, hér norður í hafi. Berja- og sveppatínsla er nú í algleymingi og rabarbaragrautar eru líklegast víða á boðstólum þessa dagana.

Nú fer hver að verða síðastur að leggjast á beit á okkar litla, sæta áðurnefnda lúpínubletti, hér norður í hafi. Berja- og sveppatínsla er nú í algleymingi og rabarbaragrautar eru líklegast víða á boðstólum þessa dagana. Ekki veitir af að treina sumarið og láta hina líflegu og skæru liti þess fylgja sér inn í haustið þar sem svo mýkri og mildari litir taka völdin innan skamms.

Fátt er sumarlegra en blóm í öllum sínum skrúða og það vill svo skemmtilega til að mörg þeirra má borða. Gæta verður þess þó ætíð að blómin séu náttúruleg, hafi ekki verið úðuð með neinum eiturefnum eða búið að setja í þau nein önnur óæskileg efni.

Fjólur og stjúpur sóma sér vel í líflegu sumarsalati ásamt t.d. fíflablöðum, hundasúrum, rauðlauk og e.t.v. krónublöðum af pelagóníum (mánabrúður). Eggjakaka með skessujurt er kraftmikill og hollur miðdegisverður. Uppskriftin er eftirfarandi:

5 egg

2-3 msk rifinn ostur, t.d. óðals- eða gouda

2 msk. smjör

handfylli af fínt saxaðri skessujurt

4-5 msk rifinn gráðostur

nýmalaður pipar

Þeytið eggin með gaffli, bætið rifnum ostinum út í ásamt skessujurtinni og malið pipar yfir. Hitið smjörið á þykkbotna málmpönnu með aflíðandi brúnum. Hentug panna auðveldar meðhöndlun eggjakökunnar meðan hún er að bakast, og ekki síst þegar á að flytja hana yfir á disk. Fullkomin og formfögur eggjakaka getur orðið að ólystugu hrúgaldi eftir að hafa verið varpað af brúnaskarpri pönnu yfir á disk. Þegar smjörið er farið að krauma, hellið þið eggjahrærunni á pönnuna. Þegar botn eggjakökunnar er orðinn gulbrúnn og áður en yfirborð hennar er fyllilega þornað, setjið þá rifinn gráðostinn yfir annan helming kökunnar, brjótið hana saman, skellið pönnunni á borðið og leyfið kökunni að bráðna samstundis á tungunni.

Í eftirfarandi uppskrift eru krónublöð morgunfrúar notuð á nýstárlegan hátt.

Tagliatelle með morgunfrúarsósu

Fyrir 2

4 dl mjólk

1 stór laukur

60 ml krónublöð morgunfrúar

2 stórar gulrætur

1 lárviðarlauf

110 g smjör

110 g hveiti

175 g rifinn ostur

salt og pipar

225 g tagliatelle

Setjið mjólk, morgunfrúarblöð, gulrætur (skornar í bita), lárviðarlauf og lauk saman í pott og sjóðið þar til gulræturnar eru orðnar mjúkar. Sigtið safann frá grænmetinu og leggið safann til hliðar í könnu. Geymið grænmetið. Bakið upp sósu á hefðbundinn hátt úr smjöri og hveiti og þynnið með safanum af grænmetinu. Setjið grænmetið í matvinnsluvél og maukið. Hellið blöndunni út í sósuna ásamt ostinum, salti og pipar. Hrærið öllu vel saman þar til ostur hefur samlagast sósunni. Hellið yfir heitt soðið pastað og skreytið e.t.v. með fjólum.

Rósin hefur gjarnan verið nefnd "drottning blómanna" og hin langa saga rósarinnar er þétt ofin saman við sögu mannkynsins sjálfs. Það er trú manna að rósin sé fyrsta blómið sem menn tóku að rækta sjálfir. Hún er tengd flestum trúarbrögðum á einhvern hátt og einnig hefur hún verið notuð oft sem tákn í pólitík, s.s. Rósastríðið svonefnda sem klauf England í sundur á 15. öld. Í matargerðarlist hefur rósin gegnt mikilvægu hlutverki í gegnum aldirnar og í Rómaveldi hinu forna gæddu menn sér t.a.m. á rósatertum, rósahlaupi, réttum sem kryddaðir voru með rósakrafti sem fékkst með því að merja blöðin í mortéli og drukku vín sem rósablöð höfðu verið látin liggja í bleyti í. Rósir hafa löngum einnig verið notaðar í ýmis fegrunarmeðul, s.s. rósaolíur og duft ýmiss konar og krem. Rósahunang ku vera mjög mýkjandi fyri sáran háls. Það er útbúið þannig: Sjóðið 20 gr af rauðum rósablöðum ásamt 100 g af fljótandi hunangi í 10 mín. Síið í gegnum viskustykki eða mjög fínt sigti. Takið inn eina msk í einu gegn vægri hálsbólgu eða særindum í hálsi.

Að lokum þessi rósumprýddi eftirréttur:

Rabarbaradesert með rósablöðum

900 g rabarbari, þveginn og skorinn í litla bita

1 bolli sykur

1/4 bolli vatn

2 stappaðir bananar

1 bolli rjómi

2 eggjahvítur

Sjóðið rabarbara, vatn og sykur á djúpri pönnu við meðalhita í ca 15 mínútur eða þar til rabarbarinn er orðinn mjúkur. Hrærið í af og til. Takið pönnuna af hellunni. Sigtið safann frá rabarbaranum og setjið hann til hliðar og kælið en fleygið safanum eða drekkið hann síðar. Þegar rabarbarinn er kólnaður hrærið þá banönum og rjóma saman við. Stífþeytið eggjahvíturnar í lítilli skál og blandið þeim varlega saman við rabarbaramaukið. Komið búðingnum fyrir í meðalstórri, glærri eftirréttaskál og kælið í minnst 4 tíma. Skreytið með rauðum rósablöðum.