[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjarta- og æðasjúkdómar leggja marga að velli. Miklar framfarir hafa þó orðið í hjartalækningum og forvörnum gegn hjartasjúkdómum. Björn Flygenring er yfirlæknir hjartadeildar í Minnesota. Hann segir hér Guðrúnu Guðlaugsdóttur fjölmargt frá stöðu þessara mála í hans starfsumhverfi og lætur ýmislegt fleira fljóta með í frásögninni.

ÉG HORFI á hann eins og hann sé félagi minn í andspyrnuhreyfingu sem ég gæti þá og þegar átt líf mitt undir. Þetta er heldur ekki fjarri lagi - hjartalæknar hafa á stundum líf fólks í hendi sér og enginn veit hver er næstur í þeim efnum. Meðan ég horfi á Björn Flygenring, einmitt þessu sérstaka augnaráði, segir hann mér að hann hafi raunar fyrst ætlað að verða dýralæknir og áhugi hans á því hafi sennilega kviknað þegar hann var drengur og unglingur í sveit hjá frændum sínum á Laxamýri í Þingeyjarsýslu. "Þar var ég að atast í ýmsum störfum tengdum búfénaði. Þeir voru slyngir og hvetjandi uppalendur þeir Laxamýrarmenn," segir hann brosandi, "þeir þurftu ekki annað en segja: "Frændi er snarmenni," - og ég sentist af stað með ógnarhraða. Þeir treystu mér fyrir ýmsum verkefnum mjög snemma og það jók mér sjálfstæði."

Ég á ekki erfitt með að sjá fyrir mér drenginn Björn á harðahlaupum eftir móum og mýrum - svo mikið er enn eftir af drengjalegu viðmóti í fari hans þótt nú sé hann orðinn 48 ára og yfirlæknir harðsnúins hóps fjörutíu hjartalækna við Hjartalækningastofnun Minneapolis og Abbott Northwestern-spítalann í Minnesota. Björn hefur verið hér í fríi ásamt Valgerði Hafstað konu sinni og fjórum börnum þeirra og því var um að gera að ná tali af honum til að spyrja um stöðu hjartalækninga þar sem hann þekkir gerst til.

"Hvert er besta hjartameðalið?" spyr ég hátíðleg í bragði, vitandi um allan þann fjölda sem sífellt er að koma á markaðinn af nýjum og áhrifamiklum lyfjum.

"Aspirín," svarar hann að bragði og brosir þegar hann sér undrun mína. "Auðvitað eru mörg hjartalyf áhrifamikil og mikilvæg, svo sem betablokkarar og blóðsegalyf - en ef ég á að nefna eitt lyf stendur aspirín fyrir sínu þótt gamalt sé og ekki ætlað sem hjartalyf í upphafi," bætir hann við.

Ég spyr hann um blóðfitulækkandi lyf, hvort þau séu kannski ofnotuð.

"Nei, þvert á móti ætti að nota þau meira en gert er, það hefur sýnt sig að notkun þeirra minnkar líkindi á kransæðasjúkdómum."

Þá er næst að spyrjast fyrir um hvers vegna Björn hætti við dýralæknanámið og ákvað að gerast sérfræðingur í hjartasjúkdómum.

"Ég fór til náms við dýralæknaháskólann í Osló og var mjög ánægður þar," svarar hann. "Mikið var gert fyrir stúdentana og góð aðstaða að öllu leyti enda létu Norðmenn mikið fé renna til skólans.

Eigi að síður ákvað ég að söðla um eftir tvö ár og fara í læknanám á Íslandi. Mér fannst starfssvið dýralækna ekki höfða nægilega til mín þegar ég fór að skoða það betur og ýmsar áherslur í dýralækningum ekki alveg að mínu skapi, svo sem að eyða rándýrum krabbameinslyfjum á kjölturakka."

