Við ríðum á baki kameldýranna  undir sterkri sólinni og reynum eftir bestu getu að halda okkur á baki þegar þau teygja langan hálsinn í átt að trjágreinum til þess að freista þess að ná nokkrum laufum í kjaftinn.
Við ríðum á baki kameldýranna undir sterkri sólinni og reynum eftir bestu getu að halda okkur á baki þegar þau teygja langan hálsinn í átt að trjágreinum til þess að freista þess að ná nokkrum laufum í kjaftinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við erum búin að keyra í marga klukkutíma eftir sama holótta veginum sem á að enda í þorpinu Maralal í Norðanverðu Kenýa.

Við erum búin að keyra í marga klukkutíma eftir sama holótta veginum sem á að enda í þorpinu Maralal í Norðanverðu Kenýa. Það fer bráðum að rökkva og við erum afskaplega fegin að sjá þorpið nálgast því ekki er gott að vera ferðalangur í þessu þurra landi eftir myrkur. Við myndum eiga afskaplega erfitt með að bjarga okkur ef eitthvað færi úrskeiðis og við yrðum strandaglópar á svæðinu. En við komumst örugg í höfn og hittum þar fyrir mennina sem ætla að ferðast með okkur á úlföldum næstu daga.

Það er kallað á Samburu-stríðsmanninn Idi Lewarani og hann kemur út um dyr á afgirtu svæði. Hann er nýbúinn að þurrka sér um hendurnar en samt eru þær útataðar blóði. Við erum ekki vön að sjá menn með blóðugar hendur en þegar betur er að gáð á ekkert glæpsamlegt athæfi sér stað, heldur var hann að slátra geit í kvöldmatinn. Idi er stríðsmaður, af Samburu-ættflokki og það eru félagar hans líka, Ernest, Balance, Palias og Tobiah sem ætla að fara með okkur út í óvissuna í fyrramálið. Þeir eru flestir fagurlega skreyttir með marglitum perlum um höfuð, háls, og þvert yfir búkinn. Þessa stundina eru þeir það framandlegasta sem við höfum séð og við getum ekki beðið eftir að njóta leiðsagnar þeirra um þeirra eigið heimaland.

Penar hálsfestar og buxur eru tíðindi

Við sólarupprás vöknum við og hoppum á bak úlföldunum og höldum út í runnana þar sem villidýrin ganga laus, í fylgd fimm Samburu-stríðsmanna. Samburu-þjóðin er ein af fáum þjóðum sem eftir eru í heiminum sem enn ganga í hefðbundnum þjóðklæðum og skreyta sig samkvæmt gömlum hefðum. Buxur, peysur, jakkar eða skyrtur eru óþekkt með öllu á þessum slóðum, en hins vegar njóta skærlituð bómullarefni og rauð akrílteppi mikilla vinsælda. Í gær sáum við Samburu-fólk í fyrsta skipti og við störðum jafnmikið á það og það starði á okkur. Það eru ekki margir ferðamenn sem koma á þessar slóðir svo það eru ávallt tíðindi fyrir heimamenn að sjá konur og karla með enga eyrnalokka, penar hálsfestar og í buxum.

Tungumálaörðugleikar koma helst í veg fyrir samskipti okkar við þetta forvitnilega fólk. Við tölum ensku og smáhrafl í swahili en móðurmál þeirra er maa auk þess sem sumir tala swahili. Við erum þó svo heppin að hinn bráðsnjalli Idi talar mjög góða ensku. Hvar lærðir þú ensku, Idi? "Bara svona, með því að tala við ferðamenn eins og ykkur, sem koma með mér í úlfaldaferðir." Nú, hún er svo fín að við héldum að þú hefðir lært hana í skóla? "Nei!" segir hann ákveðið: "Við Samburu-fólkið göngum ekki í skóla. Við erum hirðingjar og flytjum oft og höfum því hvorki tíma né þörf fyrir að ganga í skóla." En lærið þið að lesa eða skrifa? Spyrjum við forvitin: "Nei, í okkar huga er ekki mikilvægt að kunna að lesa, hvað þá að skrifa. En það er mjög mikilvægt að geta talað og að geta sagt frá. Samfélag okkar byggist á því," upplýsir hann okkur um.

