Guðmundur, Elísabet og Ragna Margrét fyrir framan flugvél fjölskyldunnar á flugvelli í Vancouver.
Guðmundur, Elísabet og Ragna Margrét fyrir framan flugvél fjölskyldunnar á flugvelli í Vancouver.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í NOKKUR ár hafði hugmyndin um langa flugferð á lítilli einkaflugvél fjölskyldunnar blundað í hjónunum Guðmundi H.

Í NOKKUR ár hafði hugmyndin um langa flugferð á lítilli einkaflugvél fjölskyldunnar blundað í hjónunum Guðmundi H. Hjaltasyni húsasmíðameistara og Elísabetu Kristbergsdóttur meinatækni en þau skelltu sér í fjögurra vikna flugferð um þvera og endilanga Norður-Ameríku í fyrrasumar. Flugvélin er einshreyfilsvél af gerðinni Cessna 185, með einkennisstafina TF-VHH. Þau voru á lofti samtals í áttatíu tíma en þau flugu frá Íslandi til Grænlands, þaðan yfir á meginland Ameríku og síðan þvert yfir álfuna. "Elísabet þurfti að fara á ráðstefnu í Vancouver og ég bauðst í gríni til að skutla henni, svo fórum við að hugsa málið betur og hugmyndin varð að veruleika," segir Guðmundur. Ferðin var mjög vandlega skipulögð því þau þurftu að ná á ráðstefnuna í tæka tíð og hitta tíu ára dóttur sína í Minneapolis á leiðinni vestur. "Þetta var afskaplega þægilegur ferðamáti sem gerði okkur kleift að heimsækja marga merkilegam staði á stuttum tíma, til dæmis má nefna Niagara-fossana, Banf-þjóðgarðinn í kanadísku Klettafjöllunum og Íslendingabæinn Gimli." Þau mæla með ferð í þjóðgarðana í Black Hills sem er að sögn kunnugra er mun minna svæði en Yellowstone-garðurinn en fáfarnara og jafnvel skemmtilegra fyrir ferðafólk. Þar má m.a. sjá Rushmore-fjall þar sem andlit fjögurra forseta Bandaríkjanna eru höggvin í hamravegginn.

Gott að fljúga yfir Atlantshafið

"Flugið gekk vel og var til dæmis ferðin yfir Atlantshafið friðsæl og þægileg. Reyndar var nokkuð stressandi að fljúga yfir Klettafjöllin þar sem landslagið er hrikalegt og miklir sviptivindar geta verið." Flugmenningin í Bandaríkjunum er einstaklega afslöppuð og fólkið ótrúlega hjálpsamt og vingjarnlegt, að mati Elísabetar og Guðmundar. "Hvað eftir annað bauðst fólk, sem við hittum á flugvöllunum, til að skutla okkur á hótel eða bílaleigur, til dæmis komum við til Boston á þjóðhátíðardaginn, 4. júlí, og þá var allt lokað nema ein bílaleiga 50 km í burtu. Maður sem gaf sig á tal við okkur á flugvellinum bauðst til að skutla okkur og ekki kom til greina að fá að borga honum fyrir." Aðra sögu hafa þau hins vegar að segja af nágrönnum okkar á Grænlandi þar sem Danirnir stjórna flugsamgöngum. Þau segjast hafa fengið hálfgert áfall yfir stífni Dananna sem stjórna flugvellinum í Syðri-Straumfirði á Grænlandi. "Við lentum þrjár mínútur yfir fimm á laugardegi en vellinum hafði verið lokað klukkan fimm fyrir helgina. Þessar mínútur kostuðu okkur 11.000 krónur aukalega fyrir að koma á lokunartíma."

Á leiðinni til og frá Bandaríkjunum lentu þau í Iqualuit sem er 7.000 manna bær syðst á Baffinslandi í Kanada. "Hann er mjög einangraður og þangað kemur skip aðeins einu sinn á ári með vistir enda voru gríðarstórar geymslur í húsunum." Þau segja að íbúarnir hafi verið indælisfólk og mjög gestrisið. "Landslagið var fagurt á sérkennilegan hátt en mjög napurlegt og varla stingandi strá að sjá þótt hásumar væri og hafís var ennþá við land. Þó liggur svæðið töluvert sunnar en Reykjavík. Þá var okkur sagt að áður fyrr hefði þorpið verið fanganýlenda fyrir Kanada."

Vika í Vancouver

Guðmundur, Elísabet og Ragna Margrét dvöldu viku í Vancouver sem þau segja skemmtilega borg en þar dvöldu þau á hóteli sem rekið er af Íslendingafélaginu á staðnum og þau mæla eindregið með. "Þarna rignir mikið og er gróðursælt. Í borginni miðri er nokkuð stór eyja sem við hjóluðum í kringum. Borgin er fræg fyrir trélíkneski sem eru gerð af indíánum og síðan er gríðarstór hengibrú, Cappilano, í skógi rétt fyrir utan borgina sem gaman er að ganga yfir en er ekki fyrir lofthrædda."