Ráðgert er að taka stærstan hluta hússins í notkun í nóvember á næsta ári.
Ráðgert er að taka stærstan hluta hússins í notkun í nóvember á næsta ári.
NÝR barnaspítali Hringsins er óðum að taka á sig mynd og er áætlað að stærsti hluti hússins verði tekinn í notkun í byrjun nóvember á næsta ári. Í febrúar 2003 verður vökudeild spítalans flutt í nýju bygginguna.

NÝR barnaspítali Hringsins er óðum að taka á sig mynd og er áætlað að stærsti hluti hússins verði tekinn í notkun í byrjun nóvember á næsta ári. Í febrúar 2003 verður vökudeild spítalans flutt í nýju bygginguna. Áætlað er að byrja að klæða húsið að utan á næstu vikum.

Að sögn Ingólfs Þórissonar, framkvæmdastjóra tækni og eigna hjá Landspítala-Háskólasjúkrahúsi, er 2. áfangi verksins langt á veg kominn en hann snýr að uppsteypun á húsinu og frágangi að utan. Það er byggingarfélagið Ólafur og Gunnar ehf. sem sér um framkvæmdir við 2. áfanga. 1. áfangi verksins og jarðvinna var í höndum Suðurverks hf. en 3. áfangi verksins snýr að innréttingum. Að sögn Ingólfs voru tilboð í þriðja áfanga opnuð 2. ágúst sl. og var fyrirtækið Ólafur og Gunnar lægstbjóðandi. Tilboð þeirra hljóðar upp á 595 milljónir króna og er undir kostnaðaráætlun.

Hannes Andrésson, staðgengill verkstjóra hjá Ólafi og Gunnari ehf., sagði að fljótlega yrði farið að klæða húsið að utan. Hann sagði ráðgert að þeirri vinnu yrði lokið með haustinu.

Nýi barnaspítalinn er alls um 6.800 fermetrar að stærð á fjórum hæðum auk kjallara og tæknirýmis í þaki. Þá er sérstakur fyrirlestrasalur áætlaður í garðinum milli barnaspítalans og núverandi kvennadeildar.

Á nýja spítalanum verða fjórar legudeildir, dagdeild og göngudeild. Ingólfur segir að öll aðstaða fyrir sjúklinga og aðstandendur verði stórbætt í nýju byggingunni frá því sem nú er.