Útilega án kæliboxa

Þetta finnst okkur Íslendingunum skrýtið, sem búum við 99% læsi, því er að minnsta kosti alltaf haldið fram í ferðamannabæklingum. Við erum greinilega komin í allt annan heim þar sem aðrar reglur og önnur forgangsröðun gildir. Við ríðum áfram og reynum eftir bestu getu að halda okkur á baki úlfaldanna þegar þeir teygja langan hálsinn í átt að trjágreinum til þess að freista þess að ná nokkrum laufum í kjaftinn. Við ríðum einnig framhjá hjörðum af sebrahestum, antílópum og villisvínum. Eftir nokkra tíma erum við komin í náttstað í fallegu rjóðri þar sem úlföldunum er sleppt lausum til beitar og Idi og félagar hefja undirbúning fyrir kvöldmatinn.

Þetta er ekki eins og þegar við förum í útilegur í Þórsmörk eða Hallormsstaðaskóg. Hér er hvorki kælibox með í för, né gos og snakk. Þetta er útilega í anda Samburu-stríðsmanna: "moranis" eins og þeir eru kallaðir á þeirra tungumáli, og við gerum eins og þeir. Idi og félagar hans eru allir stríðsmenn og gegna mikilvægu hlutverki í samfélagi Samburu-þjóðarinnar. Þeir eru karlmennskan uppmáluð. Þegar drengir eru um fimmtán ára aldur eru þeir umskornir og vígðir inn í hóp stríðsmanna sem gæta auðæfa fjölskyldunnar: búfénaðarins. Næstu fimmtán árin munu þeir því lifa ásamt öðrum drengjum á svipuðum aldri í skóginum, þar sem þeir veiða sér til matar, sitja yfir snarkandi eldi á kvöldin og grilla veiði dagsins á meðan þeir segja hetjusögur af sjálfum sér og öðrum merkilegri mönnum. Þessi tími er sá mikilvægasti í lífi hvers Samburu karlmanns og eldri menn ræða oft um hann sín á milli - fullir eftirsjár að sá tími lífs þeirra skuli vera liðinn.

Undarleg hljóð fyrir ungar stúlkur

Á meðan Idi og félagar grilla lærið af geitinni sem þeir slátruðu í gær, svarar hann fleiri spurningum um líf Samburu fólksins. Við byrjum á að kanna hjúskaparstöðu manna sem þeirra: "Nei við erum ekki giftir, en við erum flestir búnir að bóka okkur framtíðar eiginkonur. Eftir um það bil tvö ár mun tíma okkar sem stríðsmanna ljúka og við verðum vígðir inn í hóp fullþroska karlmanna. Foreldrar okkar velja eiginkonurnar en við staðfestum bókunina með því að gefa henni perlufestar. Með því móti sýnum við vilja okkar í verki og gefum henni nýja skartgripi alltaf þegar við höfum fjárráð til," segir Idi. En kvennamálin eru ekki svo einföld því ungu mennirnir eiga kærustur á meðan þeir eru stríðsmenn. "Við hittum þær á laun með því að gefa frá okkur ákveðin hljóð sem þær renna á," segir Idi og það heyrist tísta í hinum skreytta Ernest við tilhugsunina.

Hvernig hljóð gefið þið frá ykkur? Ernest gefur okkur sýnishorn af því hvernig ungir Samburu menn bera sig að við að lokka kærustuna sína til sín. Hvernig er hægt að lýsa þessum hljóðum? Hann myndar þau í hálsinum og þau hljóma eins og hljóð úr stórum fugli, eða manni sem hummar hátt og óreglulega.

