Aðdáendur Bjarkar Guðmundsdóttur hafa beðið lengi eftir nýja disknum Vespertine.
Aðdáendur Bjarkar Guðmundsdóttur hafa beðið lengi eftir nýja disknum Vespertine.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á morgun kemur út fjórða sólóskífa Bjarkar Guðmundsdóttur, Vespertine. Árni Matthíasson segir frá aðdragandanum að plötunni og plötunni sjálfri.

ÁRIN FJÖGUR síðan þriðja sólóplata Bjarkar Guðmundsdóttur, Homogenic, kom út hafa verið meira en lítið ævintýraleg fyrir Björk, sem þó ætti að vera vön ævintýralegu lífi. Nægir að nefna allt umstangið í kringum kvikmyndina Myrkradansarann sem var í senn ólýsanlega hræðileg og frábærlega leikin með framúrskarandi tónlist, verðlaunaveitingar og tilnefningar og svo lokapunktinn á kvikmyndaferli Bjarkar, að því er hún sjálf segir, þegar hún kom fram sem svanur á Óskarsverðlaunahátíðinni og verpti eggjum.

Þótt tónlistin úr þeirri mynd hafi komið út á plötu var það ekki eiginleg Bjarkarplata, því lögin hlutu að lúta framvindu myndarinnar. Á plötunni var þó eitt lag, Cvalda, sem gaf til kynna hvað væri í vændum, því hljóðaheimurinn sem þar var kynntur stakk nokkuð í stúf við annað úr myndinni. Björk lét þau orð reyndar falla í viðtali fyrir skemmstu að síðasta lag Homogenic, All is Full of Love, væri í raun fyrsta lagið á Vespertine.

Myrkradansarinn gekk fyrir

Vespertine varð aftur á móti að bíða því Myrkradansarinn og tónlistin við þá mynd gekk fyrir. Um það leyti sem Björk var í miðjum tökum á Myrkradansaranum í Danmörku fór Valgeir Sigurðsson utan með tól og tæki. Eftir því sem stund gafst milli stríða unnu þau jöfnum höndum að tónlistinni fyrir myndina og einnig hugmyndir fyrir næstu plötu.

Meðal annars segist Björk hafa tekið upp ýmis hljóð heima fyrir til að ná fram heimilisblænum og um tíma hugðist hún kalla plötuna Domestica, til að undirstrika enn frekar um hvað hún snerist, en þótti það síðan óþarfi, nóg væri að ná stemmningunni í hljóðaheiminum á plötunni, hún þurfti ekki að vera fyrir hendi í titlinum líka. Nýi titillinn, Vespertine, sem vísar til aftansöngs, þótti henni síðan henta betur þegar á reyndi, enda voru lögin samin í íslensku vetrarmyrkri; vetrarplata, þar sem hún situr inni í eldhúsi ein með fartölvuna og hvíslar allan veturinn og inntak plötunnar það að búa sér til heim, paradís, innra með sér. Í viðtali sem birtist á vefmiðlinum CDNow segir hún að mestu skipti að hlusta á nýja tónlist, það sé kannski í lagi að hlusta á hundrað ára gamla tónlist einn dag á ári, en hina dagana eigi menn að hlusta á eitthvað nýtt; mestu skipti að miða áfram.

Frekari vinna fór síðan fram á Spáni og síðastliðið sumar kom Björk sér svo upp vinnubúðum í New York og fékk Zeenu Parkins meðal annarra til liðs við sig að vinna lögin frekar. Lokavinnsla fór síðan fram í Lundúnum. Upphaflega stóð til að gefa plötuna út í maí síðastliðnum, enda var hún þá tilbúin, en ýmislegt varð til að seinka útgáfu, meðal annars myndbandavinnsla og markaðsmál.

Ýmsir samstarfsmenn

Eins og jafnan áður kallaði Björk ýmsa tónlistarmenn til liðs við sig þegar kom að því að vinna plötuna, en meðal samstarfsmanna eru þeir Andrew Daniel og Martin Schmidt sem skipa Matmos-tvíeykið, Marius DeVries, slagverksleikarinn hollenski sem áður hefur leikið með Björk, hörpuleikarinn Zeena Parkins, danski danstónlistarmaðurinn Thomas Knak og Guy Sigsworth, sem hefur komið við sögu á flestum plötum Bjarkar.

Þeir listamenn sem hún vinnur með koma hver úr sinni áttinni. Thomas Knak er danskur eins og getið er, en Björk heyrði plötu hans Objects For An Ideal Home og hringdi í Knak þegar hún var stödd í Danmörku í kvikmyndastússi. Hann leggur til hljóð og hrynskipan í tveimur lögum, Undo og Cocoon.

Zeena Parkins er með merkustu tónlistarmönnum í bandarískri nýtónlist, en hún leikur á hörpu, píanó, harmonikku og hljóðsmala jöfnum höndum, hvort sem hún er að leika djass, nútímatónlist eða hreina framúrstefnu. Parkins kom meðal annars hingað til lands með Skeleton Crew Freds Friths á sínum tíma og vonandi muna einhverjir eftir þeim tónleikum, en annars hefur hún unnið með Elliot Sharp, Anthony Braxton og kvennarokksveitinni Hole svo dæmi séu tekin.

Þeir Matmos-félagar vöktu mikla athygli fyrir skífu sína Quasi-Objects sem kom út 1998, en á henni leika þeir sér með hljóðbúta úr ólíklegustu áttum. Sú plata þykir afskaplega vel heppnuð, en á nýjustu breiðskífu þeirra félaga, A Chance to Cut Is a Chance to Cure, sem ekki hefur borist hingað til lands, beita þeir ýmsum hljóðum sem hljóðrituð eru á skurðstofum, til að mynda soghljóðið við fitusog, en báðir eru þeir Daniel og Schmidt læknasynir.

Framúrskarandi dómar

Þótt platan sé ekki enn komin út hafa þegar birst dómar um hana hjá mörgum helstu dagblöðum og tónlistartímaritum heims. Þar hefur Björk fengið frábæra dóma fyrir frumleika og innihaldsríka tónlist og gengur meðal annars svo langt að tónlistargagnrýnandi The Times lætur þau orð falla að Björk sé svo hæfileikarík að hún geri flestum dægurtónlistarmönnum skömm til. Aðrir leggja áherslu á að Vespertine sé besta plata Bjarkar hingað til og um leið persónulegasta verk hennar, sem sé á sama tíma nýstárlegt og aðgengilegt.