Blómsveigur hefur verið lagður við styttu af Makaríosi erkibiskupi.
Blómsveigur hefur verið lagður við styttu af Makaríosi erkibiskupi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Náttúrufegurð Kýpur er bæði stórbrotin og fjölbreytileg og sögulegar minjar frá ólíkustu tímaskeiðum liggja einsog hráviði um gervalla eyna. Sigurður A. Magnússon fjallar um sögu Kýpur og menningu.

Þegar ég snemma árs 1961 heimsótti Makaríos erkibiskup, nýkjörinn forseta Kýpur, var hann bjartsýnn á að lýðveldið unga ætti sér framtíð, þó undangenginn áratugur hefði verið ærið róstusamur og samsetning þings og ríkisstjórnar væri í senn sérkennileg og þung í vöfum. Lýðveldið hafði verið stofnað 1960 með samkomulagi þriggja ríkja, Bretlands, Grikklands og Tyrklands, við tvö stærstu þjóðarbrotin á eynni, það gríska og það tyrkneska. Stjórnarskránni mátti ekki breyta nema með samþykki ríkjanna þriggja. Samkvæmt henni skyldi forsetinn vera af grískum uppruna og varaforsetinn af tyrkneskum. Það hafði í för með sér að forsetinn var í rauninni valdalaus meðþví varaforsetinn hafði neitunarvald í öllum meiriháttar málum. Þingið var skipað 40 fulltrúum, 25 af grískum uppruna, 15 af tyrkneskum. Til að ná fram að ganga urðu frumvörp að njóta fylgis meirihluta í báðum hópum, þannig að 25 atkvæði grískumælandi þingmanna nægðu ekki, heldur þurfti líka stuðning minnst 8 manna í tyrkneska hópnum. Gervallt samfélagið auðkenndist af svipaðri sundrung. Hvort þjóðarbrot hafði sína skóla, sínar fjámálastofnanir (innlendir bankar voru ekki til) og sína dómstóla - nema tvo æðstu dómstólana: sakamáladómstóllinn laut írskum og stjórnlagadómstóllinn þýskum forseta.

Makaríos var forseti lýðveldisins frammí júlí 1974, þegar gríska herforingjastjórnin gerði samsæri um að ráða hann af dögum og setja á forsetastól dæmdan morðinga og blaðamann, Níkos Sampson, sem var við völd í nokkra daga og naut fulltingis Bandaríkjastjórnar. Makaríos hafði fengið pata af samsærinu og komst undan með nálega yfirnáttúrlegum hætti, fyrst til vesturstrandarinnar, síðan til einnar herstöðvar Breta á eynni og loks til Bretlands. Tyrkir gerðu innrás og lýðveldið liðaðist sundur, en herforingjastjórnin í Aþenu hrökklaðist frá völdum. Makaríos sneri aftur til gríska hlutans og var forseti Kýpur til dauðadags 1977.

Tyrkneska yfirráðasvæðið á Kýpur hefur ekki verið viðurkennt af neinu ríki nema Tyrklandi. Gríski hlutinn er hið eiginlega Kýpurlýðveldi og á aðild að Sameinuðu þjóðunum. Þegar Tyrkir gerðu innrásina lögðu þeir undir sig norðausturhluta eyjarinnar sem var bæði frjósamari og lífvænlegri en suðvesturhlutinn. Hinsvegar urðu ótrúlegir erfiðleikar grískumælandi eyjarskeggja til að þjappa þeim saman og vekja með þeim frumkvæði og framtaksvilja sem á næstu áratugum gerbreyttu lífskjörum þeirra og gerðu landsvæðið sem þeir höfðu til umráða að paradís fjármálajöfra og ferðamanna. Til marks um það má meðal annars hafa að fyrir fjórum áratugum vildu 90% grískumælandi eyjarskeggja sameiningu við Grikkland, en nú eru í hæsta lagi 10% þeirra hlynntir sameiningu, enda lífskjörin snöggtum betri en almennt gerist í Grikklandi.

