Ísland Vildarklúbbur Flugleiða semur við Marriott-hótelin Nýr samningur Vildarklúbbs Flugleiða við Marriott-hótelin gerir félögum nú kleift að nota punktana sína fyrir gistingu á hótelunum.

Ísland

Vildarklúbbur Flugleiða semur við Marriott-hótelin

Nýr samningur Vildarklúbbs Flugleiða við Marriott-hótelin gerir félögum nú kleift að nota punktana sína fyrir gistingu á hótelunum. Marriott-hótelin má finna í Evrópu, í Mið-Austurlöndum, Norður-Ameríku, Kanada og Mexíkó. Í keðjunni eru alls yfir 2000 hótel í 59 löndum. Upplýsingar um hótelin má fá á www.marriott.com .

Hagstæð fargjöld með America West

Flugleiðir, í samstarfi við America West flugfélagið, bjóða upp á hagstæð fargjöld innan Bandaríkjanna. Þá er flogið frá Íslandi til Baltimore, Boston eða Minneapolis með Flugleiðum og áfram innanlands með America West. Þær borgir sem standa til boða eru meðal annars Las Vegas, San Fransisco og Los Angeles.

Írland

Golf í Dublin í október

Áhugamenn um golf ættu að hafa í huga ferð Samvinnuferða-Landsýnar til Dublin 11. til 15. október. Fararstjóri Kjartan L. Pálsson.

Gist verður á golfhótelinu Citywest þar sem golfaðstaða er til fyrirmyndar.

Bandaríkin

Endurreisnarhátíð í Maryland

Allsérstæð hátíð verður haldin í borginni Crownsville í Maryland-fylki frá ágústlokum út október. Þema hátíðarinnar er endurreisnin og verður horfið aftur til 17. aldarinnar í hátíð svipaðri breskum hátíðum þess tíma. Í boði verða ýmis skemmtiatriði, tíu svið með dagskrá, yfir 150 verkstæði í endurreisnarstíl, að ógleymdum burtreiðum.

Upplýsingar má fá í síma 001 410 266 7304 eða á www.rennfest.com .