Brimnes er annað húsið til hægri og þaðan er stutt í Vesturfarasetrið.
Brimnes er annað húsið til hægri og þaðan er stutt í Vesturfarasetrið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á sumrin má gjarnan heyra fagran píanóleik og söng hljóma frá Brimnesi, litlu, gömlu húsi við höfnina á Hofsósi. Þar ræður húsum fræðimaðurinn og skáldið Bill Holm, sem er háskólaprófessor í Bandaríkjunum á veturna. Steinþór Guðbjartsson tók hús á "víkingnum".

MARGIR afkomendur vesturfaranna svonefndu hafa í auknum mæli komið til Íslands í leit að upprunanum. Fræðimaðurinn Bill Holm hefur ekki látið sér það nægja, en hann hefur fjárfest í húsi á Hofsósi og vill helst hvergi annars staðar vera.

"Þetta byrjaði allt fyrir rúmlega 30 árum en ég kom fyrst til Íslands 1970," segir Bill Holm, en í nýjustu bók sinni, Eccentric Islands, segir hann um sjálfan sig að hann sé í raun eyja og vísar til þess að hólmi sé eyja.

Gistiprófessor fyrir tveimur áratugum

Bill Holm kom fyrst til Íslands fyrir rúmlega þremur áratugum og þá kviknaði ást við fyrstu sýn.

"Síðan kom ég og kenndi bandarískar bókmenntir við Háskóla Íslands veturinn 1979 til 1980, var gistiprófessor á Fulbrightstyrk. Þá kynntist ég vel mörgum Íslendingum, ekki síst nemendum mínum. Þar á meðal eru til dæmis Þorkell Þorkelsson, nú kennari við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, og Ástráður Eysteinsson, nú prófessor við Háskóla Íslands, einn skarpasti nemandi sem ég hef haft. Eins og hálfs árs dvölin var ánægjuleg en síðan liðu um 15 ár þar til ég kom aftur. Í millitíðinni hafði ég heimsótt staði eins og Kína og Madagaskar, en Ísland togaði alltaf í mig."

Á slóðir forfeðranna

Þegar Bill Holm kom til Íslands notaði hann tækifærið og fékk sér sumarvinnu á bóndabæ, einkum í þeim tilgangi að læra íslensku.

"Það litla sem ég kann í málinu lærði ég þá," segir hann. "Ég gleymi þessu á milli en orðin rifjast upp yfir sumarið ár hvert. Það þýddi ekkert að læra íslensku í Reykjavík og ég sagði Júlíusi Daníelssyni, einum nemanda mínum, að ég þyrfti að komast á bóndabæ. Hann sagðist hafa rétta bæinn fyrir mig og sendi mig austur á Gilsárteig en beint á móti var eitt sinn Heiðarskóli. Aukinheldur var þetta skammt frá Kóreksstöðum, þar sem langafi minn og amma, Jóhannes Sveinsson og Soffía Vilhjálmsdóttir, bjuggu. Ég vann þarna um sumarið, en þá voru nær engir malbikaðir vegir úti á landi og hringja þurfti á símstöð til að fá samband við Reykjavík eða fá upplýsingar um númer í Reykjavík. Á þessu hefur orðið mikil breyting. Landið er nú malbikað þvers og kruss og farsími í hverri hendi. En Gilsárteigur var sveitabær af gamla skólanum - íbúðarhúsið, hlaðan og gripahúsin voru samtengd."

Hann var á fertugsaldri og segist hafa kunnað lítt til verka. "Heimamenn hljóta líka að hafa hlegið oft, þótt ekki hafi verið nema með sjálfum sér, þegar ég datt af hestbaki, missti stjórn á hjólbörunum, setti heyið á rangan stað og svo framvegis. En þetta var dásamleg reynsla og ég hef skrifað um hana. Og þetta sveitalíf er mikilvægt í íslenskri menningu og ég vona að það hverfi ekki. Ég held að það sé mikilvægt að foreldrar á Stór-Reykjavíkursvæðinu hafi tækifæri til að senda börn sín í sveit á venjulegan bóndabæ svo að krakkarnir geti upplifað náttúruna fjarri sjónvarpinu og tölvunum en kynnst þess í stað kindunum og hestunum og fiskveiðunum. En fólk gerir þetta ekki lengur. Það sendir ekki börnin í sveit og það er miður, því í sveitinni eru hulin mikil þjóðarverðmæti."

Á slóðum Grettis

Bill Holm er Bandaríkjamaður af íslenskum ættum, tröll að vexti og minnir á hetjur Íslendingasagna. Hann er kunnur rithöfundur í miðvesturríkjum Bandaríkjanna og hefur gefið út margar bækur. Hann kennir bókmenntir við Southwest State-háskólann í Minnesota og átti frumkvæðið að ritlistarnámskeiðinu White Night Summer Workshop in Saga-Land, fyrir fólk frá Bandaríkjunum og Kanada, sem hann hefur staðið að á Hofsósi ásamt David Arnasyni, rithöfundi og yfirmanni ensku- og íslenskudeildar Manitoba-háskóla í Winnipeg í Kanada.