Nú er maturinn alveg að verða tilbúinn. Lærin af geitinni eru orðin hæfilega grilluð á heimatilbúna grillinu sem strákarnir hafa útbúið úr greinum sem lágu á víð og dreif um skógarrjóðrið. Trjágrein með mörgum þyrnum var notuð sem grillgaffall og þjónuðu öll þessi náttúrulegu grilltæki hlutverki sínu prýðisvel. Með kjötinu buðu drengirnir upp á soðið spínat og "ugali" sem er soðið maísmjöl og bragðast eins og blanda af mauksoðnum grjónum og kartöflumús. Geitin og meðlætið brögðuðust mjög vel og okkur fannst við vera ægilega villt í slagtogi með þessum náttúrubörnum.

Eru ljón hérna?

Á meðan við sitjum og borðum höldum við áfram að spyrja út í aðstæðurnar: Eru ljón hérna eða önnur hættuleg dýr? Spyrjum við svolítið skelkuð því nú erum við umlukin myrkri með ekkert nema varðeldinn til að lýsa okkur, eitt lítið vasaljós og að sjálfsögðu mánann sem er næstum því fullur. "Jaaaa, þau eru nú ekki beinlínis á þessum slóðum. En maður veit aldrei," segir Idi. "Segðu söguna af því þegar þú drapst ljónið," segir Ernest og æsist allur upp við tilhugsunina. Við verðum líka öll spennt og tökum undir þessa beiðni.

"Einu sinni var ég með tvær konur í úlfaldaferð, þær voru japanskar grænmetisætur og dýraverndunarsinnar. Þær voru farnar að sofa og ég var að sofna við varðeldinn fyrir framan tjöldin. Síðan veit ég ekki fyrr en ég vakna við eitthvað þrusk, ég rís upp og geng í átt að runnanum, þaðan sem hljóðið kemur. Þá sé ég hvar risastórt ljón kemur æðandi á móti mér. Ég reif upp hnífinn minn og stakk það um leið og það réðst á mig. Það drapst og ég slapp með skrámur," segir Idi.

Vááááá. Við erum öll orðlaus af undrun og aðdáun. Þessi litli og granni maður drap ljón með hnífi. Hvað með konurnar, vöknuðu þær? "Nei," segir Idi. "En næsta dag þegar þær vöknuðu og við vorum komin aðeins af stað spurðu þær, eru ljón hérna? Ég sagði neeeiiii, ekki á þessum slóðum en aðeins lengra í suður!"

Ernest tístir af hlátri og við hlæjum líka. En á meðan Idi segir söguna, tökum við eftir því að hinir drengirnir þrír sem ekki skilja ensku, skiptast á að kippast við, snúa sér við og beina vasaljósinu út í runnana. Ætli þeir séu á varðbergi gagnvart ljónum? hugsum við. Eru þeir að leika sama leikinn með okkur? Við spyrjum Idi að hverju þeir séu að leita úti í myrkrinu. "Æji, þeir eru að leita að litlum öpum sem heita runnabörn...." Við verðum rólegri í svolitla stund en förum svo að hugsa: Það getur varla verið. Ætli þeir séu að fylgjast með ljónum eða hlébörðum? Snákum eða nashyrningum? Eða nautgripaþjófunum frá erkióvinum þeirra í Turkana ættbálknum? Okkur stendur ekki á sama... Höfum við gengið í opið gin ljónsins? Eru hætturnar meiri en við gerðum okkur grein fyrir? Eða eru þeir bara að gera sig stóra með þessum sögum? ... við vitum það ekki, og þó. Þeir eru svo ansi öruggir með sig, sjá vel í myrkrinu og eru svo vel vopnum búnir að við treystum þeim eiginlega fullkomnlega til að verja okkur fyrir hverju sem er. - Þeir eru allir með spjót, kylfu og hníf á sér en stríðsmaður án þessara vopna er líkt og nakinn maður í þeirra augum.