Ættmenn og uppruni

Við getum ekki skilið svo við búskapinn að ekki sé nefndur til sögunnar afi Björns, Jón Þorbergsson, sem var í hópi frumkvöðla í landbúnaðarmálum á Íslandi. Hann ferðaðist upp úr aldamótunum 1900 á hestbaki og gangandi um allt Ísland til þess að kenna bændum að rækta sauðfé - og hafði þá lokið námi í Noregi og Skotlandi í landbúnaðarvísindum. Síðar keypti hann Bessastaði þar sem Þóra, móðir Björns, fæddist. Þegar hún var þriggja ára seldi Jón Bessastaði og keypti Laxamýri, þar sem frændfólk Björns býr enn. Foreldrar Björns kynntust í Menntaskólanum á Akureyri þar sem þau voru samtíða við nám. Faðir hans, Páll Flygenring verkfræðingur, er af hafnfirskum útgerðarmönnum kominn en varð síðar ráðuneytisstjóri í iðnaðarráðuneytinu. Þóra móðir Björns lauk prófi frá Kennaraháskóla Íslands og hefur samhliða öðrum störfum gefið út nokkrar ljóðabækur.

Sjálfur lauk Björn stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina 1973.

"Ég var í fyrsta árganginum sem lauk stúdentsprófi frá þeim skóla, sem fyrsta árið var undir stjórn Einars Magnússonar, rektors Menntaskólans í Reykjavík," segir hann. "Mér leiddist jafnan heldur í skóla og ég er ekki viss um að ég hefði haft menntaskólanámið af nema vegna þess að ég fékk alltaf að sleppa vorprófunum til þess að komast sem fyrst norður á Laxamýri. Ég hafði jafnan háar einkunnir á jólaprófum og marsprófum svo rektor lét þetta gott heita. Síðar voru settar reglur um þessi mál.""Það áttu margir erfitt með að skilja að ég skyldi hætta í dýralækningunum, það var erfitt að komast inn í dýralæknanám í Noregi, aðeins 35 teknir inn á ári og af þeim kannski einn Íslendingur - en mér fannst þetta vera hið rétta fyrir mig. Ég gerði ráð fyrir, af umtali, að læknanámið við Háskóla Íslands yrði mjög erfitt en reyndin varð sú að mér fannst námið auðveldara en ég hafði búist við.

Ég hóf læknanámið hér 1976 og fór til framhaldsnáms í lyflækningum til Bandaríkjanna árið 1984. Vala konan mín fór með mér, við kynntumst á Húsavík þegar ég var þar læknir árið 1983 en hún vann á hótelinu, þá nýlega orðin stúdent. Hún lauk meistaragráðu í enskum bókmenntum og MBA-prófi í Bandaríkjunum, þar sem við höfum átt heimili í sautján ár, lengst af í Minnesota.

Ég ákvað að leggja fyrir mig sérnám í hjartalækningum og var það ekki síst vegna kynna minna á námsárunum hér af hinum gagnmerka lækni Snorra Páli Snorrasyni sem starfaði á Landspítalanum. Hann hafði gífurleg áhrif á mig og var mér fyrirmynd. Snorri var svo mikill húmanisti. Það atriði finnst mér hafa vantað í kennslu og læknismenntun bæði hér og annars staðar. Menn festa um of sjónir á þeim hluta líkamans sem sjúkur er en manneskjan sem slík vill stundum gleymast.

Ég fór oft inn á skrifstofu Snorra til þess að ræða við hann um allt milli himins og jarðar, oft ræddum við t.d. um drauma sem ekki er algengt umræðuefni lækna. Ég man að ég fór í fyrsta skipti inn á skristofuna til hans eftir að ég sagði honum að ég væri ekki almennilega viss um hvenær hjartað hætti að draga sig saman og hvenær það byrjaði að slaka á. Snorri Páll svaraði: "Komdu hérna inn á skrifstofuna til mín. - Sjáðu til, ég er búinn að velta þessu fyrir mér í 30 ár og ég er engu nær." Sjálfur er ég aðeins nær um svarið við þessari spurningu nú en ég var þá, en ekki þó fullkomlega viss."

