Kirkjan á þjóðhelgum Þingvöllum.
Kirkjan á þjóðhelgum Þingvöllum.
Síðu-Hallur Þorsteinsson og Þorgeir Ljósvetningagoði Þorkelsson vóru friðflytjendur og lykilmenn við kristnitöku á Alþingi árið 1000. Stefán Friðbjarnarson staldrar við þessa örlagavalda í sögu þjóðarinnar.

KRISTNITAKAN á Alþingi árið 1000 er merkasti atburður - og farsælasta löggjöf - í sögu þings og þjóðar. Fræðimenn hafa leitt fram ýmsar tilgátur um leyndardóminn að baki ákvörðunar Þorgeirs Ljósvetningagoða, er fór fyrir heiðnum mönnum á Alþingi, þegar hann sagði upp lög um kristinn sið. Leyndardóminn að baki þess að goðar allir og þingheimur féllust einróma á hinn nýja sið. Sennilega verður sannleikurinn allur seint sagður um þann forvitnilega aðdraganda. Um hitt er ekki deilt að í meginhlutverkum þessa sögulega viðburðar vóru tveir einstaklingar, tveir örlagavaldar: 1) Síðu-Hallur Þorsteinsson, Böðvarssonar hvíta, landnámsmanns Þorleifssonar. Móðir hans var Þórdís Özurardóttir keiliselgs, Hrollaugssonar landnámsmanns, Rögnvaldssonar jarls á Mæri. 2) Þorgeir Ljósvetningagoði Þorkelsson, Grímssonar af Roglandi, "er nam um Ljósvatnsskarð". Hann hafði lögsögu á Alþingi í 17 ár, 985 til 1002.

Hvað segja fornar heimildir um þessa tvo merku örlagavalda í sögu þjóðarinnar? Það er að hluta til rakið í merkri bók Jóns Hnefils Aðalsteinssonar, prófessors, "Kristnitakan á Íslandi" (Háskólaútgáfan 1999). Jón Hnefill setur í bók sinni fram forvitnilega kenningu um mannblót heiðinna manna í aðdraganda ákvörðunar þingheims árið 1000. Sú kenning er ekki umfjöllunarefni í þessum pistli. Fróðleiksfúsum er hins vegar ráðlagt að kynna sér þessa forvitnilegu bók. Hér verður aðeins staldrað við mannlýsingar á Síðu-Halli og Þorgeiri Ljósvetningagoða. Jón Hnefill segir.

"Síðu-Halls er víða getið í Njáls sögu. Þegar Flosi Þórðarson, tengdasonur hans, bjó sig til að hefna á Njálssonum vígs Höskulds, leitaði hann á fund margra höfðingja, en: "Flosi vildi ekki finna Hall, mág sinn, því að hann þóttisk vita að hann myndi letja allra sórvirkja."" Þess er enn getið er Ljótur, sonur Síðu-Halls, fellur í bardaga. Hallur leitar ekki hefnda, sem títt var, heldur bíður fram sættir: "En ek vil vinna þat til sætta að leggja son minn ógildan ok ganga þó til að veita þeim bæði tryggðir ok grið, er mínir mótstöðumenn eru ...". Þetta var fátíð breytni á þeirri tíð. Síðu-Hallur var friðarins maður en ekki heiftar og hefnda. Jón Hnefill vitnar og til fornra rita um Þorgeir Ljósvetningagoða og segir síðan: "Þær ályktanir, sem af þessum heimildum verða dregnar um Þorgeir Ljósvetningagoða eru þær, að hann hafi verið voldugur höfðingi og goðorðsmaður, vel látinn og friðsamur. Löng lögsaga ber vott um hæfileika og almennt traust ..." Í stuttu máli; maður friðar og sátta.

Síðu-Hallur, sem fór fyrir kristnum mönnum árið 1000, og Þorgeir Ljósvetningagoði, sem leiddi hina heiðnu fylkingu, fá báðir þann dóm, að þeir hafi verið friðflytjendur. Síðu-Hallur selur Þorgeiri Ljósvetningagoða í hendur að segja upp hin nýju lög, sem reyndust kristin lög. Og það undarlega skeður: Goðar allir og þingheimur meðtaka mótmælalaust. Þessi þjóðsáttarlög fela í sér, "að allir menn skuli kristnir vera og skírn taka, þeir er áður vóru óskírðir á landi hér". Kristnir menn fallast á móti á óbreytta stjórnskipan. Lögboðin afskipti goðanna af trúmálum falla um sjálf sig, en þeir halda veraldlegum völdum. Embætti þeirra verða veraldleg embætti.

Einar Laxnes segir í Íslandssögu sinni: "Auðveldan sigur kristni má vafalaust þakka því m.a., að heiðni stóð ekki djúpum rótum, er hér var komið sögu; menn vildu varðveita frið og góð samskipti við aðar þjóðir ..." Árið 1000 hafði kristinn siður fest rætur í flestum ríkjum, sem Íslendingar höfðu samskipti við. Kristni hafði og verið til staðar í landinu frá fyrstu mannvist, þótt heiðnir menn hafi ráðið stjórnskipan á landnámsöld. Mestu máli skipti þó, að í röðum beggja fylkinga, sem stóðu gráar fyrir járnum á Alþingi, vóru friðflytjendur, framsýnir menn, Síðu-Hallur og Þorgeir Ljósvetningagoði, sem vildu miðla málum og stuðla að sátt og samlyndi í landinu.

Hallur og Þorgeir vóru friðflytjendur. Kristinn boðskapur er og friðarboðskapur. Hann býður okkar að elska náungann eins og sjálfa okkur. Að breyta gagnvart öðrum eins og við viljum að þeir breyti gagnvart okkur. Að gjalda keisaranum, það er hinu veraldlega valdi, það sem hans er, - og Guði það sem Guðs er. Páll postuli sagði: "Látið frið Krists ríkja í hjörtum yðar, því að til friðar vóruð þér kallaðir sem limir á einum líkama ..." Megi sá friður ríkja með þjóðum heims. Með okkur öllum og sérhverjum.