Köflótt saga

Kýpur liggur á mörkum þriggja heimsálfa og á sér óralanga og ákaflega köflótta sögu. Einhverjar elstu mannvistarleifar Evrópu fundust árið 1934 miðjavega milli hafnarborganna Larnaka og Límassól á stað sem nefnist Khírókítía. Ofarlega í hlíð milli tveggja hæða fundust leifar 60 lítilla hringlaga húsa frá nýsteinöld (6800 f. Kr.) með bekkjum meðfram veggjum, sem greinilega voru bæði sæti og svefnpláss, og mjóum rifum til að veita inn birtu. Stærsta húsið, 6 metrar í þvermál, var sennilega aðsetur höfðingjans. Einungis lítill hluti svæðisins hefur verið grafinn upp, en talið er að um 2000 manns hafi búið þar og verður að teljast merkilegt á þeim tíma.

Hér er ekki rúm til að rekja nema í mjög grófum dráttum 9000 ára sögu Kýpur, en hún hefur óneitanlega verið viðburðarík og með köflum róstusöm. Steinaldirnar og bronsaldirnar (6800 til 1400 f. Kr.) hafa skilið eftir sig margvíslegar minjar. Síðbronsöld (1600-1400) var hámenningarskeið með fyrstu rittáknum (80 talsins), baðkerum, skolpræsum og nýjum stíl í leirkeragerð. Þá voru 3 voldug borgríki komin til sögunnar og mynduðu með sér ríkjasamband. Um 1400 gerðu Mýkenar innrás og fluttu með sér leirkerahjólið og nýja skreytilist (skepnur, sjávardýr). Þá kom Afródíta líka til sögunnar og hafði með í för bæklaðan eiginmanninn, smíðaguðinn Hefestos, enda var málmvinnsla tekin að þróast. Kopar var ríkulegur á eynni og varð helsta auðlind eyjarskeggja. Nafnið á eynni mun vera dregið af kopar. Kringum 1200 voru 7 voldug borgríki á eynni og sendu meðal annars herafla til Tróju, en 150 árum síðar lagði jarðskjálfti mörg borgríkjanna í rúst. Aldirnar fjórar eftir 1200 voru hinar "myrku aldir" í sögu grískrar menningar, en uppúr 800 hófust nánari samskipti Kýpur við grísku borgríkin, einkum eyna Evböu. Á áttundu öld réðu Assýríumenn um skeið yfir eynni, en Egyptar og Persar á sjöttu öld. Uppreisn jónísku borgríkjanna gegn Persum kringum 500 varð Kýpurbúum dýrkeypt. Þá voru tíu sjálfstæð borgríki á eynni og öll nema Kítíon jöfnuð við jörð. Eftir árið 498 f. Kr. var Kýpur ekki sjálfstæð fyrren á síðustu öld (1960).

Eftir daga Alexanders mikla varð Kýpur hérað í konungdæmi Ptólemeosar í Alexandríu, en féll í hendur Rómverja árið 58 f. Kr. Á rómverska skeiðinu komu kristniboðarnir Páll postuli, Barnabas og Jóhannes til Kýpur einsog frá segir í Postulasögunni. Barnabas er sagður hafa verið fyrsti biskup á Kýpur. Kristni var lögtekin árið 323, en á árunum 332 og 335 urðu gífurlegir jarðskjálftar og lögðu nálega allar borgir á eynni í rúst. Á næstu öldum laut Kýpur Miklagarðskeisara, en frá sjöundu frammá tíundu öld urðu eyjarskeggjar fyrir ítrekuðum árásum Araba með þeim afleiðingum að þeir fluttu borgir sínar inní land. Níkefóros Fókas Miklagarðskeisari hrakti Araba endanlega á brott árið 963 og innleiddi 200 ára friðartímabil. Á því skeiði voru stofnaðar borgirnar Kýrenía, Famagústa, Níkósía og Límassól og reistir þar miklir kastalar og varnarvirki.

