Stefán Jón Hafstein
Stefán Jón Hafstein
Deilan um þetta mál táknar aldahvörf, segir Stefán Jón Hafstein: Viljum við kveðja 20. öldina strax eða fresta komu þeirrar nýju um langa hríð?

ÞAÐ kann að vera að leiðarahöfundur Morgunblaðsins hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði að deilan um Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði snerist um grundvallarspurningu samtímans: Á hverju við ættum að lifa? Tvær heimsóknir á virkjanasvæðið og kynningarfyrirlestrar bæði Landsvirkjunarmanna og álversmanna staðfesta efasemdir mínar um að sú leið sé rétt svar við spurningunni.

Stjórnmálamenn agnúast út í matsferli sem eigin lög krefjast, því það ógnar pólitískri eðlishvöt þeirra. Lög sem segja að ekki skuli ráðist í óafturkræf spjöll á náttúru landsins eru sett til að besta fáanleg þekking liggi fyrir áður en fullnaðarákvörðun er tekin. Hið pólitíska vald er ekki afmáð. Því eru settar eðlilegar skorður um að rökstyðja og skilgreina vilja sinn og markmið. Viðbrögðin eru frumstæð og heiftarleg, sem bendir til að önnur hugsun um málið sé af sama toga.

Ákvörðun um hina risavöxnu Kárahnjúkavirkun er ótímabær af þeirri ástæðu einni að ekki liggur fyrir rammaáætlun um virkjanaröð fyrir þá gríðarlegu orku sem er óbeisluð í landinu. Þessari virkjun er veittur forgangur á alla almenna stefnumótun um orkunýtingu og náttúruvernd. Fyrir einn orkukaupanda.

Kortlagning íslenskra náttúruauðlinda er skammt á veg komin, brýnt verkefni sem bíður. Grundvallarstefnu um auðlindagjöld og mengunarskatta þarf að útfæra, samanber skuldbindingar okkar vegna Kyotosáttmálans og óútkljáðar tillögur auðlindanefndar. Ný hugsun um varðveiðslu og nýtingu náttúrugæða er ögrun við hefðbundna rányrkju, samanber þá erlendu fræðimenn sem koma með brýningu þar um. Þessir mörgu pólitísku þættir málsins krefjast þess að það sé kannað í þaula.

Tortryggileg framkvæmd

Rammpólitísk þráhyggja knýr málið og sést af því að hvergi reynir á markaðinn eða viðurkennt rekstrarlegt aðhald. Vegna svo stórrar virkjunar ætti Landsvirkjun að stofna sérstakt félag með innlendum og erlendum fjárfestum, sem kæmu að eins og hver annar arðsemiskrefjandi málsaðilji. Þannig flyttist fjármagn til verksins frá útlöndum og sjálfstæðir útreikningar fengjust á viðskiptalegum forsendum. Nú sitja pólitískir kommissarar Landsvirkjunar á leynireikningum og krefjast ríkis- og bogarábyrgðar fyrir risavöxnum erlendum lánum. Á hinn kantinn sitja pólitíkusar og beita þrýstingi á kommissara í lífeyrissjóðnum að koma með stofnfé. Hvers vegna fæst þetta fé hvergi annars staðar í heiminum? Hvers vegna kemur Norsk Hydro ekki með fé, þýskir bankar eða svisskenskir sjóðir? Þetta er pólitíkusabrall sem fær hvergi markaðslegt aðhald.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun hafa Íslendingar aukið raforkuframleiðslu sína um 50% á síðustu fimm árum. Þetta gerðist nánast mótmælalaust af hálfu umhverfisverndarsinna, sem fráleitt verða sakaðir um öfgar gegn orku. Stórir virkjanakostir bíða víðar og enn er meiri orka óbeisluð en beisluð. Þá bjóðast líklega tveir stóriðjukostir á næstu árum, stækkun Ísals og álverksmiðjunnar á Grundartanga. Hægt er að útvega orku til þeirra frá þeim virkjunum sem þegar eru til eða fást án svo mikilla umhverfisspjalla sem boðuð eru norðan Vatnajökuls. Margt mælir með að þeir kostir séu nýttir í mjúka lendingu fyrir hagkerfið á næstu tíu árum samtímis nauðsynlegri nýsköpun.

Hægvaxtarskeið

Til frambúðar er hættulegt að eiga allar útflutningstekjur undir sjávarútvegi og stóriðju. Við verðum að hraða okkur yfir í fjölbreyttari og þróaðri iðnað og þjónustu sem byggist á tækni og þekkingu. Einstakt tækifæri býðst strax því núlifandi Íslendingar eru þeir auðugustu sem uppi hafa verið. Svigrúmið á vinnumarkaði er mikið, við flytjum inn hundruð manna á mánuði í störf. Gengi gjaldmiðils er hagkvæmt útflutningi. Þróunarfyrirtæki ganga gegnum holla aðlögun sem fráleitt er að túlka sem ,,efasemdir" um þekkingariðnað.

