Aurskriður og brúarskemmdir AURSKRIÐUR féllu á veginn við Reyðarfjörð í miklu úrfelli sem gekk yfir Austurland á þriðjudag. Miklir vatnavextir fylgdu úrfellinu og voru skemmdir töluverðar.

Aurskriður og brúarskemmdir

AURSKRIÐUR féllu á veginn við Reyðarfjörð í miklu úrfelli sem gekk yfir Austurland á þriðjudag. Miklir vatnavextir fylgdu úrfellinu og voru skemmdir töluverðar. Brúin yfir Norðfjarðará er stórskemmd og jafnvel talin ónýt og talið er að tjón á vegum af völdum aurskriðna og flóða sé allt að sex milljónir króna. Engin slys urðu á fólki en sex kindur drukknuðu í Skriðdal.

Fjórir létust í Veiðivötnum

Þrír karlmenn og ein kona biðu bana í veiðiskála við Veiðivötn aðfaranótt sunnudags og er talið að ástæðan sé kolsýringseitrun sem hefur hugsanlega orðið vegna bruna í gaslampa. Veiðivörður kom að fólkinu látnu í veiðihúsi um kvöldmatarleytið á sunnudag. Húsið sem fólkið var í er um 25 fermetrar að stærð og voru dyr og allir gluggar lokuð þegar að var komið. Þegar gas brennur eyðir það upp súrefni úr loftinu og jafnframt myndast eitraðar úrgangslofttegundir og ef loftræsting er ekki nægilega góð hlaðast efnin upp og geta verið lífshættuleg.

Tap hjá ACO-Tæknivali hf. og Íslandssíma

ACO-Tæknival hf. birti fyrsta uppgjör sitt á föstudag í kjölfar sameiningar félaganna og nam tap af rekstrinum fyrir skatta 917 milljónum en tap tímabilsins eftir skatta 664 milljónum. Árni Sigfússon, forstjóri ACO-Tæknivals, segir að reksturinn sé augljóslega langt undir væntingum. Þá var Íslandssímasamstæðan rekin með 445 milljóna króna tapi á fyrri helmingi ársins og hefur þá verið tekjufært skattalegt tap upp á 189,5 milljónir.