Bill Holm segir að hugmyndin með námskeiðunum sé tvíþætt: í fyrsta lagi að nota aðstöðuna á Hofsósi áður en ferðamannatíminn byrjar og í öðru lagi sé þetta kærkomin afsökun fyrir því að vera á Íslandi á besta tíma ársins.

Félagarnir ræddu hugmyndina á Hofsósi sumarið 1999, fyrsta námskeiðið var í fyrrasumar og síðan voru þeir með tvö námskeið í sumar. "Við útbjuggum bækling, sendum hann til fólks sem við þekktum í Bandaríkjunum og Kanada, auglýstum í Lögbergi-Heimskringlu og í bókmenntatímaritum í Minnesota. En það sem gerði gæfumuninn varðandi þetta námskeiðahald var beint flug Flugleiða milli Íslands og Minneapolis."

Í fyrrnefndri bók sinni, Eccentric Islands, segir Bill Holm meðal annars frá för sinni með 20 nemendur til Íslands fyrir fjórum árum. Þessir nemendur hans lásu Grettissögu en í kjölfarið var vettvangsskoðun. Í bókinni er haft eftir einni stúlkunni að Drangey líti út eins og afmæliskaka en áður en haldið var norður var móttaka hjá forsetanum á Bessastöðum. "Við fórum á alla sögustaði Grettissögu og lásum enska styttri þýðingu sem Örnólfur Thorsson hafði unnið sérstaklega fyrir okkur upp úr þýðingu sinni sem hann hafði gert fyrir Jóhann Sigurðsson. Jón Eiríksson, leiðsögumaður frá Fagranesi, fór með okkur í Drangey og staðfærði margt á léttu nótunum, sýndi krökkunum meðal annars hvar Grettir burstaði tennurnar og hvar hann borðaði eggin í morgunmat. Við hittum Axel Sigurjónsson, bónda á Bjargi, en hann lítur út eins og D.H. Lawrence. Hann fór með hópinn að Grettistaki og sýndi þeim hvar höfuð Grettis er grafið. Nemendur mínir voru dæmigerðir Bandaríkjamenn og spurðu Axel hvort hann tryði þessu í raun og veru. "Auðvitað," svaraði hann. "Hefurðu grafið það upp?" spurðu þeir þá en hann sagðist ekki hafa haft ástæðu til að raska hvíld þess enda hefði höfuðið verið þarna í þúsund ár. Þá varð mér hugsað til þess að Íslendingar trúa almennt ekki á hluti eins og upprisu holdsins en frekar á það sem stendur í Íslendingasögunum. Íslendingar trúa ekki að hrein mey fæði barn en þeir trúa því frekar hvernig hin fjölkunnuga kerling átti þátt í dauða Grettis með því að magna tréð sem slasaði hann óbeint í Drangey, samanber söguna. Ég kalla þá því bókstaflega bókstafstrúarmenn."

Hvergi betra að vera

Bill Holm heillaðist af Hofsósi við fyrstu sýn og vildi strax helst hvergi annars staðar vera en hann sá ekki möguleika á að sá draumur rættist að einhverju eða öllu leyti. "Ég sagði við Valgeir Þorvaldsson, framkvæmdastjóra Vesturfarasetursins, að ég væri of fátækur til að geta eignast hús hérna en hann var á öðru máli. "Ég held að Brimnes sé rétta húsið fyrir þig," sagði hann en það var fyrsta húsið sem ég gisti í á Hofsósi og fyrsta húsið sem hann bjargaði frá glötun og endurbætti."

En hvers vegna á Hofsósi? "Það er ekki til betri staður fyrir rithöfund en Hofsós. Hvenær sem er sólarhringsins fylgir því svo mikill kraftur að líta út um gluggann og sjá fjörðinn, Tindastól og höfnina, og þessi kraftur nýtist við skriftirnar. Ég skrifa 152 síður hérna á sumrin. Um leið og námskeiðunum lýkur sest ég við skriftir og skrifa allan daginn, öll kvöld, í þrjá mánuði. Hins vegar sem ég ekki eitt einasta ljóð, skrifa ekki staf í þá veru, meðan á níu mánaða kennslunni stendur í Bandaríkjunum."

Það eru ekki bara bjartar sumarnætur sem heilla. Bill Holm segist hafa verið annars hugar um tíma í vetur sem leið og notað tækifærið til að fara til Skagafjarðar til að fara á þorrablót. "Ég saknaði vina minna þar og Hofsós er hluti af mér. Í mínum huga er Skagafjörður fallegasti staður á Íslandi en í því sambandi ber að hafa í huga að mér er ekki gefið um tré, ég kann hvorki við þrönga firði né skóga. Draumafjörðurinn minn er víður með fögur fjöllin til beggja hliða í fjarska, grasi vaxnar hlíðar með blómum og dýrum á dreif. Ég vil hafa klettaeyjar hér og þar á firðinum þar sem öldurnar brotna og ég vil hafa útsýnisstað við fjarðarbotninn þar sem sjá má út fjörðinn, 100 til 150 kílómetra, og tignarleg fjöll og jökla, sé horft í aðrar áttir. Jafnvel Austur-Grænland og Noreg. Allt frá sama staðnum."