"Ég fór til náms í Bandaríkjunum vegna þess að ég vissi að þar var völ á mjög góðri læknismenntun. Ég vildi fá eins góða þjálfun og hægt væri í hjartalækningum. Ég hóf nám í lyflækningum við University of Wisconsin í Madison. Ef menn ætla í hjartalækningar er skylda að mennta sig fyrst í lyflækningum. Ég lauk því námi árið 1987 og fór þá til Washington-háskóla í Seattle og var þar í fjögur ár í sérnámi í hjartalækningum. Það var dásamlegur tími, ég vann þar með góðu fólki í skemmtilegri borg.

Þetta var fyrst og fremst verkleg kennsla, maður vann eins og dýr í þetta 80 til 100 tíma á viku, í námslok taka menn svo próf í sérgrein sinni. Jafnframt því að vinna á sjúkrahúsi er þess krafist í svona námi í Bandaríkjunum að menn geri vissan fjölda hjartaþræðinga og annarra aðgerða á ári. Þetta er mjög vel skipulagt hjá þeim."

Maður byrjar á því einfaldasta

En hvernig skyldi vera að byrja að gera svona aðgerðir eins og t.d. hjartaþræðingu?

"Maður byrjar með öðrum og á því einfaldasta," segir Björn. "Það erfiðasta í hjartalækningum er að mínu mati að meta sjúklinginn og taka ákvörðun um hvað gera eigi. Það er ekki það erfiðasta að gera aðgerðir - sumar eru þannig að jafnvel górilluapi gæti gert þær." Ég verð svo langleit við þessar upplýsingar að Björn getur ekki að sér gert að hlæja. "Ég segi nú bara svona," bætir hann við hógvær.

"Það er dómgreindin sem skiptir mestu máli," heldur hann áfram. "Í dag höfum við yfir mikilli tækni að ráða og oft er hægt að valda meiri skaða en hjálp með vissum aðgerðum. Dómgreindin er því það sem skiptir öllu máli fyrir lækna. Það er með læknisfræðina eins og tónlistina. Fólk getur náð mikilli tækni í hljóðfæraleik en um leið getur tónlist þess verið "steindauð". Í hvert sinn sem læknir nálgast sjúkling nær hápunkti allur sá lærdómur, öll sú kunnátta og öll sú reynsla sem hann hefur yfir að ráða. Það er listin.

Sjúkdómsgreining í hjartalækningum í dag er mun auðveldari en hún var í gamla daga. Það gera tækniframfarirnar."

En hafa orðið eins miklar framfarir í lyfjafræði og t.d. í tæknimálum?

"Að sumu leyti ekki," segir Björn. "Menn héldu lengi - og vera má að svo sé, að erfðafræðin yrði lykillinn í meðhöndlun hjartasjúkdóma. En í ljós kemur að tiltölulega einfaldar aðgerðir bjarga ótrúlega mörgum mannslífum. Sem dæmi má nefna að nú er fjöldi manns, sem er með slæma hjartasjúkdóma, með ákveðna tegund af gangráði sem skynjar þegar skammhlaup verður í hjartanu - þá gefur gangráðurinn hjartanu rafstuð. Áður hefði þetta fólk dáið skyndidauða. Svona gangráður var t.d. nýlega settur í varaforseta Bandaríkjanna. Þarna er ekki verið að komast að rót vandans heldur er fundið upp tæki sem leysir vandann."

Eru ýmsar aðgerðir gerðar í Bandaríkjunum sem ekki eru gerðar hér?

"Já, Ísland er lítið land og í vissum tilvikum eru sjúklingarnir hreinlega of fáir til þess að hægt sé að halda uppi ákveðinni þjónustu. Þá er góð lausn að senda fólk út í aðgerð," segir Björn. "Ég geri allar mínar aðgerðir með æðaleggjum sem þræddir eru inn í kransæðarnar gegnum nárann. Í framtíðinni munu æ fleiri aðgerðir verða gerðar með æðaleggjum á þennan hátt."

