Hitchcock: Ógnvekjandi eiginleikar venjulegra hluta.
Hitchcock: Ógnvekjandi eiginleikar venjulegra hluta.
Kvikmyndaunnendur í París geta sest að allsnægtaborði um þessar mundir þar sem nú stendur yfir veigamikil sýning á lífsstarfi Alfred Hitchcocks í Pompidou safni og ber hún nafnið "Hitchcock og listin - örlagakenndar tilviljanir".

Þar getur að líta ýmsa merka hluti sem Hitchcock notaði í kvikmyndum sínum, þ.á.m. skærin sem Grace Kelly notaði til að verja sig í Dial M for Murder, hálsmen Kim Novaks í Vertigo, hauskúpu móður Norman Bates í Psycho, kveikjarann í Strangers on a Train , hálsbindið í Frenzy , simbalana í The Man who Knew Too Much og þar fram eftir götunum.

Sem kvikmyndaleikstjóri bjó Hitchcock yfir einstökum hæfileikum til að byggja upp spennu og hafði líka gott auga fyrir skoplegum hliðum lífsins.Innsýn hans í mannlegan veikleika er einn af meginþáttunum í persónusköpun hans. Hann var óvenju næmur á sérstæða eiginleika í fari fólks sem hann dró fram á kaldhæðinn hátt. Gott dæmi er persóna James Stewarts í Rear Window en kíkirinn sem hann notaði í myndinni er meðal hlutanna á sýningunni. Í fyrstu notar hann kíkinn sér til afþreyingar en síðar verður hann að tæki til að leysa morðgátu. Hitchcock átti einnig auðvelt með að uppgötva ógnvekjandi eiginleika í venjulegum hlutum sem hann notaði til að skapa spennu og eru járnbrautarlínurnar ef til vill þekktasta dæmið um slíkt.

Annað dæmi af mörgum er stafurinn R á vasaklút, handþurrku, bréfsefni og koddaveri í kvikmyndinni Rebeccu með Joan Fontaine og Laurence Olivier , en þar birtist ógnin fyrst og fremst í dularfullri nálægð hinnar látnu Rebeccu.

Á sýningunni er leitast við að sýna áhrif ýmissa listamanna á kvikmyndagerð Hitchcocks , þ.á.m. Milton Avery, Raoul Dufy og Edgar Allan Poe .

Teikningum og skissum Hitchcocks eru gerð góð skil og sviðsmynd draumatriðisins í Spellbound sem var hönnuð af Salvador Dali er meðal áhugaverðustu þátta sýningarinnar. Hitchcock var hrifinn af draumum og með Spellbound langaði hann til að gera fyrstu kvikmyndina um sálkönnun. Dali gerðar margar skemmtilegar skissur að draumatriðinu sem voru því miður ekki notaðar. Ein þeirra sýnir mynd af styttu sem molnar; herskari maura flæðir úr henni og skríða yfir Ingrid Bergman .

Sýningin stendur til 24. september og í tengslum við hana hafa verið sýndar allar kvikmyndir Hitchcocks auk sjónvarpsþáttanna "Alfred Hitchcock kynnir" og ýmssa þekktrakvikmynda sem Hitchcock er talinn hafa haft áhrif á, þ.á.m. myndir Brian di Palma, François Truffaut og Claude Chabrol .