BÁÐUM hjúkrunarfræðideildum landsins, við Háskólann á Akureyri og við Háskóla Íslands, er hrósað fyrir mikilvægt framlag sitt til heilsuverndar og hjúkrunarfræðistarfs í heildarúttekt sem fram fór á hjúkrunarfræðimenntun í landinu.

BÁÐUM hjúkrunarfræðideildum landsins, við Háskólann á Akureyri og við Háskóla Íslands, er hrósað fyrir mikilvægt framlag sitt til heilsuverndar og hjúkrunarfræðistarfs í heildarúttekt sem fram fór á hjúkrunarfræðimenntun í landinu. Úttektin var gerð á vegum menntamálaráðuneytisins og liggja niðurstöður nú fyrir á vefriti ráðuneytisins.

Þetta er fyrsta úttektin sem byggir á reglum um gæðaeftirlit með háskólakennslu sem settar voru í maí 1999 og náði úttektin til BS-gráðu í hjúkrunarfræði og framhaldsnáms til meistaragráðu við Háskólann á Akureyri og við Háskóla Íslands. Lagt var mat á almennt nám, fjarnám og starfsþjálfun eftir því sem við á í hvorum skóla. Framkvæmd úttektarinnar var í höndum ytri matshóps sem skipaður var af menntamálaráðherra og heimsótti hópurinn háskólana og skrifaði skýrslu um mat sitt á náminu sem þeir byggðu á sjálfsmatsskýrslum hjúkrunarfræðideildanna og niðurstöðum heimsókna.

Í skýrslunni er báðum hjúkrunarfræðideildunum hrósað fyrir mikilvægt framlag sitt til hjúkrunarfræðistarfs á Íslandi og eru þær taldar bæta hvor aðra upp, þar sem Háskólinn á Akureyri miði að því að mennta almenna hjúkrunarfræðinga sem séu tilbúnir til starfa í dreifbýli og Háskóli Íslands sérhæfða hjúkrunarfræðinga sem starfi á höfuðborgarsvæðinu. Háskólinn á Akureyri leggi áherslu á verklegt nám en Háskóli Íslands leggi áherslu á rannsóknir. Jafnframt er bent á að deildirnar geti með auknu samstarfi lagt meira til heilsugæslu í þjóðfélaginu.

Starfshópurinn telur að auka þurfi notkun nútímatækni við kennslu hjúkrunarfræði og til að auka námsframboð og námsefni, einnig eru deildirnar hvattar til að kynna fræðistörf sín og rannsóknir meira en nú sé, svo fátt eitt sé nefnt. Eins og fyrr segir er hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri sérstaklega hrósað fyrir framlag hennar til hjúkrunar á landsbyggðinni en hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands er hrósað sérstaklega fyrir fræðistörf og rannsóknir sem nýtast allri fræðigreininni.