Páll Björnsson
Páll Björnsson
Páll Björnsson fæddist 1961 í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði 1981 og BA-prófi frá Háskóla Íslands í sagnfræði 1986. Hann var við framhaldsnám í Þýskalandi í Göttingen og Freiburg í sagnfræði. Doktorspróf í sagnfræði tók hann frá Rochester-háskóla í Bandaríkjunum. Páll er formaður Sagnfræðingafélags Íslands.
Páll Björnsson fæddist 1961 í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði 1981 og BA-prófi frá Háskóla Íslands í sagnfræði 1986. Hann var við framhaldsnám í Þýskalandi í Göttingen og Freiburg í sagnfræði. Doktorspróf í sagnfræði tók hann frá Rochester-háskóla í Bandaríkjunum. Páll er formaður Sagnfræðingafélags Íslands.

Í hádeginu nk. þriðjudag hefst fyrsti fyrirlestur Sagnfræðingafélagsins í Norræna húsinu um efnið Hvað er (ó)þjóð? Matthías Johannessen rithöfundur mun ríða á vaðið og leita svara við spurningunni hvað einkenni Íslendinga sem þjóð. Samtals munu 17 fyrirlesarar tala. Fyrirlestrarnir verða annan hvern þriðjudag að jafnaði fram yfir miðjan apríl 2002.

Páll Björnsson er formaður Sagnfræðingafélags Íslands. Hann var spurður nánar um það meginþema sem er í öllum þessum fyrirlestrum í vetur?

"Það hefur skapst sú venja að helga hverja fyrirlestraröð einni meginspurningu. Núna verður sem fyrr sagði meginspurningin: Hvað er (ó)þjóð? Þá er í rauninni líka verið að spyrja "hvað er þjóð?" Gert er ráð fyrir því að allir fyrirlesarar muni kljást við þessa spurningu, hver á sinn hátt."

-Hvers vegna varð þetta efni fyrir valinu?

"Þetta efni hefur raunar verið talsvert í umræðunni alla sl. öld. Þetta efni er valið m.a. af því að rannsóknir sagnfræðinga og annarra hafa verið að aukast á þjóðerni og þjóðernishyggju eða með öðrum orðum sjálfsmynd Íslendinga. Þegar litið er yfir lista fyrirlesara má sjá að þar tala margir af yngri kynslóð fræðimanna sem eru að fást við rannsóknir á þessu sviði."

-Má segja að þetta verði einskonar "uppgjör" sl. aldar?

"Það er of mikið sagt en hins vegar með aukinni hnattvæðingu og aukinni umræðu um fjölmenningu á Íslandi er orðið mikilvægt að skapa fræðilegan vettvang fyrir þessa umræðu."

-Hefur verið mikið mál að fá fyrirlesara?

"Nei, þegar við fórum að undirbúa þetta í upphafi árs ætluðum við einungis að hafa þetta efni á dagskrá fram að áramótum en áhuginn á viðfangsefninu var svo mikill að við ákváðum að hafa umfjöllunina um það fram yfir miðjan apríl."

-Hvað er það einkum sem fyrirlesarar eru að fást við í sínum erindum?

"Nálganir fyrirlesara á efni eru mjög fjölbreyttar. Flutt verða erindi sem spanna tímabilið allt frá miðöldum til samtíma."

-Hefur sjálfsmynd okkar Íslendinga tekið miklum breytingum undanfarna áratugi?

"Erfitt er að svara þessari spurningu á tæmandi hátt og einn tilgangurinn með þessari fyrirlestraröð er einmitt m.a. að fá einhver svör við þessu. Persónulega álít ég að sjálfsmynd margra Íslendinga sé á allra síðusu áratugum orðin alþjóðlegri en hún var. Menn eru orðnir meira vakandi fyrir þeim hættum sem geta skapast af róttækri þjóðernishyggju."

-Eru þessir fyrirlestrar vel sóttir?

"Þeir hafa verið vel sóttir og það virðist vera breiður hópur sem sækir þá. Þeir eru öllum opnir og aðgangur ókeypis. Fyrirlestrarnir hefjast kl. 12.05 og lýkur kl. 13.00. Helmingur af fundinum er sjálfur fyrirlesturinn og hinn helmingur tímans fer í umræður.

-Hverjir eru fyrirlesarar?

Auk Matthíasar Johannessen eru fyrirlesarar: Hallfríður Þórarinsdóttir mannfræðingur sem mun tala um hnattvæðingu og íslenska þjóðarímynd. Sverrir Jakobsson sagnfræðingur ræðir um sjálsmyndir miðalda og uppruna Íslendinga. Gauti Kristmannsson þýingafræðingur kallar sinn fyrirlestur "Þjóð eða óþjóðalýður? Togstreitan um Kelta og norræna menn um 1800". Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðingur ræðir um hugmyndir Herders um þjóðina og endalok menningarlegrar þjóðar. Gunnar Karlsson leitar svara við spurningunni hvenær Íslendingar urðu pólitísk þjóð. Guðmundur Brynjólfsson leiklistarfræðingur nefnir sinn fyrirlestur "eyvindur&halla.com - hið ó/al/þjóðlega leikrit þá frægast það var". Fyrirlestur Jóns Ólafs Ísberg sagnfræðings nefnist "Heilbrigð þjóð - sjúk óþjóð". Síðasti fyrirlesarinn fyrir jól er Róbert Haraldsson heimspekingur sem fjallar um örlög örþjóðar á (ó)þjóðlegum tímum.

Fyrsti fyrirlesarinn eftir áramót er Kolbeinn Óttarsson sem fjallar um hlutverk þjóðhátíða í viðhaldi þjóðernisvitundar. Þá varpar Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekingur fram spurningunni "Hver erum "við"?". Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur nefnir sinn fyrirlestur "Óþjóð enda heims. Ísland sem and-útópía á liðnum öldum". Unnur B. Karlsdóttir sagnfræðingur fjallar um samband þjóðernis og kynþáttar. Ragnheiður Kristjánsdóttir ræðir um viðhorf til róttækrar vinstrihreyfingar. Bára Baldursdóttir sagnfræðingur fjallar um genetískar mengunarvarnir í síðari heimsstyrjöld. Guðmundur Jónsson sagnfræðingur ræðir um velferðarþjóðfélagið og sjálfsmynd Íslendinga. Sigurður Líndal lögfræðingur fjallar um þjóðerni og alþjóðahyggju.