TVEIR herskáir Palestínumenn vopnaðir sjálfvirkum rifflum og handsprengjum réðust inn í ísraelska herstöð á Gaza-svæðinu skömmu fyrir dagrenningu í gær og felldu þrjá ísraelska hermenn og særðu sjö áður en þeir voru sjálfir skotnir til bana. Harðlínumenn í undirdeild Frelsissamtaka Palestínu, PLO, lýstu samtökin ábyrg fyrir árásinni, en Ísraelar sögðu að Yasser Arafat, forseti heimastjórnar Palestínumanna, væri ábyrgur.

"Það er augljóst að aðgerðin síðustu nótt var framkvæmd með samþykki Yassers Arafats, alveg sama hvaða samtök lýsa ábyrgð á hendur sér," sagði Meir Rosen, náinn ráðgjafi Ariels Sharons, forsætisráðherra Ísraels.

Rosen sagði að markmið Arafats með árásinni væri greinilega að sýna fram á að Ísraelar ættu einskis annars úrkosti en ganga til friðarsamninga við Palestínumenn á meðan átök stæðu. Sharon hefur ítrekað lýst því yfir að ekki komi til greina að hefja friðarviðræður fyrr en átök hafi legið niðri um skeið.

Palestínumenn óttast hefndaraðgerðir

Samkvæmt upplýsingum ísraelska hersins komust árásarmennirnir tveir að Marganit-herstöðinni í skjóli nætur og hófu að skjóta á hermennina. Þeir svöruðu í sömu mynt og felldu annan Palestínumanninn. Hinn reyndi að flýja en var eltur uppi og skotinn. Þetta er mesta mannfall sem orðið hefur í ísraelska hernum á einum degi síðan í febrúar.

Þetta var í fyrsta sinn síðan uppreisn Palestínumanna hófst, fyrir tæpu ári, sem byssumönnum þeirra tekst að komast inn í ísraelska herstöð, að því er ísraelski herinn tilkynnti í gær. Herinn brást skjótt við og suðurhluta Gaza-svæðisins var lokað, að því er palestínskur embættismaður sagði, og bætti við að ísraelskar herþyrlur væru á sveimi yfir svæðinu.

Af ótta við hefndaraðgerðir Ísraela hafa palestínskar öryggissveitir rýmt aðsetur sín í byggingum skammt frá egypsku landamærunum. Talsmenn PLO-deildarinnar sem segist ábyrg fyrir árásinni segja hana hafa verið svar við árásum Ísraela á Palestínumenn. Yrði árásum sem þessari haldið áfram uns Ísraelar yrðu á brott af svæðum sem þeir hafi hertekið af landi Palestínumanna.

Arafat kenndi í gær Ísraelum um átökin sem orðið hafa í Mið-Austurlöndum undanfarna daga. Sagði hann ísraelsk stjórnvöld nota bandarísk vopn til árása á þjóð sína, og "sitja um" palestínsk yfirráðasvæði. Arafat er á hraðri ferð um nokkur Asíulönd og var í Malasíu í gær til að ræða við forseta landsins. Síðdegis átti leið hans að liggja til Bangladesh.

Gaza-svæðinu. AP, AFP.