Organistinn Véronique Le Guen við æfingar í Hallgrímskirkju á föstudaginn.
Organistinn Véronique Le Guen við æfingar í Hallgrímskirkju á föstudaginn.
VÉRONIQUE Le Guen er síðasti gestur Sumarkvölda við orgelið í Hallgrímskirkju í sumar.

VÉRONIQUE Le Guen er síðasti gestur Sumarkvölda við orgelið í Hallgrímskirkju í sumar. Það var erill í Hallgrímskirkju á föstudagsmorgun þegar blaðamann bar að garði, þar sem Le Guen var við æfingar; - ferðamenn í hundraðatali að skoða kirkjuna og mynda í bak og fyrir, - og að utan barst hljóðið frá vinnuvélunum sem sjá um að koma lóðinni við kirkjuna í stand.

"Það er allt í lagi með ferðamennina," segir Le Guen, "svo framarlega sem þeir eru ekki alveg ofan í manni. Það kemur hins vegar fyrir að ég heyri ekki hvort mestu drunurnar koma frá vinnuvélunum eða úr orgelinu." Henni finnst þetta ekkert tiltökumál, og talið berst að franskri orgelmúsík, og miklum vinsældum hennar. "Við Frakkar höfum verið svo heppnir að eiga mörg tónskáld sem sömdu vel fyrir orgelið og voru sum hver jafnvel líka organistar. En stóru nöfnin okkar eru auðvitað Charles Widor, César Franck, Olivier Messiaen og Maurice Duruflé.

Við höfum líka átt góða orgelsmiði, sérstaklega á 17., 18. og 19. öld sem smíðuðu frábær hljóðfæri. En svo byggist þetta líka á smekk. Stíll, eða skóli í orgeltónlist hefur líka með raddtegundir orgelanna að gera og smekk fyrir raddvali." Véronique Le Guen segir að það geti tekið hana 10-15 tíma að "registera", eða velja raddir í verk sem hún leikur á einum tónleikum. "Orgelin eru svo misjöfn; - hvert þeirra er hljóðheimur út af fyrir sig; - en Klais-orgelið í Hallgrímskirkju er mjög gott fyrir franska músík, - það svarar vel og er nákvæmt og gott fyrir rytmíska tónlist." Tónleikarnir annað kvöld hefjast klukkan átta, og þar leikur Véronique Le Guen verk eftir Félix Alexandre Guilmant, César Franck, Duruflé, Joseph Guy Marie Ropartz og Alain.