Veðmálið tekið við Malibuströndina: Arnar Þór stendur við vélina, Priscilla Lee er í appelsínulitum bol, Ryan McTavish við hlið hennar, Chris Devlin á milli þeirra og Helena Einarsdóttir t.h. í bleikum bol.
Veðmálið tekið við Malibuströndina: Arnar Þór stendur við vélina, Priscilla Lee er í appelsínulitum bol, Ryan McTavish við hlið hennar, Chris Devlin á milli þeirra og Helena Einarsdóttir t.h. í bleikum bol.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tökum á Veðmálinu, "fyrstu íslensku Hollywood-myndinni", er lokið vestra. Sigurbjörn Aðalsteinsson, handritshöfundur og leikstjóri, líkir reynslunni, í samtali við Árna Þórarinsson, við þriggja vikna úthald á Flæmska hattinum.

ÞETTA gekk allt mjög vel," segir Sigurbjörn, "og myndin er á áætlun. Tökutíminn var 22 dagar, þar af tveir frídagar, og unnið að meðaltali 13-15 tíma á dag. Við unnum á þremur vikum það sem að jafnaði tekur sex vikur. Mér leið eins og í samfelldu veiðiúthaldi á Flæmska hattinum. Allan tímann varð maður að komast hjá því að slaka á gæðakröfunum innan þess fjárhags- og tímaramma, sem við höfðum. Um leið og ég náði góðri töku hætti ég. Leikarar vilja alltaf eina töku í viðbót en ég vildi komast hjá því, ef mögulegt væri, að láta fólkið vinna 15 tíma á hverjum degi. Ég varð að reyna að finna rétta jafnvægið þarna á milli. En ég hef nú séð stóran hluta af myndefninu og líst mjög vel á. Þegar upp er staðið erum við að gera bíómynd sem verður vitnisburður um okkur, sem að henni stóðum. Áhorfendur munu ekki spyrja um hversu mikill tími fór í að gera myndina; þeir ætlast bara til þess að hún sé góð. Ég hef ástæðu til að ætla að okkur takist að gera hana þannig."

Burt Young "hló af sér rassinn"

Veðmálið, eða "The Wager", er gamansöm og rómantísk lýsing á kvikmyndabrölti í draumaverksmiðjunni og er leikin á ensku. Flestir starfsmanna bakvið tökuvélina eru Íslendingar, en leikararnir eru bandarískir, að frátöldum Kristínu Gísladóttur og Helenu Einarsdóttur. Kristín fer með aðalkvenhlutverkið auk þess að framleiða myndina og annast leikaraval. Aðalkarlhlutverkið leikur Chris Devlin en í öðrum stórum hlutverkum eru þekktir sjónvarpsleikarar vestra, Larry Hankin (leiðinlegi nágranninn í Friends), Dian Bachar (Two Guys and a Girl) og Priscilla Lee Tailor (Malibu, CA). Þá fer hinn þekkti óskarsútnefndi leikari Burt Young (Chinatown, Rocky o.m.fl.) með hlutverk í myndinni. Sigurbjörn hafði ekki áður leikstýrt enskumælandi leikurum en segir það hafa gengið vel. Kvíðnastur hafi hann verið fyrir að leikstýra Burt Young. "Ég hef borið ómælda virðingu fyrir honum síðan ég sá hann fyrst í "Once Upon a Time in America" fyrir 20 árum eða svo. Fáir höfðu trú á að við gætum fengið slíkan leikara miðað við þau fjárráð sem við höfðum en myndin var tekin fyrir 12 milljónir íslenskra króna. Kristín hafði staðið í stífu samningaþófi við umboðsmenn hans og lengi var tvísýnt um hvort gengi saman. Vegna þess hve lengi ég hef þekkt til verka hans og finnst mikið til hans koma kveið ég hálfpartinn fyrir að eiga að leikstýra honum, en svo mætti hann, yndislegur og rólegur maður, sem byrjaði á að segja að hann hefði tekið að sér hlutverkið vegna þess hve honum hefði litist vel á handritið mitt; hann hefði hlegið af sér rassinn, eins og hann orðaði það. Honum fannst svo gaman að vera með okkur að hann frestaði ferð sinni heim til New York og við tókum spunaatriði með honum sem ekki eru í handriti, þannig að hlutverk hans verður á endanum stærra en gert var ráð fyrir."

Eftirvinnsla hafin

Kvikmyndatökumaður Veðmálsins var Arnar Þór Þórisson, sem nú er byrjaður að taka heimildarmynd fyrir breska leikstjórann Michael Apted. Hljóðupptöku annaðist Carlos Solis en hljóðsetning verður í Bíóhljóði í Reykjavík. Leikmynd gerði Hálfdán Pedersen og búninga Ragnheiður Katla Geirsdóttir. Guðrún Ágústa Einarsdóttir er þegar tekin til við klippinguna og Atli Örvarsson mun semja tónlistina eftir því sem henni vinnst klippingin. Meðframleiðendur Prophecy Pictures þeirra Kristínar og Sigurbjörns eru Friðrik Þór Friðriksson og Íslenska kvikmyndasamsteypan og norska fyrirtækið Nordic Screen.

Prophecy Pictures hefur sett upp vefsíðu fyrir Veðmálið og er hún á slóðinni www.prophecypictures.com. Frumsýning verður á næsta ári.