Á  Champs-Elysée í París.   Á þeim slóðum er fjöldi veitingastaða.
Á Champs-Elysée í París. Á þeim slóðum er fjöldi veitingastaða.
Veitingastaðir og kaffihús skipa stóran sess í lífi Frakka. Sif Arnarsdóttir átti erindi til Parísar á dögunum og rakst á nokkur mjög skemmtileg veitingahús í miðborginni.

Í LATÍNUHVERFINU skammt frá Notre Dame er Aux Trois Mailletz, staður sem er vel þess virði að heimsækja hvort sem maður vill fara út að borða, fá sér drykk eða hlusta á lifandi tónlist. Staðurinn er opinn frá fimm í eftirmiðdaginn og hefur opið lengi ef stemmningin er góð. Þjónarnir segja að það sé jafnvel opið til 8:00 alla morgna vikunnar. Maturinn kostar um 70-100 franka en ekki er nauðsynlegt að snæða heldur er jafnvel nóg að fá sér drykk og virða fyrir sér gesti staðarins. Við píanóið á efri hæðinni settust menn gjarnan og spiluðu og sungu á meðan aðrir voru að tefla. Margir virtust fastagestir því þeir þekktust flestir en niðri í kjallara var annars konar stemmning. Þar var lítill salur með borðum og sviði þar sem hljómsveit spilaði. Fjölmargir söngvarar tóku lagið þetta kvöld og mátti t.d. heyra franska og rússneska þjóðlagatónlist. Síðar um nóttina steig frábær jazzsöngvari á sviðið og á endanum var farið að spila marokkóska tónlist og magadansmær kom sér fyrir á langborði sem náði þvert yfir salinn, tók hún fólk með sér í dansinn, bæði pör og virðulega menn í jakkafötum. Salurinn tekur aðeins um 50 manns en engu að síður var mikið fjör langt fram eftir nóttu.

Dæmigerður franskur staður

Í hinum enda hverfisins er dæmigerður franskur veitingastaður, sem var víst stofnaður um 1845, Crémerie Restaurant Polidor.

Á matseðlinum eru aðallega kjötréttir, þó er hægt að fá nokkra fiskrétti en enga grænmetisrétti, reyndar er hægt að fá salat, lax og snigla í forrétt. Borðin standa þétt og fólk er jafnvel látið sitja með öðrum á borði. Það eru litríkar flísar á gólfunum, myndir málaðar beint á veggina og köflóttir plastdúkar á borðum. Þjónustustúlkurnar sem voru á öllum aldri voru á sífelldum hlaupum inn og út úr eldhúsinu með matarslettur á svuntunum. Eftirréttirnir eru mjög girnilegir, heimabakaðar kökur og heimalagaður ís. Ef maður er ekki mikið fyrir kjötrétti er upplagt að kíkja á La Verte Tige sem er lítill veitingastaður í þröngri götu nálægt Picassosafninu. Innréttingarnar er mjög einfaldar og greinilega meira lagt upp úr eldamennskunni. Það eru hjón frá Íran sem eiga og reka staðinn og hér er hægt að fá cous-cous, tofu og salöt ásamt forréttum og eftirréttum.

Ekki svo langt frá í Marais hverfinu er Le Loir dans La Theíére. Þetta er frekar lítið en mjög vinalegt kaffihús sem minnir dálítið á flóamarkað þar sem öll húsgögnin og reyndar fólkið líka virðast koma hvert úr sinni áttinni, það eru gömul plaköt á veggjum og uppi á hillu eru gamlir barnavagnar og mjólkurbrúsar. Hér er hægt að fá sér salat og fleira létt yfir daginn en þegar maður rekur augun í kökurnar þeirra er maður fljótur að hætta við heilsufæðið. Ofan á gamalli kommóðu má t.d. sjá peru-, súkkulaði- og marengskökur sem eru bakaðar á staðnum og jafnvel bornar fram glóðvolgar og satt að segja bráðna upp í manni.

Út frá Rue du Temple sem einnig er í Marais, er hægt að ganga inn í lítð port þar sem eru dansskólar og einnig The Studio sem er kaffihús sem býður aðallega upp á mexíkóskan mat og drykki. Á sumrin þegar heitt er í veðri eru borð úti og maður getur setið og fylgst með fólki æfa steppdans, salsa, ballett o.fl. eða þá bara hlustað á tónlistina sem berst frá dansskólanum því yfirleitt eru allir gluggar galopnir.

Höfundur er nemi.