SMÁJEPPAR og jepplingar fyrir Bandaríkjamarkað, sem voru árekstrarprófaðir af IIHS í Bandaríkjunum, (Insurance Institute of Highway Safety), komu almennt ekki vel út úr prófuninni.

SMÁJEPPAR og jepplingar fyrir Bandaríkjamarkað, sem voru árekstrarprófaðir af IIHS í Bandaríkjunum, (Insurance Institute of Highway Safety), komu almennt ekki vel út úr prófuninni. IIHS er stofnun sambærileg við Euro NCAP, sem reglulega gerir árekstrarpróf í Evrópu. Rannsóknin var gerð með þeim hætti að sex gerðum bíla frá framleiðendum í Asíu var ekið á fyrirstöðu á um 65 km hraða. Leiddi prófunin í ljós alvarlega galla á bílunum hvað snerti öryggi bílstjóra. Öruggasti bíllinn reyndist vera Hyundai Santa Fe, en Kia Sportage og Honda CR-V komu verst út úr prófuninni og fengu einungis umsögnina "gjaldgengir".

Í Kia-bílnum héldu bílbeltin prófunarbrúðunni ekki nægilega í skorðum með þeim afleiðingum að höfuð hennar slóst utan í hurðarpóstinn. Það hefði leitt til alvarlegra höfuðáverka. Auk þess hefði hægri fótleggur ökumanns orðið fyrir miklu hnjaski í árekstri. Helsti veikleikinn í Honda CR-V, sem er elsta hönnunin af þessum bílum, var of mikil færsla á stýri inn í farþegarýmið við árekstur. Þetta leiddi til þess að höfuð brúðunnar skall á stýrinu þrátt fyrir að þar væri líknarbelg að finna.

Hyundai Santa Fe fékk umsögnina "góður" og umsögnin hefði orðið "mjög góður" ef höfuð brúðunnar hefði ekki skollið á hurðarpóstinn. IIHS segir að þetta hefði þó ekki valdið alvarlegum áverkum en engu að síður kom þetta í veg fyrir að Santa Fe fengi fullt hús stiga.

Subaru Forester fékk einnig umsögnina "góður". Helsti veikleikinn var sá að hluti af mælaborðinu hefði getað valdið áverkum á hnjám ökumanns. Toyota RAV4 og Suzuki Vitara fengu umsögnina "viðunandi". Mikil framför þótti í hönnun Toyota RAV4 en líknarbelgurinn þótti samt ekki styðja nægilega við höfuð ökumanns. Fremsti hurðarpóstur á Vitara gekk inn í farþegarýmið og olli því að þakið gekk niður. Þetta þótti auka líkur á höfuðáverkum.

Yfirmenn IIHS lýstu yfir vonbrigðum með að aðeins tveir af sex bílum fengju umsögnina "góðir". Þeir bentu á að fólksbílar, svipaðir að þyngd, hefðu komið mun betur út úr sams konar prófunum.