Ég held áfram að spyrja. - Er grundvallarmunur á áunnum hjartasjúkdómum og hinum sem meðfæddir eru?

"Já, flestar leiðslutruflanir í hjarta eru t.d. vegna meðfæddra eiginleika - en þó langt því frá allar," svarar Björn. "Örvefur getur t.d. valdið skammhlaupi í hjarta og eins getur hár blóðþrýstingur valdið vissum skemmdum.

Ekki má gleyma því að líkaminn er gæddur miklum lækningamætti, það er oft sem læknar geta lítið annað en hjálpað náttúrunni. Til dæmis á það við um beinbrot, læknar setja brotið rétt saman en líkaminn sér um að græða beinin saman. Líkaminn getur aftur á móti ekki gert mikið hvað kransæðasjúkdóma snertir. Vissir þættir geta stuðlað að kransæðasjúkdómum, kannski ekki valdið þeim - en haft áhrif á hversu hratt sjúkdómurinn býr um sig. Meiri líkur eru t.d. á því að fólk sem reykir fái kransæðasjúkdóm fyrr á ævinni en ella hefði verið. Þeir sem reykja geta gert meira fyrir sjálfa sig með því að hætta því en öll heimsins tækni getur gert."

Lyf til lækkunar blóðfitu hafa reynst mjög vel

"Lyf sem gefin hafa verið til að minnka blóðfitu hafa reynst jafnvel betur en menn gerðu sér vonir um í fyrstu. Rannsókn eftir rannsókn sýnir að tíðni kransæðastíflna og annarra kvilla í hjartanu hefur lækkað stórlega við notkun þessara lyfja. Reyndar er önnur mælieining notuð í Bandaríkjunum hvað snertir mælingu á blóðfitu en t.d. hér á landi og læknar þar ganga mjög vasklega fram í að lækka blóðfitu hjá fólki að þeim mörkum sem þeir setja, sem hafa verið lægri en hér tíðkast. Í Bandaríkjunum vilja menn ekki að hið slæma LDL-kólesteról í blóði verði meira en 130 milligrömm á desilítra hjá fólki með einn eða fleiri áhættuþátt; og 100 milligrömm á desilítra hjá fólki með hjartasjúkdóma."

En hvað með þá aðferð að fóðra æðarnar, eins og það er kallað?

"Áður var framkvæmd svokölluð kransæðaútvíkkun, vökvafyllt blaðra sett inn í þröngu æðina og hún víkkuð út. Árangurinn af því var sæmilegur," segir Björn. "Síðan fóru menn að setja vírhólk utan um blöðruna, því næst var hún þanin út og hólkurinn svo skilinn eftir innan í æðinni, það er hin svokallaða fóðrun. Þetta dugar tiltölulega vel en í 20% tilvika kemur þrengingin aftur og þá innan sex mánaða. Í slíkum tilfellum er um að ræða örvef en ekki blóðfitu. Þá er oft farið inn í æðina aftur og víkkað á ný.

Við erum hins vegar farnir að nota geislavirka víra þar sem þrengingin er, víkkum hana og geislum. Geislunin veldur því að örvefurinn vex ekki aftur. Ekki er búið að gera þetta nema í nokkur ár en reynslan er góð.

Líklega er þetta þó ekki framtíðin heldur að þekja stoðgrindina (vírhólkinn) með efnum sem koma í veg fyrir örvefjarmyndunina. Enn er þetta bara gert á örfáum stöðum í Bandaríkjunum og Evrópu í tilraunaskyni og er sjúkrahúsið sem ég starfa á einn þeirra. Hingað til lofa niðurstöðurnar góðu.

Ég tel að í framhaldi af þessu muni opnum aðgerðum fækka, þ.e. aðgerðum þar sem tekin er æð t.d. úr fæti og sett í stað stíflaðrar æðar við hjartað. Menn eru farnir að geta gert æ meira með umræddum leggjum og gegnum kransæðina sjálfa. Einnig má ætla að með forvarnarstarfi muni hjarta- og æðasjúkdómum fækka frekar en orðið er. Tíðni hjartasjúkdóma og dauðsfalla af þeirra völdum hefur lækkað undanfarin ár en eigi að síður eru þessir sjúkdómar algengasta dánarorsökin bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum. Einnig er hægt að stórhægja á sjúkdómum með því að hreyfa sig reglubundið, reykja ekki o.s.frv.

