Við upphaf ferðar við Hótel Óðinsvé. F.v. William E. Baker, yfirmaður almannatengsla Land Rover í Norður-Ameríku, Gísli Guðmundsson, forstjóri B&L, og Bob Dover, stjórnarformaður og aðalframkvæmdastjóri Land Rover í Englandi.
Við upphaf ferðar við Hótel Óðinsvé. F.v. William E. Baker, yfirmaður almannatengsla Land Rover í Norður-Ameríku, Gísli Guðmundsson, forstjóri B&L, og Bob Dover, stjórnarformaður og aðalframkvæmdastjóri Land Rover í Englandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Land Rover stóð fyrir fjölmiðlakynningu og reynsluakstri á Land Rover Freelander V6 hérlendis fyrr í vikunni fyrir bandaríska og kanadíska blaðamenn. Guðjón Guðmundsson slóst með í för og ræddi við Bob Dover, stjórnarformann Land Rover.

LAND Rover hefur ekki selt Freelander í Bandaríkjunum eða Kanada, en nú þegar bíllinn er orðinn fáanlegur með V6 vél og með sjálfskiptingu hefur fyrirtækið trú á því að markaður opnist vestanhafs. Bíllinn verður settur á markað þar í september og gera áætlanir Land Rover ráð fyrir sölu á 20 þúsund bílum á ári.

"Við fengum hingað til Íslands nokkra af áhrifamestu bandarísku blaðamönnunum á þessu sviði. Hér eru blaðamenn sem skrifa fyrir Automobile, Car and Driver, Road & Track en efni þeirra berst einnig til stórra dagblaða eins og New York Times, Washington Post og fleiri. Við gerðum lista yfir helstu blaðamennina á þessu sviði og við fengum þá alla til landsins, sem er fremur fátítt að gerist við kynningar sem þessar. Við sýnum þeim markverða staði á Íslandi, sem þeir standa flestir agndofa frammi fyrir, enda fæstir áður komið hingað, og leyfum þeim að prófa Freelander á svæðum sem henta fullkomlega til þess," segir Dover.

Samtals komu hingað um 50 blaðamenn og var farið í tveimur hópum í lengri og styttri reynsluakstursferðir. Ein leiðin lá um Hvalfjörðinn vestur í Reykholt og þaðan í Kaldadal og upp á Langjökul. Kuldalegt og gróðursnautt landslagið hafði greinilega áhrif á menn, og varð Glenn Hutchinson, lausráðnum ljósmyndara frá New York á orði, að ef það væri markaður fyrir grjót gæti maður orðið vellauðugur á þessum slóðum. Það var greinilegt að blaðamönnum þótti einnig mikið til um að aka á jökli og ekki varð undrunin minni þegar þeirra beið veisluborð úti undir berum himni á miðjum Langjökli sem svignaði undan kræsingum.

Staðurinn hæfir merkinu vel

Aðspurður hvort til standi að efna til fleiri bílakynninga hér á landi segir Dover að erfitt verði hér eftir að halda Land Rover fjarri landinu. "Staðurinn hæfir mjög vel Land Rover-merkinu. Eini ókosturinn er dýrtíðin hér á landi. En Ísland er tilvalið til kynninga fyrir Norður-Ameríkumarkað því landfræðileg lega þess hentar einstaklega vel; mitt á milli Evrópu og Bandaríkjanna og tímamunur er lítill. Landsvæðið er afar fallegt og maturinn gómsætur. Það er aðeins kostnaðurinn sem mælir gegn því að efna til kynninga hér. En persónulega er ég afar hlynntur frekari kynningum hérlendis," segir Dover.

Á síðasta ári seldi Land Rover 27 þúsund bíla í Norður-Ameríku. Dover bendir á að Freelander sé fyrsti bíll Land Rover í Norður-Ameríku sem er innan kaupgetu alls almennings. Fram til þessa hefur salan nánast einvörðungu verið í Range Rover og Land Rover Discovery.

Íslandsblámi

Á leiðinni ofan af jökli og til Reykjavíkur þáði blaðamaður Morgunblaðsins far með William E. Baker, yfirmanni almannatengsla hjá Land Rover í Norður-Ameríku. Farkosturinn var að sjálfsögðu Freelander V6 og liturinn var blár, Icelandic Blue, eins og hann heitir. Baker sagði að Land Rover væri lúxusmerki og því eðlilegt að bíllinn væri lítið eitt dýrari en bílar í svipuðum flokki. Mikil áhersla er lögð á að rækta samband Land Rover eigenda við merkið og í þeim tilgangi efnir Land Rover á hverju ári til svokallaðs Land Rover Adventure, sem haldið er víða um heim. Baker sagði að til stæði að njóta gestrisni Íslendinga og koma með hóp hingað, enda væri hér margt að sækja sem ekki væri annars staðar að finna.