Í fyrradag fór úrvalsvísitalan niður fyrir 1000 stig og hefur ekki verið lægri í þrjú og hálft ár. Það er til marks um þá gífurlegu breytingu, sem orðið hefur í viðskiptalífinu, að vísitalan fór hæst í 1888 stig í febrúar árið 2000.

Í fyrradag fór úrvalsvísitalan niður fyrir 1000 stig og hefur ekki verið lægri í þrjú og hálft ár. Það er til marks um þá gífurlegu breytingu, sem orðið hefur í viðskiptalífinu, að vísitalan fór hæst í 1888 stig í febrúar árið 2000. Það gefur augaleið að þessi mikla lækkun á verði hlutabréfa hefur mikil áhrif og skapar margvíslega erfiðleika.

Undanfarna daga og vikur hafa fyrirtæki, sem skráð eru á verðbréfaþingi, sent frá sér uppgjör fyrir fyrstu sex mánuði þessa árs. Engum, sem til þekkir í atvinnulífinu, kemur á óvart að sjá þau miklu umskipti, sem orðið hafa í rekstri fyrirtækjanna. Hins vegar virðast forráðamenn Seðlabankans ekki átta sig á hvað í þeim felst en það er önnur saga.

Hvert á fætur öðru tilkynna fyrirtækin stórtap á rekstri sínum fyrri hluta ársins. Afkoma ríkisbankanna tveggja er mjög slök. Þótt forráðamenn þeirra undirstriki góða afkomu af venjulegri bankastarfsemi vekja áföll, sem þeir verða fyrir vegna hlutabréfaeignar, spurningar um það viðskiptamat, sem liggur að baki fjárfestingum þeirra í einstökum atvinnufyrirtækjum. Ekki sízt í ljósi mjög góðrar afkomu jafn ólíkra fjármálafyrirtækja og Íslandsbanka og Sparisjóðs vélstjóra.

Afkomutölur fyrirtækja í tölvu- og upplýsingageiranum benda til mikils samdráttar í þeirri grein, raunar svo mjög að áhyggjum hlýtur að valda. Hins vegar er ljóst, að lækkun á gengi krónunnar hefur hleypt nýju lífi í sjávarútvegsfyrirtækin, þótt þau geri mörg hver upp með miklu tapi vegna gengistaps.

Uppgjör fyrirtækjanna á Verðbréfaþingi eru ótrúlega misjöfn að því leyti til að sum þeirra gefa fjárfestum færi á heildarsýn yfir málefni þeirra en önnur virðast gefa eins takmarkaðar upplýsingar og kostur er.

Það er tímabært að herða kröfur til fyrirtækjanna um upplýsingagjöf. Það er t.d. mikill munur á þeim upplýsingum, sem Fjárfestingarfélagið Straumur gefur um hlutabréfaeign sína, sem er til fyrirmyndar, og Eignarhaldsfélag Alþýðubankans, þar sem upplýsingar um ýmislegt varðandi hlutabréfaeign mættu vera ítarlegri svo að dæmi sé tekið.

Hluthafar, bæði smáir og stórir, svo og væntanlegir fjárfestar eiga skilyrðislausan rétt á að hafa allar sömu upplýsingar undir höndum og stjórnendur og stærri hluthafar. Á þetta skortir og tímabært að gera miklu ákveðnari kröfur í þessum efnum.

Auk þeirra almennu röksemda, sem liggja til grundvallar þessum sjónarmiðum, er líka brýnt að almennir hluthafar hafi þær upplýsingar undir höndum, sem geri þeim kleift að meta, hvort stærri hluthafar eru á einn eða annan veg að nýta sér aðstöðu sína til hagnaðar umfram aðra hluthafa eða á kostnað annarra hluthafa, en dæmi um slíkt hafa verið áberandi í umræðum um opin hlutafélög t.d. á Ítalíu á undanförnum vikum og mánuðum.

Verðbréfaþing ætti að vera í forystu fyrir þeim, sem gera kröfu um mun ítarlegri upplýsingar en nú eru veittar um rekstur félaga, sem skráð eru á opnum markaði. En hver er aðstaða þess til slíkrar kröfugerðar í ljósi aðildar þessara sömu fyrirtækja að þinginu og í sumum tilvikum að stjórn þess?

Það fer eftir aðgangi hluthafa og fjárfesta að upplýsingum, hvort hlutabréfamarkaðurinn hér geti talizt til þeirra sem eru til fyrirmyndar eða hinna, þar sem lögmál frumskógarins ríkir enn. Við Íslendingar eigum að líta á það sem metnaðarmál að teljast í hópi hinna fyrrnefndu en við höfum ekki náð því marki enn.