Veðmálið: Burt Young í upphafsatriði myndarinnar ásamt Kristínu Gísladóttur.
Veðmálið: Burt Young í upphafsatriði myndarinnar ásamt Kristínu Gísladóttur.
Bandaríski leikarinn Burt Young er þekktastur þeirra leikara sem koma fram í Veðmálinu. Young, sem var óskarstilnefndur fyrir leik sinn í Rocky, á fjölskrúðugan feril að baki, skrifar Árni Þórarinsson.

BÚLDULEITUR, lágvaxinn og þykkur - Burt Young virðist geta leikið jafnt harðsvíraða mafíósa og rudda, sem viðkvæmnislega alþýðumenn, eins og hinn uppstökka mág Sylvesters Stallone í Rocky, en frammistaða hans í fyrstu myndinni um hnefaleikahetjuna færði honum óskarstilnefningu; þátttaka hans í Rocky-myndunum fimm gerði honum fjárhagslega kleift að sinna skriftum, leikstjórn og leikhúsvinnu, sem hann hefur mikinn áhuga á. Fyrsta handrit hans, sem varð að bíómynd, Uncle Joe Shannon (1978), var reyndar skellur; þar lék Young aðalhlutverkið, trompetleikara sem ekki á sérlegri velgengni að fagna.

Yfirleitt leikur Burt Young þó ekki aðalhlutverk. Hann er einn af þessum traustu aukaleikurum, sem jafnan stela tjaldinu þegar þeir birtast á því. Young hefur yfir sér hæglætisyfirbragð bifvélavirkja í New York; svitalykt og smurning eru einhvern veginn partur af sviðsáru hans. Hann þekkir alþýðustörf af eigin raun og var um hríð sjóliði, bakari, teppalagningamaður, vörubílstjóri og hnefaleikari.

Young er reyndar fæddur í New York árið 1940, sonur ítalskra innflytjenda í Queenshverfinu, og býr enn í borginni, þar sem hann á veitingastað í Bronx. Hann er menntaður leikhúsleikari úr sögufrægum skóla Lee Strasbergs The Actor's Studio. Fyrstu hlutverk hans voru í leikhúsunum á Off Broadway en fyrst birtist hann á hvíta tjaldinu árið 1971 í The Gang that Couldn´t Shoot Straight. Hann er minnisstæður úr fjölmörgum myndum, ekki síst frá 8. áratugnum: The Killer Elite, The Choirboys, Serpico, Rocky, Once Upon a Time in America, Pope Of Greenwich Village. Flestir minnast hans sérstaklega í hlutverki Curlys hins kokkálaða sem ráðið hefur JJ Gittes (Jack Nicholson) til að elta eiginkonu sína í upphafi Chinatown (þar sem Nicholson segir við hann hinar fleygu setningar: "You´re right. When you´re right, you´re right, and you´re right.") og reynist honum hjálparhella í seinni hluta þessarar sígildu sakamálamyndar. Í seinni tíð vakti hann t.d. athygli í Betsy´s Wedding (1990), Excessive Force (1993) og Mickey Blue Eyes (1999).

Young hefur leikið í að meðaltali þremur myndum á ári til dagsins í dag, allt að 90 stykkjum, auk þess sem hann lék aðalhlutverkið í skammlífri sjónvarpssyrpu, grínþáttunum Roomies (1987). Hann lék eftirtektarvert gestahlutverk (Bobby "Bacala" Baccalieri) í mafíuþáttunum vinsælu The Sopranos. Enn er hann atkvæðamikill í leikhúsum, ekki síst í New York og lék þar nýlega í Rats undir stjórn Als Pacino og Cuba and His Teddy Bear á móti Robert De Niro og ekki er langt síðan hann samdi, leikstýrði og lék aðalhlutverkið í óháðri smámynd, sem heitir Murder On Mott Street. Hann hefur einnig samið 400 síðna pólitíska skáldsögu sem heitir Endings. Burt Young er fjölhæfari listamaður en hann lítur út fyrir að vera.