Seinustu ár í lífi Bjarkar hafa verið ævintýraleg.
Seinustu ár í lífi Bjarkar hafa verið ævintýraleg.
ÞAÐ voru yfir 1000 spurningar sem bárust Björk "okkar" Guðmundsdóttur er hún tengdi sig inn á Netið til þess að svara spurningum aðdáenda sinna á heimasíðu hins virta dagblaðs The Times á föstudaginn.

ÞAÐ voru yfir 1000 spurningar sem bárust Björk "okkar" Guðmundsdóttur er hún tengdi sig inn á Netið til þess að svara spurningum aðdáenda sinna á heimasíðu hins virta dagblaðs The Times á föstudaginn. Þar var hún spurð spjörunum úr um hin ýmsu málefni sem brunnu á fingurgómum netgesta.

Þegar hún var spurð hvað henni finnist um það að plata hennar Vespertine, sem kemur út á mánudag, hafi verið fáanleg á Netinu í sex mánuði svaraði hún;

"Hún lak út fyrr en ég kærði mig um en á endanum tel ég mig eiga það dyggan hlustendahóp að þeir hafi bara verið forvitnir að heyra nýja tóna eins fljótt og hægt var, og það er gott. Ég held líka að það skipti ekki máli hversu margir hafa vistað plötuna inn á tölvuna sína því meirihluti þeirra mun vilja eiga geisladiskinn. Kannski er þetta barnalegt af mér, en ég held að fólk hafi ennþá gaman af því að halda á umslaginu, skoða það og lesa textana yfir er þeir hlusta á lagið. Mér finnst gaman að gera það og vinum mínum líka. Ef ég hefði getað stjórnað því hvenær platan hefði farið á Netið, hefði það verið fyrir þremur mánuðum en ekki sex."

Ein spurning, sem hefur líklega heimsótt marga, er hvort svanurinn sem söngkonan klæddist á Óskarsverðlaunahátíðinni og á plötuumslaginu nýja, hafi einhverja merkingu og þá hvaða. Aðspurð hafði hún þetta að segja um málið;

"Ég lít á Vespertine sem tónlistarlegt þróunarskref fyrir mig jafnt og sem fráhvarf frá fyrri verkum. Svanurinn er viðeigandi merki fyrir þetta framfaraskref."

Tónleikaferð Bjarkar hófst í þar síðustu viku og hefur sú ákvörðun söngkonunnar að halda nokkra vel valda tónleika á litlum stöðum, þar sem fjöldi gesta er takmarkaður við 300, vakið mikla athygli. Tónleikarnir eru aðeins auglýstir samdægurs á heimasíðu hennar, www.bjork.is, og er barist um miða með kjafti og klóm. Skiljanlega var Björk spurð að því hvort hún hefði engar áhyggjur af að valda þeim aðdáendum sem ekki ná í miða á þá tónleika, vonbrigðum.

"Ég er að reyna að tvinna saman tvo hluti með þessari tónleikaferð. Í fyrsta lagi að koma fram á fallegustu , minnstu, nánustu stöðunum þar sem ég get sungið án þess að styðjast við hljóðnema. Það er upplagðasta leiðin til þess að hlýða á tónlistina á Vespertine. Það er erfitt að koma til móts við miðaeftirspurnina. Ég er svo upp með mér að svona margir vilji koma á tónleikana mína og þess vegna kem ég líka fram í stærri leikhúsum, sölum og óperuhúsum. Stöðum sem hafa eins góðan hljómburð og kostur er á. Þess vegna er ég með stóra og litla tónleika. Vonandi, þegar tónlistin vex, geta tónleikastaðirnir vaxið líka, kannski í öðruvísi sýningu á næsta ári."

Eins og sagði áðan var Björk spurð að alls kyns hlutum, allt frá því hvort hún væri hunda- eða kattamanneskja, upp í það hvort hún hefði áhuga á því að gera tónlist með Kate Bush. Áhugasömum er bent á útdrátt af netspjallinu, þar sem fram koma valdar spurningar og svör á heimasíðu dagblaðsins, www.thetimes.co.uk.