Íslenska og lestur bóka

Bill Holm segir að erfitt sé að vera rithöfundur í Bandaríkjunum og því hafi hann ráðið sig í kennslu. "Ljóðskáld í Bandaríkjunum verður að afla tekna með öðrum hætti og þess vegna flutti ég aftur til Minnesota og tók að mér kennslu við South West State-háskólann," segir hann.

Fræðimaðurinn er að mörgu leyti íslenskur til orðs og æðis. "Ég ólst upp á meðal Íslendinga í Minnesota. Þangað fluttu um 800 Íslendingar, einkum frá Vopnafirði, og foreldrar mínir voru af íslenskum ættum. En uppruni minn er blandaður því að þremur fjórðu er ég úr Múlasýslu en einum fjórða úr Þingeyjarsýslu."

Hann segir að amma sín hafi komið til Winnipeg í Kanada árið 1902. Afi sinn hafi misst fyrri konu sína við barnsburð, en hún hafi átt sjö börn á átta árum. Hann hafi þurft íslenska konu til að ala upp börnin og því farið til Winnipeg. "Íslenska var fyrsta tungumál foreldra minna en enskan var þeirra annað mál. Þeir töluðu íslensku sín á milli og alltaf við eldra fólkið en ekki við mig. Ég lærði einstaka orð, "andskotans vitleysa", "helvítis", "djöfulsins", "komdu sæl", sagði ég við gamlar konur og "komdu sæll", við eldri menn, "blessaður", sagði setningar eins og "he went to the kamar" (hann fór á kamarinn), og kunni heiti á ýmsu matarkyns. Íslensk orð rötuðu inn í málfar okkar krakkanna og við héldum að þetta væru venjuleg ensk orð en annað kom síðar á daginn."

Hann segist hafa verið alinn upp með því hugarfari að líta á sig sem Vestur-Íslending frekar en Bandaríkjamann. Umhverfið hafi líka verið "íslenskt". "Séra Guttormur Guttormsson frá Krossavík í Vopnafirði var prestur í íslensku kirkjunni í Minnesota í hálfa öld. Hann messaði á íslensku og haldin voru kirkjuþing á íslensku en prestarnir vildu ekki ræða alvarleg mál á ensku. Íslendingar fóru ekki endilega mikið í kirkju en lögðu engu síður áherslu á að fá greftrun í vígðri mold."

Bill Holm segist hafa erft annan hæfileika, þann að lesa bækur. "Ég vildi ekkert gera nema lesa og skrifa bækur. Gamla fólkið hæddi mig ekki fyrir þetta, en eitt vandamál í Bandaríkjunum er að ef krakki er ekki í íþróttum og vill lesa eða skrifa er hann niðurlægður, jafnt af jafnöldrum sem fullorðnum. Þeir eldri líta á hann sem letingja eða heimskingja en gömlu Íslendingarnir sáu þetta í öðru ljósi. Ég las ljóð mín fyrir þá og þeir hrósuðu mér, sögðu að ég ætti að vísu nokkuð í land en gæti orðið skáld. Það er sjaldgæft í Bandaríkjunum að barni sé hrósað en Íslendingarnir virtu bókmenntir, gáfu mér bækur og áttu hús full af bókum. Ég var mjög undrandi þegar ég kom heim til bandarísks miðstéttarfólks, sem hafði gengið á háskóla og lokið prófi í læknisfræði, lögfræði, stjórnmálafræði,viðskiptum og svo framvegis, og sá að þetta fólk átti engar bækur. Á "íslensku" bændabýlunum voru hins vegar alls konar bækur, Íslendingasögur, stjórnmálabækur, ljóðabækur og svo framvegis, en með tímanum sá ég hvað Bandaríkin voru ólík íslenska samfélaginu hvað þetta varðar og mér líkar það ekki."

Píanóið nauðsynlegt

Brimnes er lítið en heillandi hús við höfnina í gamla bænum á Hofsósi. Þar lætur Bill Holm fara vel um sig á sumrin.

"Margir Bandaríkjamenn myndu borga milljónir fyrir útsýnið sem ég hef út um gluggann á salerninu, hvað þá fyrir útsýnið úr öðrum gluggum," segir Bill Holm, sem sinnir jafnframt öðru áhugamáli sínu í stofunni í Brimnesi. Hann spilar þar á píanó og er mikill djassisti. "Ég get ekki lifað án þess að vera með píanó," segir hann og það kemur reyndar berlega fram í títtnefndri bók. "Ég byrjaði að æfa mig sjálfur en fór svo í píanótíma þegar ég var í háskóla. Ég hef spilað á píanó nær alla ævi og þegar ég var í skóla vann ég fyrir mér með píanóleik. Spilaði hvað sem var og geri enn. Svo syng ég líka og hef verið í kór."