NÚ ER liðið nokkuð á annað ár síðan forsætisráðherra boðaði að greiðslur almannatrygginga ættu að hækka í takt við laun, eins og það var orðað í 3. grein yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga á árinu 2000.

NÚ ER liðið nokkuð á annað ár síðan forsætisráðherra boðaði að greiðslur almannatrygginga ættu að hækka í takt við laun, eins og það var orðað í 3. grein yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga á árinu 2000. Orðrétt segir í yfirlýsingunni: Ríkistjórnin mun tryggja að greiðslur almannatrygginga hækki í takt við umsamdar almennar launahækkanir á samningstímabilinu. Hækkunin á árinu 2000 verður þó nokkru meiri.

En hver hefur launaþróun verið síðan launasamningalotan hófst í byrjun síðasta árs þegar Flóabandalagið samdi í apríl um 12 til 30% launahækkanir og hefur samningalotan staðið fram til þessa. Hafa hin ýmsu stéttarfélög verið að semja um miklar launahækkanir og hefur heyrst talað um 130 til 180 þúsund króna byrjunarlaun. Það vekur athygli að samninganefnd ríkisins hefur gefið út að búið sé að semja við alla nema sjúkraliða.

Hvernig hefur ríkistjórnin staðið við að tryggja að greiðslur almannatrygginga hækki í takt við umsamdar launahækkanir eins og lofað var?

Ellilífeyrir var 1. janúar 2000 kr. 17.435, en hinn 1. apríl 2000 hækkaði hann í kr. 17.592 eða um 157 krónur, hinn 1. september fengum við aðra hækkun, ellilífeyrir fór í kr. 17.715 eða hækkaði um 123 krónur og hinn 1. janúar í ár hækkaði hann í 18.424 krónur og er óbreyttur í dag. Samtals höfum við ellilífeyrisfólk fengið 989 kr. hækkun á ellilífeyri síðustu 20 mánuði.

Er þetta ekki stórkostlegt á sama tíma og stéttarfélög eru að semja um mörg þúsund króna hækkanir og kjaranefnd úrskurðar þingmönnum, ráðherrum og öðrum æðstu embættismönnum þjóðarinnar, hækkanir sem nema 25 til 50 þúsundum króna á mánuði, en kjaranefnd tilkynnti að laun hefðu hækkað almennt um 6,9% og hækkuðu laun æðstu manna samkvæmt því. Á sama tíma hefur ellilífeyrir hækkað um ca. 5%.

Ríkisstjórnin gerði, að eigin sögn, mikið átak til að bæta kjör hinna verst settu og setti lög um minnkandi skerðingar hjá sumu af ellilífeyrisfólki og hækkaði bætur til sumra þeirra allra lægstu. Það er til þeirra sem höfðu um 60 þúsund krónur á mánuði eða minna og þeirra sem voru í sambýli eða í hjónabandi og báðir lifa á ellilífeyri, en aðrir fengu ekkert. En varla voru lögin komin til framkvæmda þegar hinn nýi heilbrigðisráðherra gaf út reglugerð, sem skerti mjög kjör aldraðra í formi hækkaðs lækna- og lyfjakostnaðar, sem kemur harðast við aldraða og öryrkja, en þetta eru þeir hópar, sem mest þurfa á læknum og lyfjum að halda. Þetta eru skrítnar aðferðir til að tryggja að bætur almannatrygginga fylgi launaþróun í landinu.

Þá vekur það athygli að eina stéttarfélagið, sem ekki er búið að semja við og varla er talað við, eru sjúkraliðar. Hvers vegna? Það mætti halda að ástæðan sé sú, að það eru sjúkraliðar, sem starfa mest með og annast aldraða, sjúka og öryrkja. Því þarf ekki að semja við sjúkraliða og gera þá ánægðari, því þeir eru að vinna fyrir þá hópa sem stjórnvöld virðast telja óþarfa í þjóðfélaginu og því þurfi ekkert að sinna þeim, þeir mega þræla áfram á sínum lágu launum.

Þar er alveg ljóst að stór hluti okkar, ellilífeyrisfólks, fékk engar hækkanir vegna nýju laganna, en urðu fyrir skerðingum vegna nýju reglugerðarinnar, eins og aðrir, og þannig hefur kaupmáttur hjá stórum hluta af okkar félögum minnkað á þessu ári, þegar allir nema eftirlaunafólk, öryrkjar og sjúkraliðar hafa verið að stórbæta kjör sín.

Það hefur mörgum sinnum verið bent á þá staðreynd að mikill meirihluti ellilífeyrisþega er með heildartekjur milli 50 og 100 þúsund krónur á mánuði, sem er nálægt eða undir fátækramörkum og nú eru sjúkraliðar að nálgast fátækramörkin því laun þeirra hafa ekki hækkað í samræmi við aðra launþega. Laun sjúkraliða eftir 30 ára starf við öldrunarþjónustu eru í dag rúmlega 113 þúsund krónur, en sjúkraliðar sem vinna við öldrunarþjónustu eru hærra launaðir.

Það er réttlætismál okkar ellilífeyrisfólks að laun okkar hækki í samræmi við launaþróunina í landinu og að samið verði strax við sjúkraliða, svo við fáum notið starfskrafta þeirra áfram, en margir þeirra hafa sagt upp störfum.

Það er full ástæða til að benda ráðamönnum á að það fer að styttast í kosningar og eftirlaunafólk er töluvert fjölmennt.

KARL GÚSTAF ÁSGRÍMSSON,

formaður Félags eldri borgara, Kópavogi.

Frá Karli Gústafi Ásgrímssyni: