Í BÓKINNI Afskekktar eyjar (Eccentric Islands), sem kom út í fyrra, er að finna tvo kafla um Ísland. Þar lýsir Bill Holm þeirri arfleifð sem fylgir íslenskum uppruna og kynnum sínum af landi og þjóð. Hér á eftir fara nokkrar glefsur úr bókinni: "...

Í BÓKINNI Afskekktar eyjar (Eccentric Islands), sem kom út í fyrra, er að finna tvo kafla um Ísland. Þar lýsir Bill Holm þeirri arfleifð sem fylgir íslenskum uppruna og kynnum sínum af landi og þjóð. Hér á eftir fara nokkrar glefsur úr bókinni:

"...Það að vera Íslendingur þýddi að hafa kveðskap í æðum, að hörfa aldrei undan hinum ríku og valdmiklu vegna þess að þú fæddist inn í það sem þeir gætu aldrei keypt eða ráðið yfir..."

"Þegar Bill Holm leit dagsins ljós 1943 var eyðingin alger. Hann ólst upp við mikla goðsögn og níu íslensk orð, þar af fjögur óguðleg, þrjú matarkyns og tvær kveðjur. Því vildi hann fara til Íslands og vera þar nógu lengi til að svala forvitni sinni, jafnvel að læra nokkur orð til viðbótar í móðurmáli foreldra sinna..."

"Fari heimsálfur fjandans til. Megi ég deyja hérna, þar sem hægt er að varpa mér í hafið til að reika endalaust um plánetuna eins og hvalur, spúandi froðukveðskap út í nepjuna..."

"...síðan [var farið fram hjá] bæ Gunnars á Hlíðarenda, sem honum þótti svo vænt um að fremur en að bjarga lífi sínu með því að fara í útlegð lítur hann aftur er hestur hans hrasar og mælir frægustu setningu íslenskra bókmennta: "Fögur er hlíðin, svo mér hefur hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar og slegin tún og mun ég ríða heim aftur og fara hvergi." Vitanlega deyr hann vegna þessa, veginn í launsátri inni í eigin húsi. Þessi setning hlýtur að lýsa því, sem sjómennirnir á Bakkafossi fundu fyrir þegar þeir sáu Eldey eftir ellefu daga til sjós. Bandaríkjamenn hafa alltaf misnotað og misskilið orðið "föðurlandsást". Þeir nota það sem kylfu og hengja skoðanir sínar á haus hennar. Ást á eigin landi kemur ekkert við utanríkisstefnu, brenndum flöggum, skattheimtu eða Maginot-línu gegn innflytjendum við landamærin. Hún snýst um ljós í hlíðinni, feitan maga á silungi í læk og lyktina af nýsleginni töðu."