En þarna vorum við stödd í miðjum skóginum með þrautþjálfuðum stríðsmönnum sem myndu verja okkur fyrir hvers konar óargardýrum, þjófum og ræningjum, ef einhverjir væru. Við höllum okkur því róleg aftur við eldinn sem er hlýr og notalegur og hlýðum á fleiri sögur frá hinum mikla sögumanni Idi. Það eru greinilega fleiri en við sem kunnum að meta sögurnar hans því Ernest kann þær greinilega allar utan að og biður hann nú að segja söguna af flóttanum undan fílnum.

Veitt eftirför af skapvondum fíl

Idi segir okkur frá því að hann hafi lent í því einu sinni þegar hann var að veiða úti í skógi að hann hafi rekist á fíl sem starði á hann og virtist ætla að ráðast á hann. Hann reyndi að vera ekki fyrir fílnum sem þó lét hann ekki í friði. Að lokum tók hann til fótanna og fíllinn á eftir honum. Svo fór að Idi var á flótta undan fílnum í tólf tíma. Hann náði stundum að stoppa og fela sig en fíllinn fann hann alltaf aftur. Þegar hann komst loks undan var hann orðinn svo gersamlega örmagna og örvinglaður af hræðslu að hann kastaði upp. Í heila viku á eftir dreymdi hann svo sama drauminn: hann var eltur af fíl og á hverri nóttu vaknaði hann upp með andfælum.

Kvöldið líður áfram undir frábærum sögum hins frásagnarglaða Idi og dans og söng Ernest og Balance. Rétt áður en við borgarbörnin og hvítingjarnir líðum útaf við varðeldinn, skríðum við inn í tjöld sem þeir eru búnir að reisa fyrir okkur. Sjálfir sofa þeir við eldinn, vefja sig inn í teppin sem þeir ganga í á daginn og halla sér útaf. Þeir sofa þó laust og alltaf er einhver þeirra á vakt vegna villidýra og annarra óvæntra gesta.

Náttúrulegir tannburstar

Daginn eftir vöknum við við hláturinn í þeim félögum. Við skríðum úr tjöldunum og fáum náttúrulegann tannbursta, greinarbút af tréi sem inniheldur flúorefni. Við tyggjum greinina eins og við sjáum þá gera og burstum tennurnar með henni. Á leiðinni heim spyrjum við Idi út í tæknina sem hann notar til að sigra úlfaldakappreiðarnar. Hann sýnir okkur hvernig hann situr á dýrinu en hann vill lítið segja um leyndarmálin sem hann notar til að fá dýrin til að koma fyrst í mark eftir 42 kílómetra hlaup. Hann segir okkur að hann ætli að taka þátt aftur í sumar og stefni að því að verja titilinn. Fagurkerinn Ernest ætlar líka að taka þátt og hefur greinilega lært sitt lítið af hverju hjá Idi.

Dramatískur endir á æsispennandi kapphlaupi

Dramatískir atburðir áttu sér stað nú í ár og úrslit kappreiðanna fóru á annan veg en við og þeir vonuðust til. Idi var svo óheppinn að Cobra, úlfaldinn hans, hrasaði og datt í hlaupinu. Hann datt af baki og slasaðist lítillega við það að dýrið sparkaði í hann. Hann komst þó aftur á bak og lauk hlaupinu, en þar með var sigurinn genginn honum úr greipum. Hinn glysgjarni og hláturmildi Ernest hélt þó uppi heiðri hópsins með því að lenda í öðru sæti.

Þrátt fyrir vonbrigði á keppnisdeginum þá vitum við að atburðir af þessu tagi geta ekki haggað jafnaðargeði og lífssýn hins stolta Idi sem tekur lífinu með stakri ró. Atburðarrásin getur þó hafa orðið til þess að hann muni endurskoða samband sitt við úlfaldann Cobra sem brást honum svo illilega á ögurstundu.