ÍSLENSK nafnavenja hefur valdið Íslendingum á ferðalagi vandræðum frá því ný lög um vegabréf tóku gildi fyrir tveimur árum, þar sem fólk hefur ekki getað sannað að börn sem eru með þeim á ferðalagi séu börn þeirra.

ÍSLENSK nafnavenja hefur valdið Íslendingum á ferðalagi vandræðum frá því ný lög um vegabréf tóku gildi fyrir tveimur árum, þar sem fólk hefur ekki getað sannað að börn sem eru með þeim á ferðalagi séu börn þeirra. Frá gildistöku nýju laganna er ekki lengur hægt að skrá nöfn barna í vegabréf foreldra. Börn, jafnvel hvítvoðungar, fá eigin vegabréf og er sömuleiðis ekki hægt að skrá nöfn foreldra í vegabréf barnanna.

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi varð fyrir 45 mínútna töf á flugvelli í París fyrr í þessum mánuði sem rekja má til þessarar breytingar. Frakkland er þó innan Schengen-svæðisins þar sem ekki þarf að sýna vegabréf. Kjartan var á ferð með fjölskyldu sinni þegar konu sem vann við innritun á flugvellinum fannst grunsamlegt að þarna væru maður og kona á ferð með tveggja ára barn meðferðis og að ekkert þeirra bæri sama eftirnafnið. "Við Íslendingar erum með aðrar nafnahefðir og þarna var eins og ekki væri fjölskylda á ferð. Þessu fólki er sagt að vera á verði gagnvart öllu slíku því barnaræningjar vaða uppi," segir Kjartan. Hann segir að hann hafi heyrt strax í fyrsta símtalinu sem konan hringdi hvert vandamálið væri og að hann hafi reynt að útskýra íslenska nafnahefð fyrir konunni en ekki komist að með athugasemdir. Símtölin urðu alls fjögur, öll mjög löng, og voru nöfn Kjartans, eiginkonu hans og dóttur stöfuð ofan í hvern gagnabankann á fætur öðrum. Þau fengu loks að fara í flugvélina eftir dúk og disk og misstu ekki af fluginu þar sem þau höfðu mætt tímanlega á flugvöllinn. "Þetta er ávísun á endalaus vandræði fyrir Íslendinga erlendis," segir Kjartan. Hann segist óttast að þetta gæti leitt til þess að fólk sem ferðast mikið, eða býr erlendis, taki upp ættarnöfn í stað þess að viðhalda gamla íslenska nafnakerfinu.

Bauð upp á misnotkun að hafa nöfn barna í vegabréfum

Haukur Guðmundsson, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, segir að ákveðið hafi verið að hætta að skrá nöfn barna á vegabréf foreldra þar sem það hafi boðið upp á misnotkun. "Við vorum með mjög sveigjanlega eða losaralega framkvæmd þar sem fólk gat sett nöfn barna inn á vegabréf og frá þeim tíma eru til dæmi um börn sem voru færð ólöglega landa á milli," segir Haukur. Það hafi t.d. gerst í forræðisdeilum. Hann segir að Íslendingar hafi gerst aðilar að svokölluðu Haag-samkomulagi um brottnám barna árið 1996 og að alþjóðlegur þrýstingur á stjórnvöld til að reyna að koma í veg fyrir ólöglegan flutning barna hafi aukist.

"Þau óþægindi sem Íslendingar verða fyrir í bakherbergjum á flugstöðvum eru smávægileg í samanburði við hagsmuni þessara barna sem við erum að tala um." Haukur segir að það verði sífellt algengara í nágrannalöndum að konur taki ekki upp ættarnafn manna sinna eins og áður var og þar sem fjölskyldumynstur séu fjölbreytt hljóti viðhorfið, að undarlegt sé að allir í fjölskyldunni heiti ekki sama nafni, að vera á undanhaldi. Hann segir að það kunni þó að vera athugunarefni að koma einhverjum upplýsingum í vegabréf barna um foreldra vegna þessara sérstöku íslensku aðstæðna.

Jóhann Jóhannsson, framkvæmdastjóri Útlendingaeftirlitsins, sem hefur umsjón með útgáfu vegabréfa, telur afar fátítt að grunur um smygl á börnum vakni. Hann leggur áherslu á að fólk hafi meðferðis fæðingarvottorð barna sinna á ensku og önnur gögn þar sem kemur fram hverjir tilheyra fjölskyldunni, sérstaklega ef það ferðast utan Schengen-svæðisins.