Forlagatrúin er sterk í Íslendingum, þeir gera sér sumir ekki nægilega ljósa grein fyrir því hve gífurleg áhrif við getum haft á eigin örlög."

Offita hefur aukist geigvænlega

Þú talar um árangur forvarna - hefur offita ekki aukist á sama tíma og hinir áhættuþættirnir hafa látið undan síga?

"Jú, þegar við hjónin fórum til Bandaríkjanna fyrir 17 árum ofbauð okkur hvað fólk þar var feitt. Nú þegar við komum heim sjáum við að ástandið í þessum efnum hjá Íslendingum minnir einna helst á Minnesota - við sjáum jafnvel mun frá því að við komum hér síðast fyrir þremur árum," svarar Björn. "Mér finnst þetta vera skelfileg þróun. Mataræði Íslendinga hefur greinilega breyst mikið og líklega mættu sumir þeirra hreyfa sig meira."

En hvað með Björn - skyldi hann vera duglegur að hreyfa sig?

Jú, hann segir svo vera. "Ég hreyfi mig mikið og mest í tengslum við hundarækt sem ég stunda í hjáverkum. Ég rækta Schäferhunda og þjálfa þá. Ég hef t.d. þjálfað einn hund fyrir lögregluna í Minneapolis. Að þjálfa hunda er góð leið til að slaka á. Við hjónin og börn okkar, sem eru á aldrinum tveggja til átta ára, búum í nágrenni við Minneapolis. Ég fékk dálitla landspildu þar - við erum nærri því úti í sveit. Börnunum semur vel við hundana - góðir varðhundar eru skapgóðir og öruggir með sig."

Skyldi Björn nota Laxamýraraðferðina við hundaræktina?

"Já, ég geri það með góðum árangri. Það er í raun mjög svipað að rækta hunda og menn - ef svo má að orði komast. Í hundarækt þarf að setja mjög skýrar reglur og vera mjög samkvæmur sjálfum sér - aldrei má brjóta reglurnar.

Hundunum líður vel með svona reglur og eins er með krakka. Ef þau vita hvað þau mega og ekki mega þá líður þeim vel."

Stjórnar hópi 40 hjartalækna

"Ég lenti í því fyrir þremur árum að taka að mér stjórn 40 manna hjartalæknahóps sem er einn stærsti sinnar tegundar í Bandaríkjunum. Það er eins með hjartalækna og hvolpa - þeir eru sjálfstæðir og vilja gera hlutina eftir eigin höfði. Það er því mikil vinna að hafa stjórn á svona hópi - það er það erfiðasta sem ég hef tekið mér fyrir hendur frá því ég kom til Bandaríkjanna. Ég er í 50% starfi við stjórnun og hinn hluta starfsins sé ég um sjúklinga og tek vaktir. Lengi vel voru vaktirnar mjög langar, menn voru kannski að gera aðgerðir eftir að hafa verið vakandi í nær 30 tíma. Eftir að ég tók við breyttist þetta. Nú fær enginn að vaka lengur en 24 tíma og eftir slíka vakt fá menn ekki að koma nálægt sjúklingi, þeir fara beint heim að sofa.

Stundum virðist sem læknar haldi að þeir séu ódauðlegir og geti vakað og unnið miklu meira en aðrir en auðvitað er ekki svo. Í Bandaríkjunum snýst þetta líka mikið um peninga - það þarf að ráða lækni fyrir þá sem fara heim að sofa.

Áður en ég breytti þessu kerfi voru áköf mótmæli en eftir að það komst á hefur enginn mótmælt. Menn eru ánægðir með þessa breytingu og miklu fleiri sækjast eftir að koma til vinnu hjá okkur.

