Gíraffi spáir í spilin.
Gíraffi spáir í spilin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í safaríferð Margrétar Gunnarsdóttur var markmiðið að sjá þau dýr sem veiðimenn telja hvað eftirsóknarverðust, og það tókst.

,,ÉG vil ekki hræða ykkur en það getur verið hættulegt að ferðast um þetta svæði. Fyrir tíu dögum drap fíll ferðamann og fyrir fjórum vikum réðst ljón á innfædda konu og drap hana," segir Formen leiðsögumaður og leggur riffilinn í bílsætið við hlið sér í Land Rovernum. Í myrkrinu nema ljós jeppans útlínur ljóns í vegkantinum og ég krossa fingurna.

Það eru að koma páskar og ég er í hópi fimmtán ferðamanna. Við erum á leið í safaríferð í Krüger-þjóðgarðinum og á nærliggjandi svæði í S-Afríku. Okkar bíður viðburðarík og spennandi vika. Markmiðið er að sjá þau fimm stóru, þ.e. þau dýr sem veiðimenn hafa talið eftirsóknarverðust í gegnum tíðina. Það er fíllinn vegna fílabeinsins, hlébarðinn og ljónið vegna feldsins, buffall vegna hornanna og nashyrningurinn vegna höfuðsins. Við erum í ríki dýranna. Hér ráða þau lögum og lofum og við mennirnir hlítum því. Nema auðvitað okkur langi ekki aftur heim. Það er aðeins leiðsögumaðurinn sem hefur leyfi til þess að munda vopn og skjóta í neyð. Ég hef bara leyfi til þess að munda linsuna á myndavélinni.

Ljón í veginum

Meðfram vegkantinum gæða fílar og gíraffar sér á trjám meðan ljón fer yfir veginn. Við keyrum eftir holóttum sveitavegi sem heitir Fílabeinsleiðin vegna þess að veiðimenn fluttu fílabein frá S-Afríku og alla leið til Zimbabwe eftir þessum sama vegi. Við erum þegar orðin sein á einn þeirra fjögurra áfangastaða sem ætlunin er að gista á meðan á safaríferðinni stendur. Eftir nokkurra tíma ökuferð í opnum jeppa komum við í Emtomina-tjaldbúðirnar á Letaba svæðinu. Það svæði telst villt í skilningi Afríkubúa, en Krüger-þjóðgarðurinn telst til ferðamannastaðar.

Í Emtomina-tjaldbúðunum er ekkert rafmagn en þess í stað eru okkur afhent vasaljós og steinolíulampar. Sturtuaðstaðan er fata sem er hífð upp þannig að hægt er að standa undir og þvo sér... meðan vatnið endist. Á milli tjaldanna er mjór stígur og það er engin girðing í kringum tjaldbúðirnar þannig að bæði stór og smá dýr eiga greiðan aðgang í gegnum þær. Það er þegar komið myrkur þegar við komum og okkur er fylgt til tjalds af vopnuðum leiðsögumanni. Okkur er stranglega bannað að fara út úr tjaldinu að nóttu til og leiðsögumaðurinn brýnir fyrir okkur mikilvægi þess að loka tjaldinu vel. Ég skil það alveg. Það er erfitt að láta sér koma blund á brá fyrstu nóttina þrátt fyrir nærri tveggja sólarhringa ferðalag frá Keflavík til London, London til Jóhannesarborgar, þaðan til Phalaborwa og svo á áfangastað. Ég ligg lengi í tjaldinu og hlusta á hljómsveit framandi skordýra en tónverk þeirra eru töluvert ólík næturhljóðum Reykjavíkur.

Á fætur við sólarupprás

Við erum vakin kl. fimm. Fyrst er farið í göngutúr og það er ennþá dálítið svalt í lofti. Formen leiðsögumaður gefur okkur þau fyrirmæli að halda okkur alltaf í einfaldri röð. Ganga rólega og ekki segja orð. Þá halda dýrin að við séum langt dýr og það hræðir þau. ,,Ef það skyldi koma dýr á móti okkur skulið þið standa alveg kyrr og fyrir alla muni ekki hljóða. Þið megið aldrei hlaupa því þá telja dýrin ykkur vera bráð. Eina undantekningin er ef ég byrja að hlaupa, þá skuluð þið hlaupa" segir Formen og glottir. Hann segir okkur líka að hann sé alinn upp á þessu svæði og að hann hafi oft komist í návígi við ljón, fíla og buffla. Ég veit ekki hvort ég á að verða rólegri eftir þessar upplýsingar. Á leiðinni sjáum við svarta slöngu. Formen segir okkur að þetta sé svört mamba en þær eru meðal þeirra eitruðustu. Eitt bit myndi leiða til dauða. En þær eru ekki hættulegar svo lengi sem þær verða ekki hræddar. Formen er bæði menntaður sem leiðsögumaður auk þess að hafa margra ára reynslu. Hann útskýrir að auki að flóðhestarnir í ánni séu í reynd þau dýr sem séu hættulegust manninum á votlendi. Bufflar eru hins vegar hættulegustu dýrin á þurrum svæðum.

Að ferðalokum

Ég sá dýr út um allt. Dýr sem ég hafði aldrei séð áður með eigin augum. Ég rifja upp söguna af Hafnfirðingnum sem kom heim eftir safarí í Afríku og benti á allar myndirnar af dýrunum og sagði að dýrið héti ,,dangerous". Þegar einhver reyndi að leiðrétta þann misskilning með rétta dýraheitinu brást hann illur við og sagðist hafa séð skilti í Afríku sem stæði á: All animals are dangerous.

Ég sá alla vega þau fimm stóru en auk þeirra antílópur, flóðhesta, gíraffa, sebrahesta, krókódíla, skjaldbökur, slöngur, apa og ótal skordýr. Við sáum einnig rúmlega hundrað fíla hjörð á leið yfir Letabaá. Einn leiðsögumanna okkar sagði þetta vera stærstu fílahjörðina sem hann hefði séð. Ég er því ánægð að ferðalokum.

Þegar heim er komið grannskoða ég farangurinn í ferðatöskunni og hvort nokkur óvelkomin dýr leynist þar. Það er ekki laust við að ég sakni næturhljóða Afríku en sturtunnar (fötunnar) sakna ég ekki.

Höfundur er lögmaður.