Sigurður Gústafsson
Sigurður Gústafsson
ÍSLENSKI arkitektinn og hönnuðurinn Sigurður Gústafsson hefur hlotið hin sænsku Bruno Mathsson-verðlaun fyrir húsgagnahönnun sína.

ÍSLENSKI arkitektinn og hönnuðurinn Sigurður Gústafsson hefur hlotið hin sænsku Bruno Mathsson-verðlaun fyrir húsgagnahönnun sína. Er þetta í fyrsta skipti sem Íslendingur hlýtur verðlaunin, en að sögn dómnefndar féllu verðlaunin honum í hlut fyrir húsgögn, "sem stöðugt bjóða upp á óvænta samsetningu hins formfasta og hins gáskafulla og órökræna." Hefur Sigurður við hönnun sína leitað fanga innan hugmyndafræði módernismans og útfært á sinn persónulegan hátt. Sigurður nam arkitektúr og hönnun í Danmörku og Noregi á árunum 1983-1990 og rekur nú sína eigin arkitektastofu. Meðal þeirra muna sem hann hefur hannað má nefna stólana Tangó, Keflavík og ruggustólinn Rock'n Roll, en Sigurður kveðst við vinnu sína gjarnan leita hugmynda á æskuslóðum sínum í sjávarþorpi á Norðurlandi.

Verðlaunin nema 100.000 sænskum krónum, eða um 960.000 íslenskum krónum.