Þorvaldur Skaftason í stafni Húna II.
Þorvaldur Skaftason í stafni Húna II.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞORVALDUR Skaftason hefur lagt allt sitt undir til að gera upp stærsta eikarbát landsins, Húna II HU-2, sem hann bjargaði frá eyðileggingu fyrir sex árum.

ÞORVALDUR Skaftason hefur lagt allt sitt undir til að gera upp stærsta eikarbát landsins, Húna II HU-2, sem hann bjargaði frá eyðileggingu fyrir sex árum. Skipið, sem er 130 tonn, var smíðað árið 1963 hjá KEA á Akureyri og var það Björn Pálsson þingmaður sem lét smíða skipið, en hann rak útgerð til margra ára. Skipið var einnig gert út frá Hornafirði í rúmlega 20 ár.

Þorvaldur keypti Húna II árið 1995 og stóð þá til að bátnum yrði fargað, en samkvæmt þágildandi lögum um 0stjórn fiskveiða bar að farga öllum skipum sem höfðu verið úrelt. Hann segir að upphaflega hafi hann viljað koma í veg fyrir að báturinn yrði skemmdur. "Ég sá alveg hvað var að gerast hjá okkur. Við vorum að eyðileggja öll þessi menningarverðmæti. Ég var búinn að vera sjómaður allt mitt líf og gat bara ekki hugsað til þess að þessi bátur yrði látinn hverfa og allir sem sjá hann í dag skilja af hverju. Þessir KEA-bátar bera af því þeir eru svo fallegir og vandaðir," segir hann.

Báturinn var í mjög slæmu ásigkomulagi þegar Þorvaldur eignaðist hann árið 1995 og segir hann að eigendurnir hafi verið dauðfegnir að hann vildi fá bátinn þar sem það hefði kostað 2 milljónir króna að eyða honum. Þorvaldur vann í heilt ár við að gera bátinn upp og hefur hann lagt alls 20 milljónir króna í að standsetja hann. Hann var áður trillusjómaður á Skagaströnd og hefur selt bæði trilluna og hús sitt þar til að standa straum af kostnaði við endurbæturnar.

Dreymir um að opna veitingastað og safn í bátnum

Þorvaldur segist hafa þurft að standa í stappi við kerfið í tvö ár til að fá bátinn aftur á skrá og fá undanþágu frá því að bátnum yrði fargað. Hann segist alltaf hafa búist við að fá styrki og aðstoð frá stjórnvöldum við að varðveita bátinn, en honum finnst hann ekki hafa mætt skilningi. "Við erum alltaf að reyna að berjast fyrir því að fá einhverja styrki í þetta og það hefur vægast sagt ekki gengið vel," segir Þorvaldur. "Ég á margar góðar sögur um það hvenig hefur verði lokað á mig dyrum þegar ég hef verið að leita eftir aðstoð."

Hann segir að hann dreymi um að opna veitingastað í bátnum síðar meir þar sem einnig yrði sjóminjasafn og hefur Þorvaldur komið upp vísi að sjóminjasafni í lest bátsins. Síðastliðin fjögur ár hefur Húni II verið notaður í hvalaskoðun og sjóstangaveiði frá Hafnarfirði með ferðamenn. "Mér finnst að hann eigi ekki að vera í þessu, hann ætti að vera varðveittur og ekki í neinni hættu," segir Þorvaldur. Hann segir að framtíð Húna II í Hafnarfirði sé enn óráðin, en að hann sé nú í viðræðum við bæjaryfirvöld um hvort þau séu tilbúin að aðstoða hann við að koma þar safni á fót.