Nýr BMW 7 er mikið breyttur frá fyrri gerð.
Nýr BMW 7 er mikið breyttur frá fyrri gerð.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BMW hefur birt fyrstu myndir af BMW 7-bílnum sem hefur verið endurhannaður frá grunni.

BMW hefur birt fyrstu myndir af BMW 7-bílnum sem hefur verið endurhannaður frá grunni. Þetta er tæknilegasti bíll BMW frá upphafi og honum er ætlað það stóra hlutverk að skora Mercedes-Benz S á hólm og sigurvegarinn í þeim slag ætti þá að hampa titlinum besti lúxusbíll í heimi.

Uppskrift BMW að betri 7-línu er einföld. Meira afl en um leið meiri sparneytni, ofurmjúk fjöðrun og byltingarkennt og hátæknivætt farþegarými.

Sagt er að nýja 7-línan, sem verður frumkynnt á bílasýningunni í Frankfurt í september, kosti um 3% meira en núverandi gerð. Sala hefst næsta vor.

Bíllinn er sagður stærri. Tvær V8-vélar verða í boði, þ.e. 3,6 lítra, 272 hestafla, og 4,4 lítra, 333 hestafla. Með stærri V8-vélinni verður upptakið með sex gíra sjálfskiptum kassa 6,3 sekúndur en 7,5 sekúndur í þeirri minni sem er betrumbæting um 0,7 sekúndur frá fyrri gerðum. Grunngerðin verður hins vegar með þriggja lítra V6, 231 hestafls, þeirri sömu og í X5-jeppanum. Einnig verða í boði a.m.k. tvær dísilvélar.

Mestu nýjungarnar verður að finna í innanrými bílsins. iDrive-stjórnstöðin, þar sem í venjulegum bílum er að finna gírstöngina, gerir óþörf öll hefðbundin stjórntæki sem menn eiga að venjast í bílum. Í framtíðinni verða allir BMW með iDrive. Þetta er í raun einn snúningsrofi og skjár í mælaborðinu. Saman stjórna þessar einingar allt að 400 aðgerðum, þ.m.t. loftkælingu, hljómtækjum og leiðsögukerfi. Auk þess hverfur hin hefðbundna gírstöng og í staðinn kemur valstilkur aftan við stýrið. Í stýrinu eru tveir takar sem gera virka steptronic-skiptinguna þannig að hægt er að skipta um gíra handvirkt með því að styðja á hnappana. Hinn hefðbundni kveikjulás er líka horfinn og í stað hans komin rauf fyrir ræsikortið og hnappur til að starta bílnum.