Á LAUGARVATNI er nú unnið að því að hreinsa til og brjóta niður gömul og illa farin hús í eigu ríkisins sem ekki svarar kostnaði að gera við.

Á LAUGARVATNI er nú unnið að því að hreinsa til og brjóta niður gömul og illa farin hús í eigu ríkisins sem ekki svarar kostnaði að gera við. Gamla íþróttahúsið sem tilheyrði Íþróttakennaraskólanum og sundlaug Héraðsskólans hafa verið brotin niður og jöfnuð við jörðu. Þessi hús hafa staðið við hlið Héraðsskólahússins á Laugarvatni í fremur lélegu ástandi síðustu árin.

Sundlaugin er jafngömul Héraðsskólanum en var aflögð um leið og ný útilaug var tekin í notkun 1991. Íþróttahúsið var byggt við sundlaugina við stofnun Íþróttakennaraskóla Íslands 1945 og þjónaði honum allan hans starfstíma þangað til skólinn var sameinaður Kennaraháskóla Íslands 1998. Segja má að á fjölum þessa húss hafi vagga íþróttagreina eins og körfuknattleiks og blaks staðið.

Staðarmynd Laugarvatns hefur nú breyst nokkuð við það að þessi hús hverfa og telja margir að Héraðsskólahúsið njóti sín nú mun betur en áður, en það var húsameistari ríkisins Guðjón Samúelsson sem teiknaði öll þessi hús á sínum tíma.

Laugarvatni. Morgunblaðið.