MYND frá Bláa lóninu er á forsíðu ágústheftis pólska ferðablaðsins Voyage undir yfirskriftinni "Ísland, veldi goshveranna". Í blaðinu er síðan tólf síðna grein um Ísland, prýdd mörgum myndum víðs vegar af landinu.

MYND frá Bláa lóninu er á forsíðu ágústheftis pólska ferðablaðsins Voyage undir yfirskriftinni "Ísland, veldi goshveranna". Í blaðinu er síðan tólf síðna grein um Ísland, prýdd mörgum myndum víðs vegar af landinu.

Í greininni, sem Monika Witkowska skrifar, er sagt frá landi og þjóð og sérstök áhersla lögð á andstæður elds og íss. Landið sé sérstaklega athyglisvert frá náttúrunnar hendi og mikið að sjá, meðal annars vegna þess hve stór hluti þess sé óspilltur. Þá eru nákvæmar lýsingar á því hvernig heppilegast er fyrir ferðamenn að bera sig að við að heimsækja landið, hvar og hvað sé gott að borða, hvaða staði sé mikilvægt að skoða og hvernig, auk margvíslegra upplýsinga sem að gagni geta komið.

Voyage er útbreiddasta ferðablað í Póllandi og kemur út mánaðarlega. Þar er alla jafna fjallað um hina ýmsu staði í heiminum sem taldir eru athyglisverðir fyrir ferðamenn. Í ágústhefti blaðsins eru auk Íslands greinar um Tókýó, Krít, Slóvakíu og ýmsa staði í Póllandi.