Þ au níu ár sem ég var yfirmaður framleiðsludeildar Fox-kvikmyndaversins gerðum við yfir hundrað myndir og sumar þeirra býsna góðar eins og Patton, M*A*S*H, Butch Cassidy og Franska fíkniefnasalann .

Þau níu ár sem ég var yfirmaður framleiðsludeildar Fox-kvikmyndaversins gerðum við yfir hundrað myndir og sumar þeirra býsna góðar eins og Patton, M*A*S*H, Butch Cassidy og Franska fíkniefnasalann. En Apaplánetan er eina myndin sem ég hefði viljað framleiða aftur eins og ég hef nú gert vegna þess að ég held að hún hafi eitthvað að stefna."

Sá sem þetta segir heitir Richard D. Zanuck og er einn af alfarsælustu kvikmyndaframleiðendum í Hollywood. Hann á reyndar ekki langt að sækja hæfileikann til þess að sjá hvað gengur og hvað gengur ekki í bíó vegna þess að faðir hans var einnig stórframleiðandi á sinni tíð, Darryl F. Zanuck (Þrúgur reiðinnar). Richard er í þeirri óvenjulegu stöðu að hafa framleitt bæði Apaplánetuna og endurgerð hennar sem verður frumsýnd hér á landi um næstu helgi.

Myndirnar sem Zanuck hefur framleitt á undanförnum þremur áratugum eru öllum kunnugar. The Sting, The Sugarland Express ( Spielberg gerði sína fyrstu bíómynd undir hans leiðsögn), Jaws og Driving Miss Daisy svo nokkrar séu nefndar. Á því árabili sem hann var yfirmaður framleiðsludeildar Fox hlutu myndir kvikmyndaversins 150 tilnefningar til Óskarsins.

Zanuck er fæddur árið 1934 og byrjaði snemma að framleiða bíómyndir eða aðeins 24 ára (Compulsion, 1959). Faðir hans var á tímabili forstjóri Fox og setti hann yfir framleiðsludeildina en rak hann á endanum þegar Fox lenti í fjárhagsvandræðum þrátt fyrir ýmsa sigra á kvikmyndasviðinu. Zanuck stofnaði sitt eigið fyrirtæki í samstarfi við David Brown en sleit því samstarfi nokkrum árum síðar og stofnaði Zanuck Company ásamt eiginkonu sinni, Lili Fini Zanuck . Fyrsta myndin þeirra var Driving Miss Daisy.

Sagt er í The New York Times að Apaplánetan hin fyrri hefði aldrei orðið til án Zanucks . Þegar hann var hjá Fox árið 1967 fékk hann í hendur handrit Rod Serlings upp úr bók Pierre Boulle en Warner Bros. hafði skömmu áður hafnað handritinu er fjallaði um apasamfélag sem talaði mannamál og notaði mannfólk sem þræla.

Zanuck tók handritið ekki alvarlega í fyrstu. "Eina ástæðan fyrir því að ég las það var sú að Serling gerði sjónvarpsþættina Í ljósaskiptunum og Boulle skrifaði bókina Brúna yfir Kwai-fljótið." En Zanuck fékk áhuga og þegar í ljós kom að Charlton Heston var tilbúinn að fara með aðalhlutverkið í myndinni tóku hjólin að snúast. Þegar myndin var tilbúin prufukeyrði Zanuck hana í kvikmyndahúsi í Phoenix. "Ef okkur tækist að fara í gegnum fyrsta atriðið með talandi öpum án þess að allir færu að hlæja, yrði allt í lagi," segir hann. Í lok prufusýningarinnar fögnuðu áhorfendur ákaft. "Ég hafði aldrei séð neitt í líkingu við það áður."

Zanuck hafði löngum gert sér vonir um endurgerð Apaplánetunnar og framhaldsmynda hennar (þær urðu fjórar á endanum) og fylgdist vel með þeim umræðum sem í gangi voru þann áratug sem tekið hefur að koma endurgerðinni á koppinn. Loks heyrði hann af því að Tim Burton hefði verið ráðinn leikstjóri og fagnaði því. Skömmu síðar fékk hann hringingu frá Fox og var beðinn að taka að sér að gerast framleiðandi Apaplánetu Burtons .

Hann vill ekki kalla Apaplánetuna endurgerð heldur endursköpun. "Þetta er ekki endurgerð vegna þess að við gerðum mjög prýðilega mynd í fyrstu tilraun," segir hann. "Hún stendur enn þá fyrir sínu og við viljum ekki endurtaka okkur. Hún er framlenging á fyrri hugmynd. Apar ráða yfir heiminum og þeir eru greindir. Kannski ekki eins greindir og maðurinn en þeir eru sterkari. Og maðurinn er óæðri vera í þeirra heimi. Við höfum byggt myndina í kringum þetta grundvallaratriði og ég vona að okkur hafi tekist að fjalla um samband manns og apa með sama forvitnilega hætti og við gerðum í fyrri myndinni."