*KONA lést og tveir drengir slösuðust á Norður-Spáni er sprengja, er komið hafði verið fyrir í leikfangi, sprakk inni í bíl fjölskyldunnar. Slasaðist annar drengurinn, aðeins 16 mánaða gamall, mjög alvarlega og missti sjón á báðum augum.

*KONA lést og tveir drengir slösuðust á Norður-Spáni er sprengja, er komið hafði verið fyrir í leikfangi, sprakk inni í bíl fjölskyldunnar. Slasaðist annar drengurinn, aðeins 16 mánaða gamall, mjög alvarlega og missti sjón á báðum augum. Yfirvöld saka baskneska skæruliða um ódæðið en þeir bera það af sér. Margt bendir þó til, að einhverjir stuðningsmenn þeirra hafi verið að verki.

*MIKIÐ hefur verið um að vera í Noregi síðustu daga vegna brúðkaups Hákonar krónprins og Mette-Marit Tjessem Høiby, einstæðrar móður, sem viðurkenndi á fréttamannafundi á miðvikudag, að hún hefði ekki alltaf lifað mjög grandvöru lífi. Norðmenn flestir virðast þó hafa fyrirgefið Mette-Marit og stuðningur við konungdæmið hefur heldur aukist en hann var kominn niður fyrir 60%.

*VERULEGUR hiti er að færast í baráttuna um það hver verður næsti leiðtogi breska Íhaldsflokksins. Samkvæmt skoðanakönnunum hefur Iain Duncan Smith aðeins forskot á Kenneth Clarke en Duncan Smith varð fyrir áfalli nú fyrir helgi þegar í ljós kom, að ráðgjafi hans og varaformaður kosningabaráttu hans tengdist óbeint hægrisinnuðum öfgaflokki. Hefur hann nú verið rekinn úr Íhaldsflokknum.