Efnahagslegt markmið ætti að vera hægvaxtarskeið með áherslu á nýsköpun. Ekki óðaþensla í hráefnisvinnslu. Viðskiptahugmyndin með Kárahnjúka og álverið er þessi: Norðmenn selja okkur hráefni sem við bræðum með rafmagni og þeir selja afurðina. Við leggjum til stofnkostnaðinn: 300-400 milljarða króna. Við leggjum til náttúruverðmætin. Við leggjum í pólitískan herkostnað, heima og erlendis. Þeir nota hugvitið.

Í staðinn fyrir þetta eigum við að ákveða að á Íslandi verði menntaðasta vinnuafl í heimi eftir tuttugu ár. Nú hættir þriðji hver nemandi áður en hann lýkur framhaldsskólanámi; við útskrifum mun færri stúdenta hlutfallslega en Norðurlöndin og erum neðarlega á lista OECD í framlögum til menntamála. Ef við hefðum menntaðasta vinnuafl í heimi eftir fá ár gætum við valið úr verkefnum á heimsmarkaði. Hagvöxtur stendur í beinu sambandi við menntun þjóða. Á því stóra viðskiptafæri eigum við að lifa.

Náttúruverndarsjónarmið

Það er kominn tími til að meta náttúruna sjálfa, ósnortna og heila, sem verðmæti í sjálfu sér. Verðmæti fyrir manninn, sálarheill hans og frið, fyrir dýrin og fyrir lífríkið í heild. Fyrir óræða framtíð.

Það merkilega við hálendið er að það er miklu minna en orðræðan gefur tilefni til að ætla. Flug og bíll skila gesti frá Reykjavík til Kárahnjúka á 3-4 tímum. Helstu perlur öræfanna norðan Vatnajökuls eru í helgarferðarfjarlægð: Askja, Herðubreið, Snæfell, Hafrahvammagljúfur.

Rökstuddar kenningar segja að þessi verðmæti verði mun meiri í náinni framtíð en við getum ímyndað okkur nú. Það er óumdeilt að við fórnum miklu með því að spilla öræfum norðan Vatnajökuls. Hin grátlega fullyrðing Landsvirkjunar um að sú fórn sé minni en þjóðhagslegi ávinningurinn byggist á vanþekkingu í skjóli "hagvísinda" sem engin eru og taka ekkert mark á því sem til er kostað. Líklega er engin leið að meta þann fjársjóð sem nú er ósnortinn norðan Vatnajökuls, sem þýðir að við höfum ekki hugmynd um hvort borgar sig að fórna honum. Þó hafa fræðimenn þróað leiðir til þess að verðmeta náttúru af þessu tagi, og á þær raddir eigum við að hlýða.

Útilokar eitt annað?

Kárahnjúkavirkjun og álver munu soga til sín fjármagn, atgervi, vinnuafl heima og erlendis og auka þá miklu þenslu sem enn slær ekki á. Vinnuafl færist í stórum stíl yfir í skammtímabólu og skilur eftir menntastofnanir og sprotafyrirtæki án möguleika til að keppa í efnahagsumhverfi sem verður þeim harðdrægt. Þegar þenslubólan hjaðnar stöndum við með ofvaxinn byggingariðnað, tæmda þróunarmöguleika álversins, skuldbindingar um gríðarlega orkusölu og vinnuafl sem stillt er inn á allt aðrar forsendur en þarf til að gera Ísland að hátæknivæddu þekkingarsamfélagi.

Það er ekki þjóðhagslegt vandamál fyrir Íslendinga hvort íbúar Mið-Austurlands eru 8.000 eða 10.000. Munurinn á þessum tveimur tölum er íbúafjöldi eystra, fyrir og eftir Kárahnjúkavirkjun og risaálver, sem kosta saman milli 300 og 400 milljarða. Tvö þúsund íbúar á tíu árum. Fyrir lánsfé erlendis og innlenda áhættu. Svo brengluð er byggaðumræðan að þessi hlutföll kostnaðar og ávinnings eru talin frambærileg. Við skulum ræða byggðamál hvenær sem er við þá sem stjórna flóttanum af landsbyggðinni, en þetta er út í hött.

Vanreiknaðir kostir

Verst er einsýnin. Aðrir kostir til að nýta náttúruna og virkja vinnuaflið fá enga skoðun sem jafnast á við þann eina möguleika sem nú er ræddur. Náttúruverndarkostir eiga að fá að minnsta kosti jafn gaumgæfilega skoðun og virkjanakostir, áður en þeim er stórspillt. Atvinnulífið er hættulega einhæft og verður að fá þá fjölhæfni sem hámenntað vinnuafl getur skapað. Þetta verkefni er ekki of stórt. Það er of smátt. Þessi atvinnustefna er pólitískt knúin neyðarredding, minnisvarðakomplex. Hún megnar ekki að brjóta af okkur klafa vanahugsunar og umskapa hagkerfið, stilla samfélagið á nýja strauma og skapa sátt manns og náttúru. Deilan um þetta mál táknar aldahvörf: Viljum við kveðja 20. öldina strax eða fresta komu þeirrar nýju um langa hríð?

Höfundur er þáttagerðarmaður í sjónvarpi og áhugamaður um þjóðmál.