Afvopnun skæruliða að hefjast NATO samþykkti síðastliðinn miðvikudag að senda 3.500 hermenn til Makedóníu til að hafa eftirlit með afvopnun albanskra skæruliða í landinu.

Afvopnun skæruliða að hefjast

NATO samþykkti síðastliðinn miðvikudag að senda 3.500 hermenn til Makedóníu til að hafa eftirlit með afvopnun albanskra skæruliða í landinu. Hafa þeir verið að koma til landsins á síðustu dögum en deilt er um hve miklar vopnabirgðir skæruliða eru. Hafa verið nefndar tölur yfir skotvopn allt frá 3.000 og upp í 60.000. Hefur NATO fallist á lægri töluna en býst við, að taka við í mesta lagi 5.000 skotvopnum frá skæruliðum. Makedóníustjórn bindur sig aftur á móti við hærri töluna en aðrir segja, að fjöldi skotvopnanna skipti ekki máli. Hér sé fyrst og fremst um að ræða táknræna aðgerð og staðfestingu skæruliða á friðarsamningunum. Á þessu svæði sé hvort eð er allt fljótandi í vopnum.

Haldið í von um fund

YASSER Arafat, leiðtogi Palestínumanna, og Shimon Peres, utanríkisráðherra Ísraels, féllust á það í síðustu viku fyrir milligöngu Joschka Fischers, utanríkisráðherra Þýskalands, að ræða saman um nýtt vopnahlé. Vonast er til, að af fundinum geti orði nú í vikunni og þá líklega í Berlín en síðustu aðgerðir Ísraela þykja þó hafa spillt fyrir því. Hafa þeir haldið áfram flugskeytaárásum í því skyni að drepa Palestínumenn, sem þeir saka um hryðjuverk, og á fimmtudagskvöld lögðu þeir undir sig hluta Hebron-borgar á Vesturbakkanum. Gerðu þeir það að sögn til að hefna þess, að Palestínumenn skutu á og særðu ísraleskan dreng í einni af nýbyggðum gyðinga í borginni. Eyðilögðu ísraelsku skriðdrekarnir byggingar í borginni og upprættu allmikið akurland fyrir Palestínumönnum. Palestínumenn í miðborg Hebronar hafa verið í herkví Ísraela í heilt ár og stundum ekki fengið að fara út úr húsi dögum saman.