Síðan komu krossfarar til sögunnar og áttu eftir að gera mikinn usla. Árið 1191 vann Ríkarður ljónshjarta eyna og seldi hana Musterisriddurum, en þeir skiluðu henni aftur og Ríkarður seldi hana krossfaranum Guy de Lusignan. Hann varð ættfaðir konungsættar sem ríkti yfir Kýpur og Jerúsalem, þartil krossfarar misstu allt sitt í Landinu helga árið 1291. Á þessu hundrað ára skeiði var Famagústa ein auðugasta borg í heimi og mátti rekja til þess að páfi hafði lagt blátt bann við beinum viðskiptum kristinna manna við "heiðingja". Ætt Lusignans var við völd í 300 ár framtil 1489, þegar Feneyingar tóku við stjórninni og ríktu til 1571. Þá unnu Tyrkir eyna eftir gífurlegt blóðbað. Á valdatíma Feneyinga kom Óþelló stuttlega við sögu. Hið fræga leikrit Shakespeares gerist að meginhluta á Kýpur. Á valdaskeiði Tyrkja var efnt til nokkurra blóðugra uppreisna. Þegar Grikkir hófu frelsisstríðið á meginlandinu 1821, lét tyrkneski landstjórinn á Kýpur drepa Kýpríanos erkibiskup og þrjá biskupa ásamt helstu fyrirmönnum Grikkja á eynni. Valdatíma Tyrkja lauk árið 1878 þegar Bretar náðu eynni á sitt vald með samningum við Tyrki. Bretar ríktu framtil 1960.

Kjörland ferðamanna

Þetta snubbótta yfirlit gefur fátæklega hugmynd um aldalangar hörmungar ótalinna kynslóða sem voru þannig í sveit settar, að heimkynni þeirra var stöðugt bitbein aðvífandi ofbeldismanna. Grískumælandi Kýpurbúar samtímans bera þess samt ekki merki að þeir séu afkomendur þessara langhrjáðu kynslóða. Öðru nær. Þeir eru lífsglaðir, gamansamir, vingjarnlegir, gestrisnir og hafa sérstakt lag á að umgangast aðkomumenn þannig að þeim finnst þeir vera í samneyti við gamla vini eða jafnvel ættingja sem þeir hafa lengi verið fjarvistum við. Þó ferðamannaþjónusta sé orðin umtalsverð tekjulind, hefur eyjarskeggjum auðnast að halda henni innan þeirra marka, að öll fyrirgreiðsla er afslöppuð og persónuleg, laus við þá hvimleiðu peningahyggju sem alltof víða setur soramark á túrismann.

Sjálf hefur Kýpur uppá undramargt að bjóða. Að frátöldum margskonar skemmtigörðum fyrir yngstu kynslóðina eru fjallaferðir meðal þess sem vinsælast telst, enda er náttúrufegurð bæði stórbrotin og fjölbreytileg. Sögulegar minjar frá ólíkustu tímaskeiðum liggja einsog hráviði um gervalla eyna. Söfn eru mörg og einkar fróðleg, ekki síst Kýpursafnið í Níkósíu og helgimyndasafnið í Menningarmiðstöð Makaríosar, stórfenglegar freskó- og mósaíkmyndir í kirkjum víðsvegar um eyna, forn leikhús og önnur mannvirki frá löngu liðnum tímum, kastalar og varnarvirki (til dæmis sérkennilegur borgarmúrinn í Níkósíu), að ógleymdum "Kletti Afródítu" (hana nefndu Rómverjar Venus) í námunda við Pafos. Þar er ástargyðjan (sem reyndar varð móðurgyðja á Kýpur) sögð hafa risið úr sjávarlöðrinu, enda merkir nafn hennar "gjöf löðursins" (afros=löður).

Ekki er ástæða til að láta ógetið "grænu línunnar" í Níkósíu, sem skilur gríska borgarhlutann frá þeim tyrkneska og minnir á ekkert fremur en múrinn sáluga í Berlín. Þegar horft er yfir þennan manngerða tálma, sem skiptir eynni í tvennt, verður manni dagljós munurinn á sóttheitri framkvæmdagleði Grikkjanna og tómlátu athafnaleysi Tyrkjanna sem virðast haldnir einhverju annarlegu sleni eða magnleysi. Níkósía Grikkjanna er borg sem iðar af gneistandi og litríku lífi. Sama má reyndar segja um hafnarborgirnar tvær, Larnaka og Límassól, en Famagústa, sem liggur norðanvið "grænu línuna" og var áðurfyrr helsta hafnarborg eyjarskeggja, virðist um sinn hafa fallið í svefndá.