Okkar helsti keppinautur er Mayosjúkrahúsið sem er heimsþekkt. Þeirra hjartaprógramm er álíka að umfangi og okkar og við keppum við þá af mikilli hörku."

Læknarnir sjá um rekstur hjartaprógrammsins

Læknarnir í mínum hópi voru alltaf óánægðir með hvernig spítalinn rak hjartadeildina, þræðingarstofuna og skurðstofuna. Það endaði með að við fengum sjúkrahúsið til að samþykkja að við læknarnir rækjum þessar einingar líka, við læknarnir 40 rekum því allt hjartaprógrammið á sjúkrahúsinu og ég hef yfirstjórn yfir öllu saman. Kosturinn við þetta er að ekki er hægt að kenna spítalanum um ef illa fer heldur eru læknarnir ábyrgir sjálfir. Fjárhagslega hefur þetta komið vel út fyrir sjúkrahúsið, menn velta meira fyrir sér rekstrarkostnaði og við það hefur hann lækkað."

"Þetta er einkasjúkrahús. Eigandi þess er stórt félag sem heitir Allina og á sex eða sjö sjúkrahús í Minnesota, þar af þrjú stór í Minneapolis og er sjúkrahúsið sem ég starfa við þeirra stærst. Rekstur þessara sjúkrahúsa er háður þeim skilyrðum að vera ekki rekin í hagnaðarskyni, þ.e. ef hagnaður er yfir ákveðnu marki er hann látinn renna til líknarstarfsemi.

Nú stefnir í að byggt verði nýtt hjartasjúkrahús á spítalalóðinni með 130 rúmum. Við ætlum að flytja starfsemina í þetta hús en ástæðan er sú að við náum miklu meiri hagræðingu í nýrri byggingu. Gamla húsið verður nýtt undir aðra starfsemi sjúkrahússins. Þar er fjölmargt annað í boði, t.d. er þar ein stærsta deild fyrir baksjúkdóma í Bandaríkjunum."

2.000 kransæðavíkkanir á ári

"Við gerum um það bil 2.000 kransæðavíkkanir á ári, um 1.400 opnar kransæða- og lokuaðgerðir og um 30 þúsund ómskoðanir á hjarta. Þá setjum við á milli 500 og 600 hjartagangráða í fólk og tíu hjartaflutningar voru gerðir á sjúkrahúsinu á síðastliðnu ári. Mikil samkeppni er um fáanleg hjörtu og maður vonar að það komi eitthvað annað í þeirra stað. Ég hugsa að framtíðin verði einhvers konar gervihjarta - tilraunir eru í gangi með slíkt. Á okkar sjúkrahúsi setjum við aukadælu í fólk sem bíður eftir hjartaflutningi.

Klínískar rannsóknir hafa á síðustu árum færst í ríkari mæli frá háskólasjúkrahúsum og inn í einkageirann. Sem dæmi rekum við læknarnir öfluga rannsóknarstofnun sem kallast Minneapolis Heart Institute Research Foundation."

Framtíðin í hjartalækningum

En hver er framtíðin í hjartalækningum?

"Við verðum að fylgja sjúklingum mun betur eftir en gert er í dag og reyna að koma í veg fyrir að þeir veikist á ný," segir Björn. "Auk þess verðum við að auka forvarnir til þess að minnka tíðni þessara sjúkdóma almennt. Við hjartalæknarnir hjá Minneapolis Heart Institute erum að breyta viðhorfum okkar á þann veg að líta á hjartasjúkdóma í víðara samhengi og manneskjuna fremur sem eina heild. Við erum þegar farin að huga að því sem við köllum "body, mind, spirit", líkami, hugur, andi. Við látum fólk t.d. hlusta á tónlist meðan við gerum aðgerðir og reynslan sýnir að aðgerðirnar ganga þá betur og fólkið nær sér fyrr. Eða þá að sjúklingarnir eru látnir læra slökun fyrir aðgerðina. Andlegt ástand fólks og viðhorf skipta miklu máli. Á slíka hluti hefur ekki verið litið nægilega hingað til hvað snertir menntun lækna.

