Vinnustofa listamannsins Francis Bacon er nú meðal sýningargripa í Hugh Lane-safninu í Dublin. Ekki eru allir á eitt sáttir um framkvæmdina, en ekki verður um það deilt að það er óreiða sem við blasir.
Vinnustofa listamannsins Francis Bacon er nú meðal sýningargripa í Hugh Lane-safninu í Dublin. Ekki eru allir á eitt sáttir um framkvæmdina, en ekki verður um það deilt að það er óreiða sem við blasir.
ÞEIR voru ófáir sem gripu andann á lofti þegar stúdíó listamannsins Francis Bacon var opnað almenningi í Hugh Lane-safninu í Dublin fyrir nokkru - önnur eins óreiða hefur sjaldan sést.

ÞEIR voru ófáir sem gripu andann á lofti þegar stúdíó listamannsins Francis Bacon var opnað almenningi í Hugh Lane-safninu í Dublin fyrir nokkru - önnur eins óreiða hefur sjaldan sést.

Vissulega má segja að um mikilfenglega óreiðu hafi verið að ræða enda verk Bacon sjálfs. Stjórn safnsins hafði fjárfest í stúdíói listamannsins og lét koma því fyrir í sýningarrými sínu nákvæmlega eins og Bacon skildi við það þegar hann lést. Þeir 7.500 munir sem vinnustofan, sem er um 30 fm, hefur að geyma hafa allir verið vandlega skráðir. Má þar á meðal nefna 100 rifna strigafleti, 70 teikningar, sem Bacon viðurkenndi aldrei að hafa gert í lifanda lífi, sem og dagblaðaúrklippur, tómir vínflöskukassar, leifar af flauelsbuxum, ljósmyndir, penslar og litir sem öllu var dreift um stúdíóið á handahófskenndan hátt líkt og hvirfilvindur hefði farið þar yfir. Það tók fornleifafræðinga líka um tvö ár að skrá alla munina sem þar er að finna og nam kostnaðurinn við flutninginn frá London til Dublin 200 milljónum króna.

Gestum býðst í dag að skoða vinnustofu Bacons í gegnum lítið glerrými þar sem einn kemst fyrir í einu, líkt og Bacon sjálfur hafi hleypt þeim yfir þröskuldinn en ekki skrefinu lengra. Að mati blaðamanns Herald Tribune minnir vinnustofan einna helst á vistarverur geðsjúklings sem tekið hefur æðiskast í lyfjavímu - gólfið sést varla fyrir drasli og málningu hefur verið klínt alls staðar utan í veggi og dyr, líkt og listamaðurinn hafi notað fletina til að blanda liti sína.

Líkt og búast má við af jafnumfangsmiklu verkefni og þessu hefur uppsetningin verið jafnt lofuð sem löstuð. Margir gagnrýnendur hafa velt því fyrir sér hvort kostnaðurinn við framkvæmdina sé réttlætanlegur þegar fjárhagur safnsins er þröngur. Frekar ætti að styðja við bakið á efnilegum írskum listamönnum. Sú spurning sem leitað hefur á fleiri er þó hvort Bacon eigi í raun og veru heima í safninu. Hann fæddist í Dublin árið 1909 og ólst upp í nágrenni við borgina en flúði frá Írlandi 16 ára gamall og hefur jafnan verið talinn til breskra listamanna. Sjálfur sagði hann jafnan í nokkru gamni að hann myndi ekki snúa aftur til Írlands fyrr en eftir andlát sitt.

Flestir eru þó sammála um að það hafi verið djarfur leikur hjá Barböru Dawson, yfirmanni safnsins, að leggja í uppsetninguna og vonar nú menningar- og listasamfélag Dublin að fleiri stofnanir reynist reiðubúnar að tefla jafndjarft. "Írar hafa í fullri hreinskilni ekki metið listamenn sína nógu mikið," segir Noel Sheridan, yfirmaður Lista- og hönnunarháskóla Írlands í Dublin, og Perry Ogden, sem vann að fornleifavinnunni við stúdíóið, tekur í sama streng. "Bacon er víðast hvar talinn til meistara listasögunnar en Írarnir setja hann ekki á neinn stall. Þeir segja frekar: Hérna er mjög áhugaverður persónuleiki og það gefur Bacon aftur eitthvað af sínum gamla krafti."