Það er ekki nóg að kunna reiðinnar ósköp, það þarf að geta sett kunnáttuna í samhengi við ýmsa aðra þætti."

Segulómun - mikilvæg tækni

Hvað er það nýjasta í hjartalækningum í dag?

"Segulómun er tækni sem miklu skiptir. Við sendum mann frá okkur til London til þess að læra þetta þar. Ég held að innan fimm ára verði hægt að fá miklu meiri upplýsingar um hjartað og hjartasjúkdóma en áður hefur verið hægt. Engin geislun er samfara segulómrannsókn og hún er sársaukalaus. Í þessari einu rannsókn er á minna en hálftíma hægt að fá upplýsingar sem áður fyrr þurfti þrjár eða fjórar rannsóknir til. Eitthvað mun verða um það að frumum sem ræktaðar eru úr sjúklingnum verði komið í hjarta með aðgerð gegnum t.d. legg. Við erum byrjaðir á þessu á spítalanum hjá okkur, t.d. til að endurnýja skemmda vefi í hjartanu."

Skiptir miklu að njóta lífsins

En verða framfarir í hjartalækningum til þess að lengja líf fólks almennt eða líður því aðeins betur á meðan það er á lífi?

"Þær munu kannski lengja líf fólks eitthvað en aðallega mun það njóta lífsins betur og það skiptir miklu máli," svarar Björn. "Fólk með hjartasjúkdóma er oft gífurlega illa haldið og í mörgum tilvikum væri slíkt óþarfi ef rétt væri á málum haldið."

Koma margir Íslendingar til lækninga á deild Björns?

"Nei, ekki margir. Hér á Íslandi er gert mjög margt hvað hjartalækningar snertir. Við stöndum mjög vel hvað menntun fagfólks í þessari grein áhrærir, en ég er ekki viss um að því sé alltaf séð fyrir nægilega góðri aðstöðu. Mér rann til rifja þegar ég var hér læknanemi fyrir 20 árum að sjá fólk liggja eins og hráviði á göngum sjúkrahúsa og mér skilst að ástandið sé víða þannig enn. Fólki batnar ekki þótt deildum sé lokað t.d. að sumarlagi - sjúkdómarnir halda áfram að vera fyrir hendi.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að meðhöndla hjartasjúkdóma og aðra sjúkdóma bæði fljótt og vel."

Bandaríska kerfið hefur allt það besta og versta

Talsverð umræða hefur verið hér um kosti og galla einkasjúkrahúsa - væri æskilegt að taka upp það kerfi á Íslandi?

"Það er mikill munur á einkareknum sjúkrahúsum og háskólasjúkrahúsum og því miður hafa þau síðarnefndu átt mjög undir högg að sækja," segir Björn. "Til dæmis veit ég að Minnesota-háskóli á mjög í vök að verjast með sitt hjartaprógramm. Fólk sem er í sérnámi hjá þeim kemur gjarnan í okkar prógramm líka til að sjá nægilega marga sjúklinga. Þetta stafar af því að tryggingafélögin sem tryggja sjúklinga borga bara ákveðna upphæð fyrir ýmsar aðgerðir og einkasjúkrahúsin eiga auðveldara með að stilla sig inn á þetta - háskólasjúkrahúsin þurfa að sinna margháttuðum málum sem standa miklu síður undir sér. Þegar styrkir frá opinberum aðilum minnka berjast háskólasjúkrahúsin í bökkum.

Það má segja um bandaríska kerfið að það hafi allt það besta og versta í heilbrigðisþjónustu sem til er. Meira en 40 milljónir Bandaríkjamanna hafa enga heilsutryggingu, fólk er oft hrætt við að skipta um vinnu vegna þess að þá missir það heilsutrygginguna sína og á ekki kost á annarri tryggingu nema gegn ofurfé. Bandaríska kerfið er því alls ekki heppileg fyrirmynd. Ég held að það þurfi að fara milliveg í þessum málum hér."